Skipulagsnefnd - 24
Málsnúmer 2305004F
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Skagafjarðar - 13. fundur - 10.05.2023
Fundargerð 24. fundar skipulagsnefndar frá 4. maí 2023 lögð fram til afgreiðslu á 13. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir kynnti fundargerð. Enginn kvaddi sér hljóðs.
-
Skipulagsnefnd - 24 Tillögur að breytingum á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035.
Lagðar fram tillögur að aðalskipulagsbreytingum, sem byggja á vinnslutillögum sem voru kynntar 8. mars - 6. apríl, umsögnum og athugasemdum sem bárust á kynningartíma, og viðbrögðum við þeim. Fyrir hverja breytingartillögu fylgir uppdráttur, greinargerð ásamt umhverfismatsskýrslu.
Skipulagsbreytingarnar fjalla um: Helgustaði í Unadal (Verslun og þjónusta), ÍB410 Íbúðarbyggð í Sveinstúni, Varmahlíðaskóla og nágrennis, AF402 tjaldsvæði í Sæmundarhlíð, K401 Sauðárkrókskirkjugarð, ÍÞ404 hesthúsasvæðið við Flæðigerði og íbúðarsvæði á Hofsósi.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja ofangreindar breytingar í auglýsingu, sbr. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Skipulagsfulltrúa er falið að uppfæra tillögur í samræmi við viðbrögð við umsögnum.
Álfhildur Leifsdóttir fyrir hönd VG og óháðra leggur fram eftirfarandi tillögu varðandi tjaldsvæðið við Sauðárgil:
Í ljósi bæði samfélagsumræðu og athugasemda íbúa við endurskoðun Aðalskipulags Skagafjarðar hvað varðar uppbyggingu tjaldsvæðis við Sauðá leggja VG og óháð til að leitað verði til íbúa um tillögur um framtíðar tjaldsvæði Sauðárkróks. Skipulagsnefnd fái tillögurnar á sitt borð og í framhaldi verði farið í íbúakosningu sem fyrst um framtíðar staðsetningu tjaldsvæðis á Sauðárkróki.
Áform um uppbyggingu tjaldsvæðis við Sauðá eru metnaðarfull en á sama tíma taka þau ekki nægjanlegt tillit til breytt landslags í þessari þjónustu. Tjaldsvæðum í dag fylgir mikil umferð, gjarnan þungir og fyrirferðamiklir eftirvagnar og oft stórir bílar. Vegna þessarar þróunar er mikilvægt að finna tjaldsvæðum góða staði í sátt við íbúa byggðar hvers sveitarfélags. Svæðið við Sauðá er í miðri íbúðabyggð ásamt því að vera í nálægð við mikilvægt útivistarsvæði íbúa, Litla-Skóg. Nú þegar Flæðarnar, þar sem núverandi tjaldsvæði er, verður tekið til deiliskipulagsvinnu með upp byggingu menningarhúss að leiðarljósi er ljóst að færa þarf tjaldsvæðið þaðan innan skamms. Mikilvægt er að hraða verkefninu og hefja undirbúning sem svo sannarlega er þarfur, þannig að áfram verði hægt að bjóða gesti í tjöldum, húsbílum og vögnum velkomna til Sauðárkróks.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu á tillögu Álfhildar Leifsdóttur.
Sigríður Magnúsdóttir formaður skipulagsnefndar leggur fram eftirfarandi bókun:
Staðsetning tjaldsvæðis á Sauðárkróki var ákveðin við uppfærslu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum í sveitarstjórn í mars 2022. Við vinnslu á Aðalskipulaginu var það kynnt á íbúafundum ásamt því að öll gögn lágu frammi til kyningar og athugasemda þar sem íbúar Skagafjarðar gátu gert athugasemdir og haft áhrif tvisvar sinnum á vinnslutímanum. Núverandi deiliskipulagsvinna er því eðlilegt verklag eftir það sem á undan hefur verið gert og samþykkt. Í deiliskipulagsferlinu sem nú er í gangi mun íbúum aftur gefast kostur á að láta skoðun sýna í ljós á fyrirhuguðum framkvæmdum eins og reglurnar kveða á um. Deiliskipulagsvinnan er ekki heldur samþykki um að framkvæmdir hefjist strax en mikilvægt er að ljúka þessari vinnu svo endanleg útfærsla sé ljós þegar hætt verður að nota núverandi tjaldsvæði vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Flæðunum. Í Aðalskipulaginu kemur einnig fram að samhliða þessu nýja tjaldsvæði verði tjaldsvæðið á nöfunum einnig notað þegar um stóra og fjölmenna viðburði er að ræða á Sauðárkróki.
