Fara í efni

Úthlutun byggðakvóta í Skagafirði

Málsnúmer 1507057

Vakta málsnúmer

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd Svf Skagafjarðar - 22. fundur - 28.08.2015

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd þakkar fyrir erindið frá Drangey, smábátafélagi Skagafjarðar.

Nefndin vill taka fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki enn auglýst eftir umsóknum um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2015-2016 og hvorki liggja fyrir af þeim sökum upplýsingar um úthlutaðan byggðakvóta til byggðarlaga í Skagafirði né nákvæmlega hvaða almennu reglur ráðuneytið hyggst setja um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa. Megintilgangur reglnanna hefur á liðnum árum verið sá að tryggja að fiskiskip sem gerð eru út frá tilteknum byggðarlögum, og landað hafa afla þar, fái hlut í byggðakvótanum sem landað er til vinnslu í viðkomandi byggðarlagi.

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd hefur lagt á það áherslu á liðnum árum við tillögur til breytinga á reglugerð ráðuneytisins að tekið sé tillit til allra fiskiskipa við úthlutun byggðakvótans, svo sem megintilgangur reglnanna er. Þó þannig að tekið sé sérstakt tillit til dagróðrabáta en stærri fiskiskip fái ekki allan byggðakvóta til sín á grundvelli veiði. Er það til að stuðla að jafnræði á milli aðila og eflingu smábátaútgerðar í Skagafirði. Nefndin hefur einnig lagt áherslu á að allur afli sem veiddur er á grundvelli úthlutaðs byggðakvóta, sé eftir því sem hægt er unninn innan sveitarfélagsins. Á grunni sömu sjónarmiða um að stuðla að aukinni atvinnusköpun innan sveitarfélagsins hefur nefndin jafnframt viljað halda í löndunarskyldu í því byggðarlagi eða á þeim stað sem byggðakvótanum er úthlutað til innan marka þess. Þá hefur nefndin fengið framgengt breytingum á reglunum í þá veru að skylda þeirra sem fá úthlutað byggðakvóta til að landa tvöföldu því magni sem þeir fá úthlutað til vinnslu verði felld niður. Helgast þær breytingar af aðstæðum á leigumarkaði aflaheimilda og sjónarmiðum minni aðila.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 331. fundur - 16.09.2015

Afgreiðsla 22. fundar atvinnu- menningar- og kynningarnefndar staðfest á 331. fundi sveitarstjórnar 16. september með átta atkvæðum.