Fara í efni

Samráð; Stöðuskjal og tillögur að aðgerðum um bætta nýtingu lífrænna efna í landbúnaði og landgræðslu

Málsnúmer 2303126

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 40. fundur - 22.03.2023

Lagður fram tölvupóstur dagsettur 10. mars 2023 þar sem matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 63/2023, "Stöðuskjal og tillögur að aðgerðum um bætta nýtingu lífrænna efna í landbúnaði og landgræðslu". Umsagnarfrestur er til og með 24.03.2023.
Byggðarráð Skagafjarðar fagnar gerð stöðuskjals og tillögum að aðgerðum um bætta nýtingu lífrænna efna í landbúnaði og landgræðslu. Afar mikilvægt er að lífræn áburðarefni séu nýtt á sem bestan og hagkvæmastan hátt til stuðnings sjálfbærri auðlindanýtingu og til að draga úr innflutningi tilbúins áburðar.
Lífgas, sem hreinsað hefur verið svo hægt sé að nota það sem eldsneyti á bifreiðar, í daglegu tali kallað metaneldsneyti, er innlendur og endurnýtanlegur orkugjafi sem nýst getur í stað jarðefnaeldsneytis. Þegar eldsneytið er framleitt úr lífrænum úrgangi er það á meðal þess lífeldsneytis sem mest dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það getur þar með auðveldað stjórnvöldum að uppfylla innlendar og erlendar skuldbindingar sínar í umhverfis- og loftlagsmálum. Að auki getur framleiðsla og nýting lífgaseldsneytis stuðlað að bætingu fjölda annara umhverfismála á sviði landbúnaðar, förgunar úrgangs og endurvinnslu næringarefna.
Fyrri skoðanir hafa leitt í ljós að þegar viðeigandi hráefni hafa verið valin með hliðsjón af íslenskum lögum og reglum, geta á milli 27.000 og 32.000 tonn hráefnis nýst árlega til lífgasframleiðslu í Skagafirði. Gasframleiðslan, á ársgrundvelli, gæti verið allt frá 540.000 til 1.000.000 Nm3 - CH4.
Fyrri rannsóknir í Skagafirði hafa skilað þeirri niðurstöðu að rekstur miðlægrar lífgasframleiðslu í Skagafirði getur skilað jákvæðum rekstri en miðað við mismunandi forsendur og skort á verulegum fjárhagslegum stuðningi er lífgasframleiðsla í Skagafirði ekki fjárhagslega hagkvæm, þ.e. rekstrarafkoman er ekki nægjanlega jákvæð til að skila stofnkostnaði til baka og skila ásættanlegri arðsemi. Rekstrarhagkvæmni lífgasvera byggir þannig á stefnumótun stjórnvalda sem nær til margra mismunandi þátta.
Sagan frá nágrannalöndum okkar sýnir að vöxtur lífgasgeirans byrjar fyrst þegar fjárhagslegur stuðningur er innleiddur og breytingar á þessum stuðningi hafa mikil áhrif á vöxt geirans. Stefnumótun yfirvalda hefur afar mikið að segja. Það eru hins vegar engar algildar reglur um stefnumótun í þessum efnum þar sem hún er afar háð staðbundnum aðstæðum. Það er því afar mikilvægt að skoða hvert tilvik ofan í kjölinn um leið og tekið er mið af mismunandi framkvæmd í öðrum löndum.