Jón Daníel Jónsson situr hjá við afgreiðslu varðandi tjaldsvæðið við Sauðárgil.
Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til sérliðarins "Aðalskipulag Skagafjarðar - Endurskoðun - Aðalskipulagsbreytingar". Samþykkt samhljóða. -
Skipulagsnefnd - 24 Landsnet óskar í erindi dags. 25. apríl 2023 eftir breytingu á Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020- 2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010- 2022 vegna Blöndulínu 3.
Umhverfismatsferli Blöndulínu 3 lauk með áliti Skipulagsstofnunar 9. desember 2022. Í umhverfismatsskýrslu kemur fram að aðalvalkostur Landsnets verði loftlína og muni fara að hluta um Skagafjörð (áður Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur).
Samkvæmt umhverfismatsskýrslu Landsnets mun 220 kV loftlína (aðalvalkostur) í Skagafirði liggja frá sveitarfélagamörkum Húnavatnshrepps (nú Húnabyggðar) og Skagafjarðar í Kiðaskarði að fyrirhuguðu tengivirki nálægt Mælifellsá á alls um 6 km kafla. Frá tengivirki færi línan austur yfir Eggjar í Skagafirði og inn í Norðurárdal að sveitarfélagamörkum Skagafjarðar og Hörgársveitar á Öxnadalsheiði á alls um 32 km kafla.
Þessi kafli er ekki í samræmi við legu Blöndulínu 3 í núgildandi Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2020-2035 og Aðalskipulagi Akrahrepps 2010-2022. Af þeim sökum óskar Landsnet eftir breytingu á framangreindum aðalskipulagsáætlunum þannig að ný lega Blöndulínu 3 verði færð inn á skipulagsuppdrætti í stað eldri legu, einnig nýr 132 kV jarðstrengur frá tengivirki á Mælifellsdal að tengivirki við Varmahlíð ásamt þeim námum sem stefnt er að vinna efni úr vegna línunnar. Einnig að mörkuð verði stefna um þessar framkvæmdir í skipulagsgreinargerð sem og umfjöllun í umhverfismatsskýrslu skipulags.
Í stuttu máli eru framkvæmdaþættir sem fjalla þyrfti um í aðalskipulagsbreytingu eftirfarandi:
Um 38 km kafli 220 kV Blöndulínu 3 (loftlínu) í Skagafirði sbr. framangreinda lýsingu.
Um 15 km langur, 132 kV jarðstrengur úr fyrirhuguðu tengivirki við Mælifellsá, í núverandi tengivirki í Varmahlíð.
Tengivirki við Mælifellsá, en Landsnet mun samfara aðalskipulagsbreytingu vinna að gerð deiliskipulags fyrir tengivirkið.
Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu erindisins og bendir á að hafin sé vinna við mat á mögulegri lengd jarðstrengjar í Blöndulínu 3 þar sem þær skýrslur og gögn sem Landsnet hefur lagt fram verða rýnd. Í framhaldi þeirrar vinnu verður erindið tekið til frekari afgreiðslu. Bókun fundar Afgreiðsla 24. fundar skipulagnefndar staðfest á 13. fundi sveitarstjórnar 10. maí með níu atkvæðum. -
Skipulagsnefnd - 24 Lögð fram skipulagslýsing fyrir Flæðarnar á Sauðárkróki, útg. 1.0, dags. 27.04.2023 sem unnin var á Stoð ehf. verkfræðistofu. Skipulagssvæðið nær yfir 2,4 ha svæði sem afmarkast af Skagfirðingabraut að austan, áhorfendabrekku íþróttavallar að sunnan, neðsta hluta Nafa að austan og Suðurgötu að norðan.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að setja skipulagslýsingu fyrir Flæðar á Sauðárkróki í auglýsingu í samræmi við 40. gr. skipulagslaga. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til sérliðarins "Faxatorg - Flæðar - Deiliskipulag". Samþykkt samhljóða.