Fara í efni

Tillaga um lögfræðilega úttekt á hitaveituréttindum sveitarfélagsins

Málsnúmer 1411213

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 321. fundur - 26.11.2014

Sigurjón Þórðarson kynnti tillöguna.
Tillaga um lögfræðilega úttekt á hitaveituréttindum sveitarfélagsins.
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkir að láta nú þegar gera lögfræðilega úttekt á hitaveituréttindum á þeim lindum sem Skagafjarðarveitur nýta. Forgangsraða skal í verkefninu með þeim hætti að hafist verði strax handa við úttekt á hitaveituréttindum við Reykjarhól við Varmahlíð.

Greinargerð
Skagafjarðarveitur hafa haft að leiðarljósi að tryggja íbúum og fyrirtækjum heitt vatn á hagstæðu verði og stækka þjónustusvæði hitaveitunnar. Til að svo megi verða til framtíðar er nauðsynlegt að það fari fram lagaleg úttekt á heitavatnsréttindum á þeim lindum sem Sveitarfélagið Skagafjörður nýtir.
Í samfélaginu er uppi ákveðin sókn stórfyrirtækja í að ná til sín orkuauðlindum landsins og má sjá skýr merki þess í Skagafirði. Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar almennings séu á varðbergi gagnvart ásælninni og tryggi að Skagafjarðarveitur geti um ókomna framtíð þjónað markmiðum sínum.
Á síðasta kjörtímabili Sveitarstjórnar Skagafjarðar var lögð fram nánast samhljóða tillaga, ef frá er talið að nú er hnykkt á því að hefja eigi vinnuna við úttektina strax og það við hitaveituréttindi við Varmahlíð. Tillagan var samþykkt með umtalsverðum breytingum þegar hún var lögð fram í febrúar sl., en samþykkt var breytingartillaga frá oddvita Framsóknarflokksins sem gerði verkefnið mun umfangsmeira en um leið óljósara og tímafrekara. Breytingin hafði það í för með sér að úttektin átti einnig að ná til kaldavatnsréttinda. Auk þess sem breytingatillagan gerði ráð fyrir að kanna réttindi allra hita og kaldavatnsréttinda, sem mögulegt væri að nýta í víðfeðmu sveitarfélagi en ekki einungis til þeirra hitaveituréttinda sem eru nú þegar í notkun.
Það fór eins og sumir óttuðust, að breytingartillaga framsóknarflokksins reyndist það yfirgripsmikil að hún yrði til að tefja lagalega úttekt á heitavatnsréttindum á þeim stöðum sem mest liggur nú á að skýra réttindi sveitarfélagsins eins og við Reykjarhól í Varmahlíð. Ljóst má vera að slík heildræn úttekt getur tekið langan tíma og ekki bætir úr skák að samhljóða samþykkt sveitarstjórnar frá 12. febrúar sl. hefur enn ekki verið lögð fram í veitustjórn og fátt sem bendir til þess að því hafi verið sinnt að hefja verkið.
Eftir á að hyggja hefði verið æskilegra að samþykkja sem forgangsverkefni upprunalegu tillöguna en sem viðauka stærri og heildrænni tillögu sem næði til hita,- og kaldavatnsréttinda í öllu sveitarfélaginu sem sveitarfélagið nýtti eða hygðist nýta í framtíðinni. Þessari tillögu er ætlað að bæta úr því og tryggja framgang forgangsverkefna.

Sigurjón Þórðarson K - lista
Hildur Magnúsdóttir V ? lista

Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun.

"Tillaga fulltrúa VG og K-lista sem hér er til afgreiðslu er nánast samhljóða þeirri tillögu sem fulltrúi Frjálslyndra, núverandi fulltrúi K-lista lagði fram í sveitarstjórn sveitarfélagsins Skagafjarðar 12. Febrúar 2014 líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni nú. Efnislega eru tillögurnar eins. Sveitarstjórn ákvað á þeim sveitarstjórnarfundi að taka undir þau sjónamið sem fram komu í tillögu fulltrúa frjálslyndra, en þó með þeim breytingum að útvíkka verkefnið bæði til heitavatnslinda sem og kaldavatnslinda sveitarfélagsins. Ákveðið var að skoða jafnframt þær lindir sem í notkun er nú sem og möguleg jarðhitasvæði sem fyrirhugað er að farið verði í á næstu misserum í samræmi við framkvæmdaráætlun veitunefndar sem allir fulltrúar nefndarinnar samþykktu. Sú breytingartillaga sem borin var upp á umræddum sveitarstjórnarfundi var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, bæði minni og meirihluta enda sátt um mikilvægi málsins fyrir hagsmuni sveitarfélagsins. Allger samstaða er meðal meirihluta Sveitarstjórnar að Skagafjarðarveitur geti um ókomna framtíð þjónað markmiðum sínum.
Verkefninu var beint til veitunefndar sveitarfélagsisn og verður á dagskrá næsta fundar. Alltaf hefur legið fyrir að veitunefnd gæti, og ætti að útfæra verkefnið og forgangsraða. Ef það er vilji meirihluta veitunefndar að byrja á Reykjarhóll er ekkert því til fyrirstöðu og fyrra að með útvíkkun verkefnisins hafi meirihluti VG og Framsóknar, sem samkvæmt bókun fulltrúa VG í byggðarráði þann 14.11.2014 var undir forystu VG í samstarfi við Framsóknarflokkin, ætlað annað en að skýra réttarstöðu sveitarfélagsins vegna mikilla hagsmuna líkt og áður sagði. Þess bera að geta að á veitunefndarfundi þann 8.5. 2014 var samþykkt samhljóða að fela ISOR að vinna að úttekt á jarðhitakerfinu í Reykjarhól við Varmahlíð. Fulltrúar allra flokka eiga aðild að veitunefnd sveitarfélagsins og geta og eiga að hafa áhrif á það hvenær og hvernig verkið verður unnið sem og forgangsröðun verkefna. Því munu fulltrúar meirihluta Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna ekki greiða tillögunni atkvæði þar sem verkefnið hefur þegar verið samþykkt í sveitarstjórn og er í vinnslu hjá veitunefnd sveitarfélagsins."

Sigurjón Þórðarson tók til máls þá Viggó Jónsson.

Tillagan borinn upp til afgreiðslu og felld með sjö atkvæðum gegn tveimur.