Fara í efni

Fjárhagsáætlun 2024-2027

Málsnúmer 2308163

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 61. fundur - 13.09.2023

Lagður fram fjárhagsrammi fyrir rekstraráætlun ársins 2024 ásamt minnisblaði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 28. ágúst 2023, varðandi forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2024-2027.
Byggðarráð samþykkir fjárhagsramma ársins 2024 og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 17. fundur - 13.09.2023

Vísað frá 61. fundi byggðarráðs frá 13. september sl. til afgreiðslu sveitarstjórnar.
Lagður fram fjárhagsrammi fyrir rekstraráætlun ársins 2024 ásamt minnisblaði frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 28. ágúst 2023, varðandi forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2024-2027. Byggðarráð samþykkir fjárhagsramma ársins 2024 og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar.
Sveinn Þ. Finster Úlfarsson kvaddi sér hljóðs, þá Einar E. Einarsson og Sigfús Ingi Sigfússon

Framlagður fjárhagsrammi fyrir rekstraráætlun ársins 2024 borinn upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykktur með níu atkvæðum.

Byggðarráð Skagafjarðar - 66. fundur - 18.10.2023

Lögð fram fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2024-2027.
Byggðarráð samþykkir að vísa fjárhagsáætlun 2024-2027 til síðari umræðu í sveitarstjórn.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 18. fundur - 25.10.2023

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri tók til máls og kynnti fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024 er hér lögð fram til fyrri umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2027. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið, stofnanir og hlutdeildarfélög þess.

Helstu niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir árið 2024 gera ráð fyrir að rekstrartekjur Skagafjarðar nemi 8.346 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B-hluta, þar af eru rekstrartekjur A hluta áætlaðar 7.360 m.kr. Rekstrargjöld án fjármagnsliða og afskrifta eru áætluð 7.425 m.kr., þar af A-hluti 6.764 m.kr.

Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 921 m.kr. Afskriftir nema 301 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur 434 m.kr. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga er 13 m.kr. Rekstrarafgangur samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætlaður samtals 198 m.kr. Rekstrarhagnaður A-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætlaður 597 m.kr. Afskriftir nema 196 m.kr. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 374 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 27 m.kr.

Eignir Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2024, 15.778 m.kr., þar af eru eignir A-hluta 11.990 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 11.496 m.kr. Þar af hjá A-hluta 9.978 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.282 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall 27,14%. Eigið fé A-hluta er áætlað 2.011 m.kr. og eiginfjárhlutfall 16,78%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 469 m.kr. Veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 838 m.kr.

Helstu niðurstöður áætlunar fyrir árin 2025-2027 hvað samstæðuna varðar eru að áætlaðar tekjur 2025 eru 8.683 m.kr., fyrir árið 2026 8.786 m.kr. og fyrir árið 2027 9.060 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er áætluð jákvæð fyrir árið 2025 um 232 m.kr., fyrir árið 2026 um 258 m.kr. og fyrir árið 2027 um 270 m.kr. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri fyrir árið 2025 verði 900 m.kr., fyrir árið 2026 verði það 911 m.kr. og fyrir árið 2027 verði það 1.027 m.kr.

Til máls tóku: Sveinn Þ. Finster Úlfarsson, Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, Álfhildur Leifsdóttir, Einar E Einarsson
Forseti gerir tillögu um að vísa fjárhagsáætlun 2024-2027 til nefnda og síðari umræðu í sveitarstjórn. Samþykkt samhljóða með níu atkvæðum.

Byggðarráð Skagafjarðar - 74. fundur - 06.12.2023

Farið yfir fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2024-2027 eftir yfirferð fagnefnda yfir fjárhagsáætlun frá því að fyrri umræða hennar var samþykkt í sveitarstjórn. Ásta Ólöf Jónsdóttir, aðalbókari sveitarfélagsins, og Anna Karítas Ingvarsdóttir, bókari, komu til fundarins undir þessum dagskrárlið.

