Fara í efni

Starfshópur vegna nýtingu vindorku

Málsnúmer 2208214

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 11. fundur - 31.08.2022

Lagður fram til kynningar tölvupóstur dagsettur 23. ágúst 2022 til sveitarfélaga og samtaka þeirra frá skrifstofu landgæða hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Starfshópur til að skoða og gera tillögur til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um nýtingu vindorku hefur tekið til starfa. Er sveitarfélögum sem viðtakendum þessa bréfs því boðið að senda sjónarmið sín um ofangreind atriði til starfshópsins í netfangið vindorka@urn.is. Einnig er gert ráð fyrir því að starfshópurinn fundi með hagaðilum síðar á þessu ári þar sem um gagnkvæmari samskipti verði að ræða. Þess er óskað að sjónarmið verði send skriflega í ofangreint netfang fyrir 30. september n.k.
Byggðarráð samþykkir að óska eftir afstöðu skipulagsnefndar til málsins.

Byggðarráð Skagafjarðar - 15. fundur - 28.09.2022

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 23. ágúst 2022 til sveitarfélaga og samtaka þeirra. Með skipunarbréfi dags. 11. júlí sl. voru Hilmar Gunnlaugsson lögmaður, Björt Ólafsdóttir fyrrv. ráðherra og Kolbeinn Óttarsson Proppé fyrrv. alþingismaður skipuð í starfshóp til að skoða og gera tillögur til ráðuneytisins um nýtingu vindorku. Með hópnum starfar Hafsteinn S. Hafsteinsson, lögfræðingur í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Er sveitarfélögum boðið að senda sjónarmið sín um málefnið til starfshópsins.
Byggðarráð Skagafjarðar leggur áherslu á að vindorkugarðar, a.m.k. yfir ákveðnu umfangi, falli undir rammaáætlun í því skyni að fram fari vandaður undirbúningur og rannsóknir á áhrifum slíkra garða. Byggðarráð brýnir þó fyrir stjórnvöldum að leggja aukinn kraft í vinnslu rammaáætlunar og gera hana markvissari, en undanfarin ár hefur vinnsluferlið tekið allt of langan tíma og endanleg staðfesting Alþingis einnig. Við gerð rammaáætlunnar verður líka að hafa í huga orkuframboð í mismunandi landshlutum og getu flutningskerfisins gagnvart byggðinni í landinu.
Skynsamlegt er að framleiðsla vindorku verði sem næst því flutningskerfi sem byggt hefur verið upp og byggt verður upp. Þar með er jafnframt betur tryggt ákveðið samspil eða sveiflujöfnun á milli vatnsafls og vindorku.
Skipulagsvaldið er einn af hornsteinum sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga sem ber að virða. Til greina kemur þó að skoða að brýnir þjóðhagslegir innviðir, s.s. flutningskerfi raforku og framleiðsla hennar, falli undir landskipulag til að tryggja að horft verði á þessa tvo stóru þætti í samhengi. Það gengur ekki að ákveðin svæði geti lent í því að fá hvorki að virkja vatnsafl né vindorku og að flutningur orku inn á þau svæði sé þar að auki takmarkaður vegna lélegra flutningskerfa. Stjórnvöldum ber að stuðla að orkuskiptum og tryggja að samfélög vítt og breytt um landið geti vaxið og dafnað og þá er nauðsynlegt að flutningur á endurnýjanlegri orku geti farið fram með öruggum hætti. Með þeim hætti er einnig tryggt að ákveðnir landshlutar verði ekki útundan í afhendingu raforku en undanfarna áratugi hafa einstök svæði í námunda við orkuframleiðslu byggst hraðar upp en önnur sem ekki hafa fengið heimild til virkjana náttúruauðlinda.
Jafnframt leggur byggðarráð Skagafjarðar áherslu á að jafna þurfi betur tekjur sem sveitarfélög hafa af mannvirkjum sem nýtt eru til orkuframleiðslu og dreifingar og áskilur sér rétt til frekari viðbragða á síðari stigum málsins.

Álfhildur Leifsdóttir (Vg og óháð) óskar bókað að mikilvægt sé að vindorkugarðar falli undir rammaáætlun en situr að öðru leiti hjá afgreiðslu málsins.