Fara í efni

Tillaga vegna breytinga á skipuriti fjölskyldusviðs

Málsnúmer 1805082

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 368. fundur - 16.05.2018

Bjarni Jónsson tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu:

Sveitarstjórn áréttar að engin ný skipurit eða breytingar á fjölskyldusviði Sveitarfélagsins komi til framkvæmda án undangenginnar kynningar og faglegrar umfjöllunar í fagnefndum, byggðaráði og sveitarstjórn og samþykktar á þeim vettvangi.

Greinargerð
Sveitarstjórn leggur áherslu á að ástunda í hvívetna góða stjórnsýsluhætti og gagnsæ vinnubrögð og að fylgt sé gildandi samþykktum um stjórnskipan, og ákvæðum samþykktrar starfsmannastefnu um ráðningar starfsfólks á fjölskyldusviði sem og stjórnsýslu- og fjármálasviði og veitu- og framkvæmdasviði. Breytingar á störfum fólks og nýráðningar allt frá 28. apríl sl. sem tengjast nýju ókynntu og ósamþykktu skipuriti fyrir fjölskyldusvið Skagafjarðar sem kynntar hafa verið hluta starfsfólks bréfleiðis, en ekki í fræðslunefnd, félags- og tómstundanefnd, byggðaráði og sveitarstjórn, öðlist því ekki gildi, fremur en skipuritsbreytingarnar á fjölskyldusviði án stjórnsýslulegrar meðferðar sveitarstjórnar og nefnda sem taki til þeirra faglega afstöðu.

Bjarni Jónsson, VG og óháð

Til máls tók Stefán Vagn Stefánsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihlutans:

Engar breytingar hafa verið gerðar á skipuriti Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Það er ekki hlutverk sveitarstjórnar að ræða starfslýsingar einstakra starfsmanna en ef kjörnir fulltrúar vilja ræða verkaskiptingu á milli starfsmanna á fjölskyldusviði þá er sjálfsagt að vísa málinu til byggðarráðs.

Til máls tók Gunnsteinn Björnsson og lagði fram eftirfarandi bókun:

Þær breytingar sem kynntar voru starfsmönnum sem breytingar á skipuriti virðast mér ekki vera raunverulegar breytingar á skipuriti heldur er hér um að ræða tilfærslur á verkefnum milli starfsmanna fjölskyldusviðs. Ég get ekki lýst mig mótfallinn þessum breytingum enda eru þær eru að líkindum til bóta og ef til vill eru þær nauðsynlegar, þar að auki í verkahring sveitarstjóra eins og þær koma mér fyrir sjónir. Hins vegar hefði verið betra að kynna þessar breytingar í fagnefndum áður en þær verða að veruleika ekki síst í ljósi þess að breytingin var kynnt sem skipuritsbreyting.

Til máls tók Bjarni Jónsson og lagði fram eftirfarandi bókun:

Það er lýðræðislegt hlutverk fagnefnda sveitarfélagsins sem kosnar eru af sveitarstjórn, að fjalla um og taka afstöðu til málefna á þeim fagsviðum sem undir þær heyra. Ákvarðanir sem fara svo til sveitarstjórnar til fullnaðarafgreiðslu, en í sveitarstjórn er kosið á 4 ára fresti.

Mikilvægt er að virðing sé borin fyrir starfi nefnda og kjörinna fulltrúa sem í þeim sitja. Það að ákvarðanir séu teknar af meirihluta sveitarstjórnar um breytingar á skipuriti sviða sveitarfélagsins, „nýtt skipurit fyrir fjölskyldusvið Sveitarfélagsins Skagafjarðar“ og veigamiklar breytingar á störfum lykilstarfsmanna og hlutverkum í ráðhúsi án kynningar eða umfjöllunar í viðkomandi fagnefndum, og svo byggðaráði og sveitarstjórn, er afleit stjórnsýsla fyrir sveitarfélag sem vill ástunda í hvívetna lýðræðislega og góða stjórnsýsluhætti og gagnsæ vinnubrögð.
Bjarni Jónsson, VG og óháð

Til máls tók Ásta Björg Pálmadóttir og lagði fram eftirfarandi bókun:

Ef sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar ætlar að breyta skipuriti Sveitarfélagsins Skagafjarðar og stjórnskipuriti Sveitarfélagsins Skagafjarðar þarf að gera það eftir lögformlegum leiðum en ekki eftir á. Það er mikilvægt að sveitarstjóri hafi skýrar leiðbeiningar um heimildir sínar samanber hvað lög og samþykktir segja til um.

