Skipulags- og byggingarnefnd - 418
Málsnúmer 2111014F
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar - 419. fundur - 15.12.2021
Fundargerð 418. fundar skipulags- og byggingarnefndar frá 22. nóvember 2021 lögð fram til afgreiðslu á 419. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Regína Valdimarsdóttir kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
-
Skipulags- og byggingarnefnd - 418 Lögð fram uppfærð tillaga að Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035. Í tillögunni felst m.a. endurskoðun á framboði íbúðarhúsnæðis og atvinnusvæða í sveitarfélaginu, mörkuð er stefna um landbúnaðarsvæðin, ferðaþjónustu, innviði, efnistöku, ný vatnsverndarsvæði og náttúru- og minjavernd. Gerð er grein fyrir forsendum, útfærslum, heimildum, skipulagsákvæðum, takmörkunum og umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 105/2006. Tillaga að heildarendurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins var í auglýsingu frá byrjun júlí til og með 13. september. Á kynningartíma bárust umsagnir, ábendingar og athugasemdir, sem fjölluðu m.a. um íþróttasvæðin, stígakerfi, efnistökusvæði, náttúruvernd, atvinnusvæði, afmörkun íbúðarsvæða, samgöngur og flutningskerfi raforku. Uppfærð tillaga hefur tekið mið af framkomnum athugasemdum og umsögnum. Breytingar á tillögu felast fyrst og fremst í að skerpt er á stefnu í ákveðnum málum, nánari útfærsla er á ákveðnum landnotkunarflokkum og ýmsar leiðréttingar gerðar á skipulagsgögnum. Ekki eru gerðar grundvallarbreytingar á skipulagstillögunni. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir að senda tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins 2020-2035 til samþykktar sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Skipulagsfulltrúa er falið að uppfæra tillögu m.t.t. ábendinga nefndarinnar. Við ákvörðun nefndarinnar hefur m.a. verið litið til forsendna skipulagsins, skipulagslaga og laga um umhverfismat áætlana. Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir jafnframt þau viðbrögð sem lögð eru fram við umsögnum og athugasemdum og felur skipulagsfulltrúa að senda svör til þeirra aðila sem sendu inn ábendingar á kynningartíma.
Í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana hefur verið litið til umhverfisskýrslu skipulagsvinnu við mótun skipulagsins. Í skipulagsgreinargerð er gerð grein fyrir því hvernig umhverfissjónarmið eru felld inn í áætlunina, hvernig höfð hefur verið hliðsjón af umhverfismati og umsögnum og athugasemdum við mótun skipulagstillögu sem felst m.a. í að leggja til ákveðnar mótvægisaðgerðir eða skipulagsákvæði til að draga sem kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Í skipulagsgreinargerð er gerð grein fyrir forsendum, leiðarljósum og útfærslu á endanlegri áætlun. Ekki er talin þörf á sérstakri vöktun umhverfisáhrifa, þar sem skipulagstillagan er ekki líkleg til að valda verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum.
Bókun fundar Afgreiðsla 418. fundar skipulags- og byggingarnefndar staðfest á 419. fundi sveitarstjórnar 15. desember 2021 með níu atkvæðum.