Skóladagatöl leikskóla 2022 - 2023, sumarstarf í Ársölum.
Málsnúmer 2301042
Vakta málsnúmerFræðslunefnd - 11. fundur - 09.02.2023
Sem kunnugt er hefur mikið umbótastarf farið fram í leikskólum Skagafjarðar síðustu misseri. Tilgangur umbótanna er annars vegar að bæta starfsumhverfi starfsmanna og hins vegar að koma betur til móts við foreldra og samfélagið allt. Á fundi sínum þann 11. janúar s.l. samþykkti fræðslunefnd að hafa leikskólann Ársali opinn yfir sumartímann 2023 en bjóða foreldrum upp á að velja annað hvort fyrra eða seinna frí með tilteknum dagsetningum. Hér er kynnt könnun sem gerð var á meðal foreldra um tvískiptingu þessa. Könnun þessi staðfestir að slíkt fyrirkomulag hentar megninþorra foreldra. Könnunin leiðir fleiri áhugaverð svör í ljós, m.a. að meirihluti foreldra myndi lengja sumarfrí barna sinna ef dvalargjöld yrðu felld niður á þeim tíma. Könnunin staðfestir þær umræður og hugmyndir sem fræðslunefnd og starfsmenn hafa rætt og farið ítarlega yfir. Opnað verður fyrir bindandi skráningar í fyrra og seinna sumarleyfi á næstu dögum og verður opið fyrir skráningu til 26.febrúar. Vonast er til að fyrirkomulag þetta hjálpi til við skipulagningu starfsins og mönnun leikskólans.
Haldinn var fundur með starfsfólki leikskólans til að ræða leiðir og fá fram þeirra sjónarmið varðandi fyrirkomulag á sumarleyfi leikskólans. Í framhaldi var send út könnun til foreldra til að kanna viðhorf þeirra.
Á grundvelli þeirrar vinnu er lögð fram sú tillaga að hafa leikskólann Ársali opinn yfir sumarið og bjóða foreldrum val um fyrra frí á tímabilinu 19.júní-14.júlí eða seinna frí á tímabilinu 17.júlí-11.ágúst. Einnig er lagt til að foreldrum verði gefinn kostur á niðurfellingu gjalda, á tímabilinu 1. júní til 31.ágúst, óski þeir eftir samfelldri lengingu sumarleyfis að lágmarki eina viku og að hámarki fjórar vikur. Um er að ræða tilraunaverkefni til tveggja ára sem verður endurmetið að þeim tíma loknum.
2. Fræðslunefnd samþykkti á fundi sínum 23.júní sl. skóladagatal leikskólanna. Leikskólastjóri Ársala óskar eftir því að stytta fyrirhugaða námsferð starfsmanna í febrúar um einn dag og verður leikskólinn því lokaður 22.-27.febrúar í stað 22.-28.febrúar.
Nefndin samþykkir tillögurnar fyrir sitt leyti og vísar þeim til sveitarstjórnar.