Samþykkt að vísa málinu til byggðarráðs með sjö atkvæðum.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óskar bókað að hún taki ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 829. fundur - 07.06.2018

Erindinu vísað frá 368. fundi sveitarstjórnar þann 16. maí 2018.
Lögð fram tillaga frá Bjarna Jónssyni:
Sveitarstjórn áréttar að engin ný skipurit eða breytingar á fjölskyldusviði sveitarfélagsins komi til framkvæmda án undangenginnar kynningar og faglegrar umfjöllunar í fagnefndum, byggðaráði og sveitarstjórn og samþykktar á þeim vettvangi.
Greinargerð:
Sveitarstjórn leggur áherslu á að ástunda í hvívetna góða stjórnsýsluhætti og gagnsæ vinnubrögð og að fylgt sé gildandi samþykktum um stjórnskipan, og ákvæðum samþykktrar starfsmannastefnu um ráðningar starfsfólks á fjölskyldusviði sem og stjórnsýslu- og fjármálasviði og veitu- og framkvæmdasviði. Breytingar á störfum fólks og nýráðningar allt frá 28. apríl sl. sem tengjast nýju ókynntu og ósamþykktu skipuriti fyrir fjölskyldusvið Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem kynntar hafa verið hluta starfsfólks bréfleiðis, en ekki í fræðslunefnd, félags- og tómstundanefnd, byggðaráði og sveitarstjórn, öðlist því ekki gildi, fremur en skipuritsbreytingarnar á fjölskyldusviði án stjórnsýslulegrar meðferðar sveitarstjórnar og nefnda sem taki til þeirra faglega afstöðu.

Meirihluti byggðarráðs vill árétta að farið hafi verið að samþykktum sveitarfélagsins sem og kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd sveitarfélaga.

Bjarni Jónsson óskar bókað:
Undirritaður undirstrikar mikilvægi þess að sveitarstjórn leggi áherslu á að ástunda í hvívetna góða stjórnsýsluhætti og gagnsæ vinnubrögð.

Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri óskar bókað:
Í samþykkt um stjórn og fundarsköp Sveitarfélagsins Skagafjarðar segir m.a.:
Sveitarstjórn ræður sveitarstjóra til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefna sveitarfélagsins.
Sveitarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og æðsti yfirmaður starfsmanna þess, fyrirtækja og stofnana.
Sveitarstjórn ræður starfsmenn í æðstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu, svo sem yfirmenn stofnana og sviða sveitarfélagsins og veitir þeim lausn frá starfi.
Sveitarstjóri, í samráði við yfirmenn sviða og stofnana, ræður aðra starfsmenn.

Í kjarasamningum Sambands íslenskra sveitarfélaga f.h. þeirra sveitarfélaga og annarra aðila sem það hefur samningsumboð fyrir segir m.a.;

Í grein 11.1.2.1 segir m.a.; Að jafnaði skulu störf auglýst laus til umsóknar á opinberum vettvangi.
Í grein 11.1.2.1 segir m.a.; Skipulagsbreytingar leiða ekki sjálfkrafa til þess að segja þurfi fólki upp störfum og auglýsa störf laus til umsóknar skv. breyttu skipulagi. Skoða þarf hvort og þá hversu miklar breytingar verða á starfi, hæfisskilyrðum og aðstæðum að öðru leyti. Því eiga reglur um auglýsingaskyldu ekki alltaf við þegar um skipulagsbreytingar er að ræða.
Í grein 11.1.4.1 segir m.a.; Skylt er starfsmanni að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því hann tók við starfi. Umtalsverðar breytingar ber að tilkynna með sama fyrirvara og ef um uppsögn væri að ræða. Í slíkum tilvikum ber starfsmanni að tilkynna vinnuveitanda innan mánaðar hvort hann uni breytingunum eða muni láta af störfum, eftir þann tíma sem uppsagnarfrestur kveður á um, frá því að honum var tilkynnt um breytinguna með formlegum hætti.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir vék af fundi við afgreiðslu þessa dagskrárliðar.