Fara í efni

Útboð skólaaksturs í dreifbýli 2023-2028

Málsnúmer 2304154

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd - 16. fundur - 15.06.2023

Vegna formgalla í útboði var tekin ákvörðun um að fella niður útboð nr. 2302 - Skólaakstur í Skagafirði 2023-2028 og auglýsa útboð á nýjan leik. Samið hefur verið við útboðsþjónustuna Consensa um að annast nýtt útboð sem verður auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við lög nr. 120/2016 um opinber innkaup og reglugerð nr. 360/2022 um útboðsvef, viðmiðunarfjárhæðir og innkaup samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna opinberra innkaupa.

Fræðslunefnd - 18. fundur - 05.09.2023

Á grundvelli útboðs á skólaakstri í dreifbýli Skagafjarðar frá hausti 2023 til 1. júlí 2027 var ákveðið að ganga til samninga við eftirfarandi:
Leið 1 og 2: Björn Sigurður Jónsson
Leið 3 og 4: F-Borg ehf
Leið 5, 6, 7 og 11: HBS ehf
Leið 8, 9 og 10: Indriði Stefánsson
Leið 12: Hugheimur ehf
Leið 13: Sel ehf
Leið 14 og 15: Birgir Þórðarson
Leið 16: Halldór Gunnar Hálfdánarson
Leið 17: Von slf

Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, fulltrúi Vg og óháðra óskar bókað:
Ljóst er að við útboð skólaaksturs í sumar urðu efnislegar breytingar þvert á það sem segir í fundargerð frá fræðslunefnd þann 9. maí síðastliðinn. Nefndarfólki fræðslunefndar var ekki gerð grein fyrir umfangi þeirra breytinga sem áttu sér raunverulega stað. Einnig var upplýsingaskyldu til foreldra um væntanlegar breytingar á skólaakstri verulega ábótavant. Ábendingar hafa borist frá foreldrum vegna alvarlegra bresta á umferðaröryggi á skólaakstursleiðum. Í ljósi þessa alls óskar undirrituð eftir endurskoðun reglna um skólaaksturs í dreifbýli Skagafjarðar og einnig að kannað verði hvort hægt sé að komast á móts við þá nemendur sem þessar breytingar hafa veruleg áhrif á þannig að þjónusta við þá haldist óbreytt á yfirstandandi skólaári.


Reglur um skólasókn í öðru skólahverfi eru í gildi hjá sveitarfélaginu og ekki hefur verið ágreiningur um afmörkun skólahverfa sem þar er skilgreind. Útboð sem fram fór á skólaakstri í dreifbýli í Skagafirði var unnið á grundvelli gildandi reglna sem fræðslunefnd og sveitarstjórn samþykktu samhljóða og mikil sátt hefur ríkt um. Mikilvægt er að allir sitji við sama borð hvað þessi mál varðar og því er illmögulegt að veita svigrúm fyrir breytingar á skólaakstri á einum stað en ekki öðrum.
Sveitarfélög landsins hafa ekki boðið upp á fljótandi skólahverfi enda myndi slíkt kalla á mikla skipulagningu, mjög breytilegan akstur og akstursleiðir á milli skólahverfa og mjög verulega aukinn kostnað við þá þjónustu.
Fræðslunefnd hefur verið mjög liðleg við að veita undanþágu frá skólasókn í skólahverfi og hefur nefndin ávallt verið samstíga í afgreiðslu þessara erinda enda mikilvægt að jafnræðis sé gætt á meðal íbúa sveitarfélagsins. Í slíkum tilvikum eru foreldrar barna upplýstir um að akstur er ekki samþykktur samhliða námsvist í öðru skólahverfi enda taka akstursleiðir mið af skólahverfum. Í undanþágunni felst að foreldri þarf sjálft að sjá um akstur til viðkomandi skóla eða semja við bílstjóra á leið sem þangað ekur að barnið fái að njóta akstursþjónustu hans. Í þessu felst að ef samkomulag næst á milli foreldra og viðkomandi bílstjóra þá þarf foreldri að aka barni í veg fyrir akstursleið hans, á öruggum og heppilegum stað sem báðir aðilar fallast á. Sveitarfélagið hefur ekki milligöngu um og ber ekki ábyrgð á slíkum samningaviðræðum.
Í ljósi framangreinds hafnar meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks tillögu VG og óháðra.