Fara í efni

Viðræður um mögulega sameiningu sveitarfélaga

Málsnúmer 2003010

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 905. fundur - 11.03.2020

Lagt fram bréf dagsett 2. mars 2020 frá sameiningarnefnd sveitarfélaganna Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar. Á fundi sameiningarnefndar þann 25. febrúar 2020 var ákveðið að kanna áhuga annarra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra á því að taka þátt í sameiningarviðræðum. Óskað er eftir því að sveitarstjórnir Akrahrepps, Húnaþings vestra og Sveitarfélagsins Skagafjarðar taki afstöðu til þess hvort þau hafi áhuga á þátttöku í sameiningarviðræðum með sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu. Óskað er svara fyrir 7. apríl næstkomandi.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar þakkar fyrir erindi frá sameiningarnefnd sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu þar sem óskað er eftir afstöðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar til þátttöku í sameiningarviðræðum með fyrrgreindum sveitarfélögum.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar er jákvætt fyrir frekari sameiningum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Fordæmi frá sameiningum sveitarfélaga í Skagafirði og Vestur-Húnavatnssýslu sýna að slíkar sameiningar skila sér oftar en ekki í öflugum og kraftmiklum einingum sem hafa getu til uppbyggingar góðrar þjónustu og fjárfestinga í nauðsynlegum innviðum samfélagsins.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur þó að eðlileg næstu skref af þess hálfu séu viðræður um sameiningu sveitarfélaganna í Skagafirði. Með því sé fyrst látið reyna á sameiningarvilja sveitarfélaga sem hafa áratugalanga reynslu af öflugu og mjög nánu samstarfi áður en ráðist sé í viðræður um á margan hátt flóknari sameiningar fleiri sveitarfélaga á mun stærra landsvæði. Sá tími kann þó að renna upp innan fárra ára ef stjórnvöld fylgja eftir fyrirheitum um styrkingu innviða sem eru á forræði ríkisins á svæðinu, s.s. í bættum samgöngum, fjarskiptum og öruggari orkuafhendingu og með því stækkun þjónustu- og vinnusóknarsvæða, auk styrkingar tekjustofna sveitarfélaga og tilfærslu verkefna sem eðlilegt er að sinnt sé í nærsamfélögum íbúanna.