Fara í efni

Varmahlíð Laugavegur 17 - 19, Norðurbrún - jarðsig

Málsnúmer 2105085

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 180. fundur - 17.05.2021

Fyrirliggur hönnun á viðgerð á bakka ofan Laugavegar 17-19 í Varmahlíð. Gögnin hafa verið send á Ofanflóðasjóð og sótt verður um styrk til framkvæmdarinnar.

Helga Björk Gunnlaugsdóttir garðyrkjustjóri sat þennan lið.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 975. fundur - 29.07.2021

Undir þessum dagskrárlið sat Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs.
Rætt var um þær aðgerðir sem búið er að framkvæma í kjölfar aurskriðu sem féll á tvö hús við Laugarveg í Varmahlíð í lok júní sl. Einnig var rætt um frekari aðgerðir sem til skoðunar er að ráðast í.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að senda umhverfis- og auðlindaráðherra beiðni um gerð hættumats fyrir Varmahlíð í Skagafirði. Jafnframt að send verði beiðni um gerð hættumats fyrir hluta Sauðárkróks.
Byggðarráð samþykkir jafnframt að boða til íbúafundar um málið með íbúum Varmahlíðar fimmtudaginn 5. ágúst.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 979. fundur - 01.09.2021

Lagt fram bréf dagsett 3. ágúst 2021 frá Sveitarfélaginu Skagafirði til umhverfis- og auðlindaráðherra varðandi beiðni um gerð hættumats fyrir þéttbýlið í Varmahlíð í Skagafirði og að jafnframt gert verði hættumat innan þéttbýlismarka Sauðárkróks. Óskað er eftir því við umhverfis- og auðlindaráðherra að skipun hættumatsnefndar verði hraðað og jafnframt að áréttað verði við nefndarmenn að flýta því að meta umrætt svæði í Varmahlíð, meðal annars með tilliti til þess hvort sá frágangur sem fyrirhugað er að ráðast í þjóni þeim tilgangi að varna frekara tjóni. Stefnt er að því að halda íbúafund í Varmahlíð þegar niðurstaða berst frá nefndinni.

Byggðarráð Svf. Skagafjarðar - 981. fundur - 15.09.2021

Steinn Leó Sveinsson sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs sat fundinn undir þessum dagskrárlið. Málið áður á dagskrá byggðarráðs þann 1. september 2021.
Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar undrast svar sem barst frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, dags. 13. september 2021, við erindi sveitarfélagsins dags. 3. ágúst 2021, þar sem óskað var eftir gerð hættumats fyrir Varmahlíð í Skagafirði og fyrir svæði innan þéttbýlisins á Sauðárkróki. Í svari ráðuneytisins lítur það svo á að leggja verði til grundvallar að með hugtakinu ofanflóð í lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum sé átt við hvers konar fall eða flóð efnis úr fjöllum, aurskriður, grjóthrun, snjó- og krapaflóð af náttúrulegum ástæðum. Þannig verði að vera um að ræða snjóflóð eða skriðufall sem fyrst og fremst verði rakið til náttúruafla. Síðar í svari ráðuneytisins segir samt sem áður að þörf sé á "að kanna betur uppruna grunnvatnsins [í Varmahlíð] og leitast við að beina því frá jarðefnafyllingum og öðrum mannvirkjum". Í minnisblaði Veðurstofu Íslands, sem fylgir svarbréfi ráðuneytisins, er jafnframt staðfest að vatn spretti víða fram í hlíðum Reykjarhóls og að mikið vatn hafi seitlað inn í skurð sem grafinn var í efri vegkanti Norðurbrúnar, ofan skriðunnar sem féll í júní sl., um malarlag sem liggur undir um 1 m þykkum jökulruðningi. Uppruni þessa vatns hefur enn ekki verið að fullu skýrður að sögn Veðurstofunnar en eftir sem áður er það talið hafa mikil áhrif á frekari skriðuhættu í Varmahlíð sem og stæðni mannvirkja.
Byggðarráð telur röksemdafærslu ráðuneytisins fyrir höfnun ekki standast. Undrast ráðið að ráðuneytið hafi tekið að sér hlutverk hættumatsnefndar og framkvæmt sitt eigin hættumat. Telur ráðið fullt tilefni til þess að athugaður verði undirbúningur ráðuneytisins á þeirri ákvörðun og lögmæti hennar. Er sveitarstjóra falið að leita liðsinnis lögmanns sveitarfélagsins í þeim efnum og að fá ráðuneytið til þess að endurupptaka málið og afgreiða að nýju.
Byggðarráð þakkar sveitarstjóra upplýsingar um aðgerðir til þess að treysta þau svæði sem næst eru því svæði þar sem aurskriða féll í Varmahlíð í sumar og leggur áherslu á áframhaldandi rannsóknir á svæðinu m.t.t. skriðuhættu og aðgerðir til þess að treysta byggðina.