Fara í efni

Sumarleyfi á leikskkólanum Ársölum

Málsnúmer 2303056

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd - 12. fundur - 09.03.2023

Lagt fram skjal með óskum foreldra leikskólans Ársala um sumarleyfi fyrir börn þeirra. Eins og fram hefur komið verður leikskólinn opinn allt sumarið en með þessu skipulagi er vonast til að auðveldara verði að skipuleggja sumarleyfi starfsmanna. Jafnframt er með þessu komið til móts við foreldra og samfélagið allt um sveigjanleika um sumarleyfistíma barnanna.

Fræðslunefnd - 27. fundur - 08.05.2024

Lagðar fram niðurstöður könnunar sem foreldrar barna í Ársölum svöruðu varðandi sumarleyfi barna sinna. Mjög ójöfn skipting er á sumarleyfistímum barna í sumar og verða rúmlega 30 börn af 190 í leikskólanum frá 15. júlí - 9. ágúst , þar af 5 börn á yngra stigi. Ekki er forsvaranlegt að hafa yngra stig opið þegar svo fá börn eru skráð og hefur því sú ákvörðun verið tekin í samráði við sviðsstjóra fjölskyldusviðs að bjóða foreldrum þessara 5 barna annaðhvort að færa sumarfrí barnanna eða mæta með börnin á yngri deildir eldra stigs þetta tímabil. Búið er að ræða við foreldra og finna farsæla lausn. Í seinna fríi verða tvær deildir opnar, á annarri þeirra verða 1-3 ára börn og á hinni verða 3-6 ára börn.

Erfiðlega hefur gengið að ráða inn starfsfólk í sumarafleysingar og vantar enn starfsfólk til þess að hægt sé að hafa leikskólann opinn í sumar. Til að leysa áskoranir sumarsins er lögð á borðið tillaga að lausn frá leikskólastjóra Ársala sem felur í sér að starfsfólk fresti töku vinnustyttingu í sumar fram að jólum og þess í stað verði leikskólinn Ársalir lokaður 23., 27. og 30. desember til þess að taka út vinnustyttingu sumarsins. Starfsfólk leikskólans hefur tekið jákvætt í þá tillögu.

Fræðslunefnd samþykkir tillögu leikskólastjóra samhljóða með þeim fyrirvara að skoða þarf lausnir fyrir börn foreldra sem starfa í framlínustörfum (t.d. heilbrigðisþjónusta, löggæsla o.s.frv.) og geta ekki verið frá vinnu þessa daga. Fræðslunefnd felur sviðsstjóra í samráði við leikskólastjóra að kanna í upphafi skólaárs hversu margir foreldrar gætu mögulega verið í þeirri stöðu umrædda daga og leggja til farsæla lausn ef þörf er á því.