Fara í efni

Ársreikningur 2017

Málsnúmer 1804122

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 824. fundur - 18.04.2018

Lagður fram ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana fyrir árið 2017. Kristján Jónasson lögg. endurkoðandi hjá KPMG hf., fór yfir og kynnti reikninginn.
Byggðarráð samþykkir að vísa ársreikningnum til fyrri umræðu í sveitarstjórn.
Undir þessum dagskrárlið sátu sveitarstjórnarfulltrúarnir Viggó Jónsson, Þórdís Friðbjörnsdóttir, Bjarki Tryggvason og Gunnsteinn Björnsson. Auk þeirra sat fundinn Ásta Ólöf Jónsdóttir aðalbókari sveitarfélagsins.
Bjarni Jónsson vék af fundi kl. 14:45.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 367. fundur - 25.04.2018

Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri tók til máls og kynnti Þorstein Þorsteinsson endurskoðanda sveitarfélagsins, sem fór yfir og kynnti ársreikning og endurskoðunarskýrslu 2017.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2017 er hér lagður fram til fyrri umræðu. Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A og B hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir og Tímatákn ehf.

Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 5.196 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 4.454 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 4.650 millj. króna, þar af A-hluti 4.196 millj. króna. Rekstrarhagnaður A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 545 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 258 millj. króna. Afskriftir eru samtals 197 millj. króna, þar af 107 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 203 millj. króna, þ.a. eru 150 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A og B hluta á árinu 2016 er 147 millj. króna og rekstrarafgangur A hluta er er jákvæður um 1 millj. króna.

Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A og B hluta voru í árslok samtals 8.288 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 6.183 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2017 samtals 6.085 millj. króna, þar af hjá A-hluta 4.985 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 3.359 millj. króna hjá A og B hluta auk 593 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 2.203 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 26,6%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.146 millj. króna í árslok.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 442 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 193 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A og B hluta er 394 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2017, 266 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 339 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 400 millj. króna, handbært fé hækkaði um 67 millj. króna á árinu og nam það 262 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán voru að fjárhæð 345 millj. króna.

Í 64.gr. nýrra sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga sem og tekjur og skuldir veitna. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2017, 117,1% án þess að dreginn sé frá sá hluti af heildarskuldum sem heimilað er í lögum og reglugerð. Skuldaviðmið er 108% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga.

Sveitarstjórn samþykkir með öllum atkvæðum að vísa ársreikningnum til síðari umræðu.

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 368. fundur - 16.05.2018

Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri tók til máls og kynnti ársreikning Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stofnana þess, fyrir árið 2017.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2017 er hér lagður fram til seinni umræðu. Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A og B hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir og Tímatákn ehf.

Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 5.196 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 4.454 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 4.651 millj. króna, þar af A-hluti 4.196 millj. króna. Rekstrarhagnaður A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 545 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 258 millj. króna. Afskriftir eru samtals 197 millj. króna, þar af 106 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 203 millj. króna, þ.a. eru 150 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A og B hluta á árinu 2017 er 145 millj. króna og rekstrarafgangur A hluta er jákvæður um 1 millj. króna.
Þann 19.september 2016 var samkomulag gert milli Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands, annars vegar og fjármála-og efnahagsráðherra og Samband iíslenskra sveitarfélaga hinsvegar um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Breytingarnar voru samþykktar á Alþingi með lögum nr.127/2016 en þær fela meðal annars í sér breytingu á réttindaávinnslu lífeyrisréttinda í A-deild LSR og Brúar (Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga) úr jafnri réttindaávinnslu í aldurstengda auk þess sem lífeyristökualdur er hækkaður úr 65 árum í 67 ár. Við breytingarnar eru réttindi virkra sjóðsfélaga tryggð með sérstökum framlögum til sjóðanna af hálfu launagreiðenda. Samhliða því gerðu fjármála-og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga með sér samning um fjármögnun lífeyrisskuldbindinga A-deilda LSR og Brúar með fjárframlögum til sjóðanna, dags. 19.september 2016. Samkvæmt 8.gr.samningsins var hann gerður meðal annars með þeim fyrirvara að hann skyldi öðlast gildi gagnvart einstökum sveitarfélögum og aðilum þeim tengdum við samþykkt stjórna við komandi aðila á uppgjöri þeirra á skuldbindingum sem myndast í A-deild Brúar.
Í febrúar 2018 samþykkti sveitarstjórn Skagafjarðar samkomulag, sem barst sveitarfélaginu í byrjun janúar 2018, um uppgjör við Brú og var samkomulagið undirritað í mars 2018. Uppgjörið miðaði við tryggingafræðilega stöðu sjóðsins þann 31. maí 2017. Samkvæmt samkomulagi við lífeyrissjóðinn nemur heildarframlagið 597,9 millj.kr. Á árinu 2017 voru samþykkt bráðabirgðaákvæði við reglugerð nr. 1212/2015 þar sem mælt er fyrir um reikningshaldslega meðferð ofangreinds uppgjörs. Um er að ræða framlag í jafnvægissjóð, lífeyrisaukasjóð og varúðarsjóð.
Skipting þess er eftirfarandi:
- 174,4 millj.kr. framlag í jafnvægissjóð sem ætlað er að koma á fallinni stöðu Brúar í jafnvægi og er framlagið gjaldfært að fullu á árinu 2017.
-382,3 millj.kr. framlag í lífeyrisaukasjóð til að mæta framtíðar skuldbindingu vegna lífeyrisauka, framlagið er gjaldfært á 30 árum frá 1. júní 2017.
-41,1 millj.kr. framlag í varúðarsjóð sem ætlað er að styðja við lífeyrisaukasjóð, framlagið er gjaldfært á 20 árum frá 1. júní 2017.
Gjaldfærðar eru 182,4 millj.kr. meðal launa og launatengdra gjalda á árinu 2017 vegna þessa og fjárhæðin færð sem skammtímaskuld í árslok 2017. Greiðsla heildarframlags á sér stað í upphafi árs 2018 .
Ef ekki hefði komið til þetta uppgjör við Brú sem ekki lá fyrir fyrr en í janúar 2018 væri rekstrarhagnaður A og B hluta á árinu 2017, 327 millj. króna og rekstrarafgangur A hluta væri jákvæður um 176 millj. króna.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A og B hluta voru í árslok samtals 8.288 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 6.184 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2017 samtals 6.085 millj. króna, þar af hjá A-hluta 4.985 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 3.489 millj. króna hjá A og B hluta auk 593 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 2.203 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 26,6%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.146 millj. króna í árslok og hækkuðu á milli ára um 73 millj. króna nettó.

Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 443 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 193 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A og B hluta er 394 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2017, 266 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 339 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 400 millj. króna, handbært fé hækkaði um 67 millj. króna á árinu og nam það 262 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán og skuldbreytingar voru að fjárhæð 345 millj. króna.

Í 64.gr. nýrra sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A og B hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2017, 117,1% og skuldaviðmið samkvæmt reglugerð er 108% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga.

Að lokum þakkaði sveitarstjóri öllu starfsfólki Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins og síðast en ekki síst öllum þeim sem lögðu á sig ómælda vinnu við gerð þessa ársreiknings.

Bjarni Jónsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

Þrátt fyrir að rekstrarumhverfi flestra sveitarfélaga í landinu sé með besta móti og tekjur þeirra að aukast og mörg að greiða niður skuldir, er ekki að sjá sambærilegan viðsnúning hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Hér hafa skuldir ekki lækkað, rekstur A ? hluta er í algerum járnum, handbært fé er áfram takmarkað og í stað þess að kosta framkvæmdir af eigin fé þarf sveitarfélagið að taka lán til að geta staðið í framkvæmdum. Síðustu 2 ár hefur sveitarfélagið staðið í talsverðri eignasölu sem hefur létt undir, tekjur af fasteignagjöldum og fleiri skattstofnum hafa hækkað mikið milli ára og þá munar mikið um hækkun á framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eins og útgjaldajöfnunarframlagi, sem urðu ríflega 100 milljónum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þá höfðu tekjur úr jöfnunarsjóði einnig hækkað mikið milli ára 2016. Hluti þessara tekna nú var vegna sérstaks bankaskatts, sem er einskiptisaðgerð og ljóst að ekki er hægt að ganga að því vísu að framlög verði áfram svona há vegna jöfnunar gagnvart öðrum sveitarfélögum.

Eftir að Sveitarfélagið Skagafjörður tók yfir rekstur málaflokk fatlaðs fólks fyrir sveitarfélögin á Norðurlandi vestra 2016, hafa framlög vegna málaflokksins frá ríkinu og sveitarfélögum á NV, sem nema nálægt 500 milljónum kr. árin 2016 og 2017 runnið í gegnum sveitarfélagið og sömuleiðis útgjöldin í málaflokki sem gerður er upp nálægt núlli. Það eitt að Skagafjörður tók að sér verkefnið, bætir ekki raunverulegan rekstur sveitarfélagsins, en hefur gríðarleg áhrif á lykiltölur eins og skuldahlutfall. 500 milljónir einar og sér og bæta það um ríflega 13% ásamt áhrifum af óvæntum viðbótarframlögum jöfnunarsjóðs. Hjá sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2017, 117,1% og væri því nær 130% ef sveitarfélagið hefði ekki tekið við rekstri málaflokks fatlaðra fyrir landshlutann og fengið aukatekjur. Þetta skýrir hví skuldahlutfallið er örlítið lægra árin 2016 og 2017 en árin á undan, en raunveruleg staða þessi ár er hinsvegar talsvert lakari.

Á kjörtímabilinu 2010 til 2014 þegar Vg og óháð voru í stjórn sveitarfélagsins var lyft Grettistaki í fjármálum sveitarfélagsins með sameiginlegu átaki starfsmanna og íbúa sveitarfélagsins. Niðurstaða ársreikninganna og óábyrg áform núverandi sveitarstórnarmeirihluta kalla á breytt vinnubrögð og að Vg og óháð hafi mun meira að segja um fjármál Sv. Skagafj. eftir kosningarnar nú í maí.

