Fara í efni

Verkefni nefnda um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu - til samráðs

Málsnúmer 1906292

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 873. fundur - 03.07.2019

Lagt fram erindi sem barst í gegnum Samráðsgátt þar sem kynnt er til samráðs mál nr. 135/2019 - verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Umsagnarfrestur er til og með 13.08. 2019.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að vinna drög að umsögn sem tekin yrðu fyrir í byggðarráði.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 875. fundur - 31.07.2019

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar vill árétta í þessu samhengi fyrri athugasemd þess um málið hvað varðar það að óska aðeins eftir umsögnum um þætti sem lúta að skipulagi og mörkum þjóðgarðs á miðhálendinu en ekki um kosti og galla þess yfir höfuð að stofna þjóðgarðinn.
Má í því sambandi geta þess að á miðhálendinu er fjöldi svæða sem eru friðlýst. Velta má fyrir sér hvort ríkið ætti að sinna friðlýstum svæðum betur en nú er gert hvað varðar fjárhagslegan og faglegan grundvöll þeirra áður en ráðist er í stofnun nýs þjóðgarðs á miðhálendinu.
Með stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu er verið að færa hluta skipulagsvalds sveitarfélaganna yfir til stjórnunar- og verndaráætlana sem binda hendur sveitarfélaganna hvað varðar uppbyggingu innviða og vernd og nýtingu á umræddum svæðum. Með öðrum orðum er verið að skerða skipulagsvald sveitarfélaganna. Má í tengslum við það nefna að stærstur hluti þess svæðis sem tillagan gerir ráð fyrir að þjóðgarður nái til er afréttareign í þjóðlendu. Í því felast m.a. mikilvægir hagsmunir fyrir atvinnustarfsemi í Sveitarfélaginu Skagafirði og getur kallað á ýmis konar breytingar varðandi umferð, girðingar, nýtingu afréttareignar innan þjóðgarðs og aðra þætti sem tengist valdheimildum sveitarfélagsins.
Tillaga um afmörkun þjóðgarðsins tekur ekki mið af aðalskipulagi sveitarfélaga. Þá er ekki fjallað um hvert skuli vera gildi aðalskipulaga varðandi afmörkun svæðisins. Kort með tillögum að afmörkun þjóðgarðssvæðisins eru ekki nægjanlega skýr svo hægt sé að bera saman tillöguna við aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar með nákvæmum hætti.
Mörk þjóðgarðs virðast fyrst og fremst eiga að ráðast af eignarhaldi eða ráðstöfunarrétti ríkisins á landi, þ.e. þjóðlendum, en ekki sjálfstæðu mati á þörf fyrir friðun einstakra landsvæða á faglegum forsendum þar sem tekið er ríkt tillit til fjölmargra hagaðila sem þyrftu að koma að málinu.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar gerir verulega fyrirvara við að afmörkun miðhálendisþjóðgarðs verði innan sveitarfélagsins að svo stöddu og miðað við þær forsendur sem byggt er á í fyrirliggjandi tillögu. Allar tillögur í þeim efnum þurfa að byggjast á hagsmunum og aðkomu heimaaðila á hverju svæði fyrir sig.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar áréttar jafnframt fyrri kröfu sína um að teknar verði saman upplýsingar um stöðu annarra þjóðgarða, rekstrargrundvöll þeirra og hvernig mat heimamanna á hverjum stað fyrir sig er á að til hafi tekist, áður en lengra er haldið áfram með undirbúning þjóðgarðs á miðhálendinu.

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 158. fundur - 01.08.2019

Lagt var fram erindi frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu um verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar tók málið fyrir á 875. fundi sínum þann 31. júlí sl.
Umhverfis- og samgöngunefnd tekur undir bókun Byggðarráðs varðandi athugasemdir um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu.