Fara í efni

Umhverfis- og samgöngunefnd - 177

Málsnúmer 2102002F

Vakta málsnúmer

Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 407. fundur - 24.02.2021

Fundargerð 177. fundar umhverfis- og samgöngunefndar frá 8. febrúar 2021 lögð fram til afgreiðslu á 407. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Stefán Vagn Stefánsson kynnti fundargerð. Álfhildur Leifsdóttir, Ingibjörg Huld Þórðardóttir,Álfhildur Leifsdóttir, Ingibjörg Huld Þórðardóttir, Gísli Sigurðsson kvöddu sér hljóðs.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 177 Lagðar voru fram til kynningar fundargerðir 429 og 430 frá Hafnasambandi Íslands. Bókun fundar Afgreiðsla 177. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 407. fundi sveitarstjórnar 24. febrúar 2021 með níu atkvæðum.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 177 Lögð var fram til kynningar fundargerð 431 frá Hafnasambandi Íslands. Bókun fundar Afgreiðsla 177. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 407. fundi sveitarstjórnar 24. febrúar 2021 með níu atkvæðum.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 177 Ásta Birna Jónsdóttir fyrir hönd bæjanna Steinn, Fagraberg, Fagragerði, Hólakot og Ingveldarstaði-syðri á Reykjaströnd óskar eftir að komið yrði á sorphirðu fyrir bæina.
    Unnið er að útboði á sorphirðu í Skagafirði. Lagt verður mat á kostnað í þeirri vinnu við að sækja sorp heim á bæi og á móti því að núverandi kerfi verði áfram með sama hætti. Því hafnar nefndin þessari beiðni á þessum tímapunkti.
    Útboð á sorphirðu verður á vordögum 2021.



    Bókun fundar Bjarni Jónsson og Álfhildur Leifsdóttitr VG og óháðum óska bókað: Í samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu Skagafirði segir í 6. grein: “Í dreifbýli verða íbúar sjálfir að koma úrgangi sínum flokkuðum í sorpgáma sem staðsettir eru á tilteknum stöðum.?
    Umræddir gámar hafa verið fjarlægðir af Reykjarströndinni án nokkurs samtals við íbúa sem hafa nú engin önnur úrræði önnur en að koma heimilssorpi sjálfir á móttökustöðvar innan opnunartíma þeirra. Opnunartími Flokku á Sauðárkróki er 9 - 17 virka daga og þar af leiðandi þurfa íbúar að geyma sorp í bifreiðum sínum séu þeir mættir til vinnu fyrir opnun sem er með öllu óboðlegt. Sömu íbúar greiða þó sorphirðugjald í dreifbýli eftir sem áður.
    Það er eðlileg krafa að íbúar sem greiða fyrir ákveðna grunnþjónustu fái þá þjónustu og séu upplýstir bæði um fyrirhugaðar breytingar og þau úrræði sem ættu að taka við.
    Í 8. grein laga um meðhöndlun úrgangs segir að sveitarstjórn beri ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs.
    Við förum því fram á að erindi Ástu Birnu Jónsdóttur sem lagt var fyrir á fundi nr. 177 hjá Umhverfis- og samgöngunefnd og var hafnað, sé endurskoðað og viðeigandi lausn fundin á sorphirðu fyrir íbúa Reykjastrandar og þeim svæðum sem búa við sama þjónustuleysi, þar til útboð vegna sorphirðu á sér stað.

    Ingibjörg Huld Þórðardóttir, fulltrúi meirihluta í sveitarstjórn óskar bókað:

    Það skiptir Skagfirðinga og landsmenn alla máli að sýna ábyrgð í umgengni okkar við auðlindir, náttúru og umhverfi. Ein leiðin til þess er að vera meðvituð um þann úrgang sem frá okkur fer.
    Markmiðið með breytingu á sorphirðu í Skagafirði er að auka flokkun á úrgangi og um leið að draga úr magni urðaðs úrgangs. Það er í takt við landsáætlun í meðhöndlun úrgangs þar sem miðað er að bættri nýtingu auðlinda og að lágmörkuð verði þau neikvæðu áhrif sem myndun og meðhöndlun úrgangs hefur á umhverfið og heilsu manna. Þetta er eitt brýnasta verkefni samtímans og komandi kynslóða.
    Lögum samkvæmt ber sveitarfélögum að innheimta gjöld vegna meðhöndlunar úrgangs í samræmi við kostnað. Þetta er Sveitarfélagið Skagafjörður því miður ekki að uppfylla í dag þar sem sveitarfélagið greiðir tugi milljóna með málaflokknum á ári hverju.
    Um þessar mundir er unnið að undirbúningi útboðs á sorphirðu í Skagafirði með aðstoð ráðgjafa en fyrirhugað er að ráðist verði í það útboð á fyrri hluta þessa árs. Í þeirri vinnu er lagt mat á kostnað við ólíkar leiðir í þjónustu við sorphirðu. Markmiðið er að leita leiða til að auka flokkun, draga úr magni urðaðs úrgangs og leita jafnframt leiða til hagkvæmari þjónustu. Nauðsynlegt er að finna góðar leiðir að þessu markmiði því þegar upp er staðið fellur kostnaðurinn við þjónustuna lögum samkvæmt á notendur hennar, íbúana, og á gjaldtakan að vera í samræmi við raunkostnað þjónustunnar.

    Afgreiðsla 177. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 407. fundi sveitarstjórnar 24. febrúar 2021 með sex atkvæðum. Jóhanna Ey Harðardóttir óskar bókað að hún taki ekki þátt í atkvæðagreiðslu. Bjarni Jónsson og Álfhildur Leifsdóttir greiða atkvæði á móti.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 177 Opnunartími Förgu, Varmahlíð er mánudaga, miðvikudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 13-16. Mikil umræða hefur verið að þessu opnunartími sé óhentugur.

    Nefndin leggur til að opnunartíma verði breytt í 14-17 á sömu dögum. Breytingin verður nánar auglýst í fréttamiðlum þegar að því kemur.
    Bókun fundar Afgreiðsla 177. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 407. fundi sveitarstjórnar 24. febrúar 2021 með níu atkvæðum.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 177 Lagt var fyrir nefndina erindi frá Svönu Ósk Rúnarsdóttur um ílla farinn göngustígur uppá Nafir milli Grjót- og Grænuklaufar.
    Svana Ósk Rúnarsdóttir fulltrúi Byggðalistans óskar eftir því að umhverfis og samgöngunefnd feli sviðstjóra að koma af stað lagfæringu á tröppum upp nafir að sunnan. Tröppurnar eru í lélegu ásigkomulagi og brýnt er að bæta úr ástandi trappanna.
    Nefndin tekur vel í erindið og felur sviðsstjóra og garðyrkjustjóra að fylgja málinu eftir.
    Bókun fundar Afgreiðsla 177. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 407. fundi sveitarstjórnar 24. febrúar 2021 með níu atkvæðum.
  • Umhverfis- og samgöngunefnd - 177 Farið var yfir drög að breytingum á lögum á hringrásarhagkerfis og umsögn byggðarráðs um málefnið.
    Nefndin tekur undir bókun byggðarráðs.

    Á 951. fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, 3. febrúar 2021, var samþykkt eftirfarandi bókun um drög að breytingu á lögum vegna innleiðingar hringrásarhagkerfisins.
    „Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar fagnar endurskoðun á lögum vegna innleiðingar á hringrásarhagkerfinu. Um afar mikilvægan málaflokk er að ræða og brýnt að haga undirbúningi breytinga og innleiðingu þeirra á sem bestan og raunhæfastan hátt. Í frumvarpinu má finna margar jákvæðar tillögur og ber þá sérstaklega að nefna aukna framleiðendaábyrgð, þ.e. að sá sem valdi mengun bæti umhverfistjón sem af henni hlýst og beri kostnað af því.
    Í frumvarpinu er bæði lagt til að fjölga þeim vörum er bera framleiðendaábyrgð (úrvinnslugjald) ásamt því að leggja til að framleiðendur standi undir fleiri þáttum við meðhöndlun úrgangs en nú er.
    Byggðarráð styður meginatriði frumvarpsins en telur þó mikilvægt að nýtt sé betur svigrúm í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins. Jafnframt þarf að skýra lagatextann svo ávallt sé ljóst hver ber ábyrgð hverju sinni sem og hvað sé innifalið í þeirri ábyrgð. Er þá sérstaklega verið að vísa til framleiðendaábyrgðar og ábyrgðar sveitarfélaga þegar kemur að meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt frumvarpsdrögum eiga lagabreytingarnar að taki gildi strax 1. júlí nk. en ákvæði um ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á tilteknum plastvörum og veiðarfærum á plasti taka ekki gildi fyrr en 1. janúar 2023.
    Sveitarfélög hafi jafnframt frest til 1. júlí 2023 til að innleiða aðskilda sérsöfnun á pappír og pappa, plasti og málmum og innleiða breytingar á gjaldheimtu. Ekki verður séð að það að flýta innleiðingu umfram það sem er að finna í Evróputilskipun vegi upp á móti þeim ókostum er því fylgir.
    Byggðarráð leggur áherslu á að nauðsynlegt er að gefa sveitarfélögum landsins svigrúm til að tryggja árangursríka innleiðingu án ónauðsynlegs kostnaðar.“
    Bókun fundar Afgreiðsla 177. fundar umhverfis- og samgöngunefndar staðfest á 407. fundi sveitarstjórnar 24. febrúar 2021 með níu atkvæðum.