Byggðarráð Skagafjarðar - 75. fundur - 08.12.2023

Lögð fram fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024, ásamt þriggja ára áætlun 2025-2027, til síðari umræðu.
Byggðarráð samþykkir fjárhagsáætlunina og vísar henni til afgreiðslu sveitarstjórnar.

Sveitarstjórn Skagafjarðar - 20. fundur - 13.12.2023

Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri kynnti fjárhagsáætlun.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árið 2024 er hér lögð fram til síðari umræðu ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2027. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf., Flokka ehf. og Eyvindarstaðarheiði ehf, auk hlutdeildarfélaga sem koma inn í reikningsskil sveitarfélagsins eftir hlutfallslegri ábyrgð sveitarfélagsins, þ.e. Norðurá bs. og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Áætlunin sýnir rekstraráætlun, áætlaðan efnahagsreikning og sjóðsstreymi fyrir sveitarfélagið, stofnanir og hlutdeildarfélög þess
Fjárhagsáætlunin sýnir rekstraráætlun, sjóðsstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir sveitarfélagið Skagafjörð, stofnanir þess og hlutdeildarfélög.
Forsendur fjárhagsáætlunar Skagafjarðar 2024 og áætlunar fyrir árin 2054-2027 byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags- og launaþróun næstu ára.
Áætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að rekstrartekjur Skagafjarðar nemi 8.811 m.kr. hjá samstæðunni í heild, A- og B hluta, þar af eru rekstrartekjur A-hluta áætlaðar 7.759 m.kr.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 8.098 m.kr., þ.a. A-hluti 7.317 m.kr. Rekstrarafgangur A- og B-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er áætlaður 1.005 m.kr, afskriftir nema 292 m.kr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 280 m.kr. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar í heild A- og B-hluta er áætluð jákvæð, samtals með 434 m.kr. í rekstrarafgang.
Rekstrarafgangur A-hluta án afskrifta og fjármagnsliða er 616 m.kr, afskriftir nema 174 m.kr., fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 197 m.kr. Rekstrarniðurstaða A-hluta sveitarsjóðs er því áætluð jákvæð um 245 m.kr.
Eignir Skagafjarðar eru áætlaðar í árslok 2023, 16.195 m.kr., þ.a. eignir A-hluta 12.191 m.kr. Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar í árslok 11.678 m.kr., þ.a. hjá A-hluta 9.960 m.kr. Eigið fé er áætlað 4.517 m.kr hjá samstæðunni og eiginfjárhlutfall því 27,89%. Eigið fé A-hluta er áætlað 2.232 m.kr. og eiginfjárhlutfall 18,31%.
Ný lántaka er áætluð 550 m.kr. hjá samstæðunni í heild og afborganir eldri lána og skuldbindinga verða 645 m.kr. Skuldir verða því greiddar niður um 95 m.kr. umfram lántöku á árinu 2024.
Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.797 m.kr. hjá samstæðunni, þar af 1.642 m.kr. hjá A-hluta. Skuldahlutfall samstæðunnar er áætlað 128,35% og skuldaviðmið 100,75%.
Áætlunin gerir ráð fyrir að veltufé frá rekstri A-hluta verði 583 m.kr., og veltufé frá rekstri samstæðunnar A- og B-hluta verði samtals 963 m.kr. Þá er gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 164 m.kr. hjá samstæðunni í heild.