Mikilvægt er að ný sveitarstjórn bregðist við vaxandi lausatökum núverandi meirihluta á meðferð fjár hjá sveitarfélaginu og uppsöfnun langtíma fjárhagsskuldbindinga eins og vegna Sýndarveruleika ehf. sem hafa slæm áhrif á rekstur sveitarfélagsins næstu áratugi.

Bjarni Jónsson, VG og óháð

Ásta Björg Pálmadóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun:

Það er mikilvægt að rétt sé farið með tölur varðandi ársreikning Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Það er ekki rétt að skuldahlutfall sveitarfélagsins hafi lækkað vegna hækkunar á tekjum við yfirtöku á rekstri á þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra. Þjónusta við fatlað fólk á Norðurlandi vestra var áður rekin undir byggðasamlaginu Rótum sem greiddi sveitarfélaginu beint fyrir þá þjónustu sem sveitarfélagið færði sem aðrar tekjur á málaflokkinn og kom fram í ársreikningi sveitarfélagsins undir aðrar tekjur. Sveitarfélagið Skagafjörður fer með um 65% af heildarframlögum sem koma vegna þjónustu við fatlað fólk á Norðurlandi vestra.

Stefán Vagn Stefánsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun meirihlutans:

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2017 hefur nú verið kynntur og liggur fyrir sveitarstjórn til samþykktar.

Afar ánægjulegt er að leggja fram ársreikning sem sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu fyrir A og B hluta sveitarsjóðs upp á rúmar 145 milljónir króna og að rekstrarniðurstaða A hluta sveitarsjóðs er sömuleiðis jákvæð upp á rúmar 1,2 milljónir króna. Rekstrarafgangur fyrir A og B hluta sveitarfélagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 545 milljónir króna og hndbært fé frá rekstri var í A og B hluta rúmar 394 milljónir. Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 443 milljón króna, þar af er veltufé frá rekstri A- hluta 193 milljónir króna.

Skuldahlutfall sveitarsjóðs er 117% án þess að dregið sé frá hluti af lífeyrisskuldbindingum sem og tekjur og skuldir veitna líkt og heimilt er. Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem miðað er við að skuldahlutfall megi ekki vera yfir 150 % af reglulegum tekjum, ef dregnar eru frá lífeyrisskuldbindingar eins og heimilt er samkvæmt reglugerð, er skuldaviðmið sveitarsjóðs 108% sem er langt undir þeim mörkum sem lögin setja sveitarfélögum.

Í sömu lögum er sveitarfélögum gert að vera með rekstur sinn í plús á hverju þriggja ára tímabili og stenst Sveitarfélagið Skagafjörður það viðmið sömuleiðis. Afborganir langtímalána og skuldbreytingar námu 400 milljónum króna á síðasta ári sem þýðir að skuldir sveitarsjóðs lækkuðu á árinu þrátt fyrir miklar framkvæmdir. Handbært fé hækkaði um 67 milljónir króna á árinu og nam það 262 milljónum króna í árslok.

Ekki er hægt að horfa í rekstur ársins 2017 án þess að taka til skoðunar uppgjör við Brú lífeyrissjóð sem ekki lág fyrir þar til í janúar 2018. Hefði uppgjörið ekki komið til væri rekstrarhagnaður A og B hluta sveitarsjóðs 327 milljónir króna og rekstur A hluta jákvæður um 176 milljónir króna.

Fjárfestingar voru miklar hjá sveitarfélaginu á síðasta ári og námu fjárfestingarhreyfinar samstæðunar 226 milljónum króna og fjárfestingar í varanlegum rekstarfjármunum námu 3392 milljóna króna. Mikilvægt er að halda áfram uppbyggingu innviða í samfélaginu í þeirri vegferð að gera samfélagið okkar í Skagafirði enn sterkara sem og að auka samkeppnishæfni þess. Sveitarfélagið Skagafjörður er og á að vera í fremstu röð íslenskra sveitarfélaga.

Rekstur sveitarsjóð er í góðu jafnvægi sem er jákvætt og má sama segja um einstaka málaflokka hjá sveitarfélaginu en rekstur þeirra var heilt yfir á áætlun sem er gleðilegt og ber vott um ábyrga fjármálastjórn og stöðugleika í rekstri.

Fyrir það ber að þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum sveitarfélagsins sem þar lögðu hönd á plóg til að svo mætti verða.

Útkoma ársins er ánægjuleg og henni ber að fagna. Mikill árangur hefur náðst á undanförnum árum í rekstri sveitarfélagsins sem og stöðuleiki í rekstri. Stöðugleiki í rekstri er undirstaðan fyrir áframhaldandi uppbyggingu samfélagsins. Það er verkefni okkar, kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins að viðhalda þeim stöðugleika á næstu árum. Er það verkefni allra sveitarstjórnarfulltrúa saman hvar í flokki þeir eru, enda kjörnir til að standa vörð um hagsmuni Sveitarfélagsins Skagafjarðar.

Ársreikningur borinn upp til atkvæðagreiðslu og samþykktur með átta atkvæðum.