Fara í efni

Tillaga að breytingum á reglum um húsnæðismál Skagafjarðar

Málsnúmer 2305044

Vakta málsnúmer

Félagsmála- og tómstundanefnd - 12. fundur - 09.05.2023

VG og Óháð leggja til að grein nr 4. í reglum um húsnæðismál Skagafjarðar verði breytt þannig að á fast grunnverð verði settur afsláttur vegna staðsetningar annars vegar og afsláttur vegna ástands hins vegar.
Þannig sé veittur afsláttur á grunnverði ef íbúðir eru staðsettar fjarri þjónustu og eins ef ástand þeirra er ekki fullnægjandi. Samkvæmt 4. grein reglna þá er leiguverð per fermeter það sama fyrir allar félagslegar íbúðir Skagafjarðar, sama hvar hún er staðsett í firðinum eða í hvernig ásigkomulagi hún er. Óskum við jafnframt eftir því að eignarsjóður geri úttekt á íbúðum í eigu Sveitarfélagsins og flokki þær eftir ástandi.

Tillaga VG og óháðra borin undir atkvæði og felld með tveimur atkvæðum á móti einu.

Meirihluti félagsmála- og tómstundanefndar hafnar tillögunni og óskar bókað:
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur lagt ríka áherslu á að jafna þjónustu svo sem kostur er á milli íbúa héraðsins. Þannig má benda á að gjaldskrá hitaveitu er hin sama per orkueiningu óháð staðsetningu og gjaldskrá sorps er hin sama alls staðar í héraðinu. Það skyti því skökku við ef sveitarfélagið færi að taka upp ólíka gjaldskrá fyrir húsnæði eftir staðsetningu þess. Í þessu sambandi má geta þess að þeir sem eiga rétt á félagslegu húsnæði njóta niðurgreiðslu á leigu eftir tekju- og eignamörkum sínum.

Þá má jafnframt benda á að í 4. gr. reglna um húsnæðismál í sveitarfélaginu Skagafirði er ákvæði þess efnis að sveitarstjóri geti tekið ákvörðun um lækkun leiguverðs fasteignar með tilliti til ástands hennar að undangenginni úttekt og umsögn eignasjóðs og hefur því ákvæði verið beitt í fáein skipti á liðnum árum.

Fulltrúar VG og Óháðra ásamt Byggðalista óska bókað:
Félagsmála- og tómstundanefnd fer með stefnumörkun í málaflokknum og ber okkur því að verja leigjendur og sjá til þess að sanngirni ríki. Önnur sveitarfélög hafa tekið upp þær reglur að gefa afslætti vegna ástands og/eða staðsetningu. Það eru því greinilega til lausnir og aðferðir til úrlausna ef viljinn er fyrir hendi.