Umhverfisdagurinn 2022
Málsnúmer 2205024
Vakta málsnúmerUmhverfis- og samgöngunefnd Svf Skagafjarðar - 192. fundur - 24.05.2022
Í þessum mánuði hafa verið haldnir 2 umhverfisdagar í Skagafirði, umhverfisdagur FISK Seafood sem haldinn var 7. maí síðastliðin og umhverfisdagur Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem haldinn var þann 21. maí. Mikil og góð þátttaka var báða dagana og vill Umhverfis- og samgöngunefnd þakka öllum þeim sem tóku virkan þátt í dögunum með sínu framlagi kærlega fyrir þátttökuna. FISK Seafood er þakkað sérstaklega fyrir ómetanlegt framtak í umhverfismálum Skagafjarðar.
Nefndin vill benda Skagfirðingum á að tilvalið er að nota daginn til útivistar, hefja daginn til dæmis á að fara í gönguferðir um einhvern skóga héraðsins svo sem í Varmahlíð, við Silfrastaði, að Hólum, rölta um Litla Skóg, skoða stuðlabergsfjöruna við Hofsós, eða eitthvað allt annað sem fólki langar að skoða.
Í gróðurstöð sveitarfélagsins í Sauðármýri eru ræktuð sumarblóm sem skreyta samfélagið okkar Skagfirðinga á sumrin. Helga Gunnlaugsdóttir garðyrkjustjóri kynnti starfsemi gróðurstöðvarinnar og verður opið hús í gróðurstöðinni frá klukkan 9 - 12 á umhverfisdaginn.
Í dag komu í heimsókn á fundinn forsvarsmenn þriggja fyrirtækja úr Lýtingsstaðahreppi sem nýta auðlindir náttúrunnar til að framleiða grænmeti og blóm í gróðurhúsum og matjurtir í görðum.
Frá gróðustöðinni að Laugarmýri kom Dagný Stefánsdóttir og kynnti starfsemi garðyrkjustöðvarinnar en þar fer fram fjölbreytt framleiðsla. Meðal afurða má nefna sumarblóm, forræktað grænmeti, tómata, gúrkur, jarðarber, blómber, plómur, grænkál, tré og runna, salat og kryddjurtir. Opið hús verður hjá Dagnýju frá klukkan 13 - 18 á umhverfisdaginn.
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir kynnti starfsemi gróðurstöðvarinnar að Breiðargerði en þar eru framleiddar matjurtir á lífrænan hátt og eru helstu framleiðsluvörur allskonar kál, gulrætur, rófur og hverlags útigrænmeti. Allur afskurður er nýttur í ræktun eða til moltugerðar.
María Ingiríður Reykdal kynnti starfsemi að gróðurstöðvarinnar að Starrastöðum en þar eru framleiddar rósir af ýmsum gerðum. María hefur verið að gera tilraunir með allskonar framleiðslu í tengslum við rósaræktunina svo sem að bragðbæta Vodka og búa til krydd og rósasnakk. María segir að rósir séu vel ætar en það þarf að talsvert að vinna með vöruna til að hún sé girnileg. María verður með opið hús í gróðurstöðinni að Starrastöðum frá klukkan 13 - 18 á umhverfisdaginn.
Dagskrá Umhverfisdagsins verður auglýst frekar á miðlum Sveitarfélagsins.
Umhverfis og samgöngunefnd þakkar þeim Dagnýju, Elínborgu, Maríu og Helgu fyrir kynningu á starfseminni. Ljóst er að ýmislegt er hægt að gera hérna í héraðinu. Látum vinnu þeirra verða okkur efni til hvatningar.