Fara í efni

Ársalir - sumarlokun 2018

Málsnúmer 1709265

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd Svf. Skagafjarðar - 124. fundur - 08.11.2017

Síðast liðin ár hefur fræðslunefnd lagt til við sveitarstjórn aukinn opnunartíma yfir sumarið í Ársölum á Sauðárkróki, annars vegar að einungis sé lokað í tvær vikur á sumri og hins vegar að hann sé opinn allan sumarleyfistímann. Þetta hefur verið gert í þeirri viðleitni að koma betur til móts við óskir foreldra. Í ljósi þess fjölda barna sem nýta sér leikskólann seinni hluta júlímánaðar og í fyrstu viku ágúst þykir nefndinni ekki ástæða til að leggja til að leikskólinn verði opinn eins og verið hefur, heldur fari að dæmi flestra sveitarfélaga í landinu og loki í fjórar vikur yfir sumartímann. Fleiri ástæður liggja að baki þeirri tillögu, eins og t.d. erfiðleikar við að manna leikskólann með fullnægjandi hætti yfir þessa mánuði og einnig er allt árlegt viðhald húsnæðis og lóðar erfiðleikum bundið þegar skólinn er opinn.
Fræðslunefnd leggur því til að leikskólinn Ársalir verði lokaður í fjórar vikur sumarið 2018. Þegar hefur verið ákveðið að hann verði lokaður í eina viku, þ.e. frá 4.-8. júní vegna námsferðar starfsfólks en auk þess verði hann lokaður þrjár vikur í júlí-ágúst.
Á næsta fundi nefndarinnar verður tekin ákvörðun um dagsetningar lokana í öllum leikskólum Skagafjarðar. Tillagan samþykkt með tveimur atkvæðum.
Sigurjón Þórðarson, fulltrúi Skagafjarðarlistans, greiðir atkvæði gegn tillögunni og óskar bókað að ekki hafi farið fram nein kynning á fyrirhugaðri lokun í fjórar vikur. Það er fyrirséð að lokunin mun kalla á óánægju foreldra og atvinnulífsins.