Fara í efni

Drög að frumvarpi til nýrra lyfjalaga

Málsnúmer 1903097

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 381. fundur - 13.03.2019

Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar skamman frest sem veittur var til umsagnar frumvarpi til nýrra lyfjalaga og hvetur íslensk stjórnvöld til þess að gefa sér rýmri tíma og endurskoða fyrirhugaðar breytingar á lyfjalögum. Eins og frumvarpið ber með sér er nokkuð um ásláttar- og ritvillur sem gefa til kynna að frumvarpið hafi verið unnið í flýti. Helst má gagnrýna þær fyrirætlanir að afnema lyfjasölu dýralækna án nokkurs rökstuðnings eða skýringa. Dýralæknar eru einu sérfræðingarnir í sjúkdómum dýra og meðhöndlun þeirra. Dýralæknar hafa áunnið sér lyfsöluréttindi með dýralæknanáminu og eru best fallnir til að koma réttum upplýsingum til eigenda dýra svo meðhöndlun sé eins og best er á kosið. Einnig er það mikið hagsmunamál hvað dýravelferð varðar að meðhöndlun dýrsins sé framkvæmd eins fljótt og auðið er og myndi það draga verulega úr viðbragðstíma meðhöndlunar dýra ef bændur þyrftu sjálfir að keyra oft á tíðum langar vegalengdir til að nálgast lyf, í stað þess að fá þau afhent um leið og dýralæknir hefur sjúkdómsgreint dýrið. Það er því augljóst að ný lyfjalög myndu bæði hafa neikvæð áhrif á velferð dýra og skilja eftir sig óþarfa kolefnisspor vegna fjarlægðar dýraeigenda frá lyfsala. Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur engar forsendur fyrir því að taka lyfjasöluleyfi af dýralæknum. Einnig telur sveitarstjórn varhugavert að afnema ákvæði um að sá sem sér um og stýrir lyfjamálum hjá ráðuneytinu megi ekki eiga hagsmuni að gæta hvað varðar lyfjafyrirtæki og sölu lyfja, þar sem hafa þarf í huga hæfi og hagsmuni einstakra starfsmanna.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar óskar eftir því að heilbrigðisráðuneytið gefi sér tíma til þess að lesa og meta þær fjöldamörgu umsagnir sem borist hafa um drög að nýjum lyfjalögum.

Borið upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með átta atkvæðum.