Fara í efni

Nafir - ofanflóð - Skógargata, Brekkugata og Lindargata, rannsóknir 2022

Málsnúmer 2208146

Vakta málsnúmer

Umhverfis- og samgöngunefnd - 10. fundur - 09.02.2023

Verkfræðistofan Efla hefur unnið skýrslu um stæðni jarðlaga vegna sjáanlegs sigs í Nöfunum í hluta bæjarins, þar sem byggðin kúrir undir brekkufætinum, nánar tiltekið við Skógargötu, Brekkugötu og Lindargötu. Síðastliðið haust voru boraðar rannsóknarholur á svæðinu með það að markmiði að gera jarðtæknilega útreikninga og leggja mat á skriðuhættu á svæðinu. Vinnan var sett af stað í kjölfar skriðufalla sem urðu í Varmahlíð í lok júní 2021. Athyglin beinist að þessum hluta byggðarinnar á Sauðárkróki og hvort mögulega sé hætta á sambærilegum atburðum þar.

Umhverfis- og samgöngunefnd fagnar því að búið sé að leggja mat á aðstæðurnar á fyrrgreindu svæði. Lagt er til að hart verði unnið áfram í því að fá Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið til að samþykkja að gert verði nýtt áhættumat fyrir Nafirnar í heild sinni. Flýta þarf afgreiðslu á því máli og brýnt er að hefja frekari skoðun og framkvæmdir á svæðinu til tryggja öryggi íbúanna. Sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs er falið að vinna málið áfram í samstarfi við sveitastjóra.

Umhverfis- og samgöngunefnd - 15. fundur - 15.06.2023

Verkfræðistofan Efla hefur unnið skýrslu um stæðni jarðlaga vegna sjáanlegs sigs í Nöfunum í hluta bæjarins, þar sem byggðin kúrir undir brekkufótnum, nánar tiltekið við Skógargötu, Brekkugötu og Lindargötu. Síðastliðið haust voru boraðar rannsóknarholur á svæðinu með það að markmiði að gera jarðtæknilega útreikninga og leggja mat á skriðuhættu á svæðinu. Vinnan var sett af stað í kjölfar skriðufalla sem urðu í Varmahlíð í lok júní 2021. Athyglin beinist að þessum hluta byggðarinnar á Sauðárkróki og hvort mögulega sé hætta á sambærilegum atburðum þar.

Sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs upplýsti um stöðuna. Aðgerðir eru hafnar í samræmi við tillögur Eflu og verið er að ákveða næstu skref. Brýnt er að upplýsa íbúa um stöðu mála og stefnt er á að halda upplýsingafund í lok sumars.

Umhverfis- og samgöngunefnd - 16. fundur - 18.08.2023

Fyrir liggur tillaga frá verkfræðistofunni Stoð, Jóni Hauki Steingrímssyni frá Eflu verkfræðistofu og framkvæmdadeild Skagafjarðar að gerð mótfyllingar vegna hættu á jarðskriði neðan Brekkugötu á Sauðárkróki. Af öryggisástæðum þykir full ástæða til þess að tryggja það að hár kantur hlaupi ekki fram og valdi hættu á að mannvirki neðan við verði fyrir skemmdum. Þá liggur fyrir tillaga að því að fjarlægja lausan jarðveg ofan Lindargötu 15. Enn er verið að skoða möguleika á lausn við Skógargötu 6B.

Steinn Leó Sveinsson sviðstjóri Veitu- og framkvæmdasviðs og Atli Gunnar Arnórsson frá Stoð fóru yfir lausnir og mat á kostnaði við nauðsynlegar framkvæmdir til að fyrirbyggja hrun og tjón á mannvirkjum. Svæðið hlýtir allt ákvæðum laga nr. 87/2015 um verndarsvæði í byggð en þar er tekið skýrt tekið fram að engar framkvæmdir eru heimilar nema að fengnu leyfi sveitastjórnar.

Umhverfis- og samgöngunefnd vísar málinu til byggðarráðs og óskar eftir að framkvæmdirnar fái fjármögnun með viðauka við fjárhagsáætlun árins 2023 þannig að unnt sé að ráðast í þær síðsumars. Boðað verður til fundar með íbúum og eigendum þeirra húsa sem um ræðir.

Atli Gunnar Arnórsson verkfræðingur frá verkfræðistofunni Stoð sat fundinn undir þessum lið.

Byggðarráð Skagafjarðar - 59. fundur - 23.08.2023

Lögð fram bókun 16. fundar umhverfis- og samgöngunefndar þann 18. ágúst 2023. Einnig lagðar fram tillögur um aðgerðir vegna hættu á jarðskriði neðan Brekkugötu á Sauðárkróki og Lindargötu 15 á Sauðárkróki. Enn er verið að skoða mögulega lausn vegna Skógargötu 6B.
Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra og sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að undirbúa viðauka við fjárhagsáætlun ársins vegna framkvæmdanna.