Einar E. Einarsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fjárhagsáætlun Skagafjarðar fyrir árin 2024-2027 liggur fyrir. Vönduð fjárhagsáætlun er mikilvægt stjórntæki fyrir rekstur sveitarfélagsins. Þar er stefnan mörkuð fyrir næstu ár með fjárheimildum sviða og stofnana og fjárfestingar ákvarðaðar ásamt stærri viðhaldsverkefnum fasteigna.
Við gerð fjárhagsáætlunarinnar var byggt á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 30. júní 2023 fyrir árin 2024-2027. Í þeirri spá er meðal annars gert ráð fyrir hækkun vísitölu neysluverðs um 4,9% á árinu 2024 og að launavísitalan hækki um 5,8%. Þessar forsendur voru lagðar til grundvallar við ákvarðanatöku um áætlaðar hækkanir launa og gjaldskráa vegna ársins 2024. Samþykktar hækkanir á gjaldskám eru hóflegar og er um raunlækkun að ræða sé tekið tillit til verðbólgu. Markmiðið er að stuðla að betri kjörum íbúa í Skagafirði ásamt því að leggja okkar lóð vogarskálarnar til að lágmarka þenslu, draga úr verðbólgu og auka þannig kaupmátt launa til lengri tíma litið.
Á árinu 2024 er gert ráð fyrir að fjárfestingar í framkvæmdum og viðhaldi eigna á vegum Skagafjarðar verði í heild rúmlega 1,6 milljarðar. Þar af er áætlað að tæplega 905 m.kr. komi frá rekstri sveitarfélagsins, 180 m.kr. fáist með sölu fasteigna og að hlutur ríkissjóðs verði um 400 m.kr. Þar eru viðamest fyrsti áfangi í stækkun Sauðárkrókshafnar og fyrsti áfangi í stækkun verknámshúss FNV. Önnur stærstu einstöku fjárfestingarverkefni sveitarfélagsins verða áframhaldandi uppbygging Sundlaugar Sauðárkróks, nýbygging leikskóla í Varmahlíð, endurbætur á skólahúsnæði á Hofsósi ásamt borun eftir heitu vatni á Sauðárkróki.
Þrátt fyrir áætlun um miklar framkvæmdir er gert ráð fyrir að afborganir lána verði 95 m.kr. umfram nýjar lántökur hjá samstæðunni í heild sem er jákvætt í 8-10% verðbólgu eins og verið hefur árið 2023, en á árinu varð mikil hækkun á verðtryggðum skuldum vegna verðbólgunnar. Framkvæmdafé sveitarfélagsins byggist á veltufé frá rekstri en ekki lántökum.
Gert er ráð fyrir að rekstur aðalsjóðs án eignasjóðs skili 80 m.kr. rekstrarafgangi og að samstæðan í heild skili 434 m.kr. í jákvæðri rekstrarafkomu. Þetta er mikill og jákvæður viðsnúningur. Rekstur sveitarfélagsins er í heildina traustur enda er sveitarfélagið ríkt af kraftmiklu og metnaðarfullu starfsfólki sem vill taka þátt í að efla og bæta rekstur og þjónustu sveitarfélagsins.
Fjárhagsáætlun 2024 til 2027 er unnin í samvinnu allra flokka í nefndum og ráðum sveitarfélagsins þar sem bæði kjörnum fulltrúum og starfsmönnum hefur gefist kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fyrir alla þá vinnu ber að þakka. Einnig viljum við þakka sveitarstjórasérstaklega fyrir hans góða framlag í þessari vinnu.
Við óskum íbúum Skagafjarðar allra heilla með þeirri áætlun sem hér er lögð fram. Ljóst er að Skagfirðingar geta horft fram á við með jákvæðni og bjartsýni í fjölskylduvænu samfélagi. Einnig óskum við öllum íbúum sveitarfélagsins gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Einar Eðvald Einarsson
Sólborg Sigurrós Borgarsdóttir
Hrund Pétursdóttir
Guðlaugur Skúlason
Hrefna Jóhannesdóttir


Álfhildur Leifsdóttir tók til máls og lagði fram bókun frá fulltrúum Vg og óháðra:
Skagafjörður er staðurinn sem við veljum að búa í og er ánægjulegt að sjá fleiri og fleiri átta sig á gæðunum sem búsetunni í Skagafirði fylgir. Hér hefur orðið fólksfjölgun, enda blómlegt atvinnulíf, lítið atvinnuleysi, afþreying fjölbreytt og íþróttastarf gott í firðinum okkar. Verði þróunin í fjölgun íbúa áfram með sama hætti þurfum við sem skipulagsvaldið höfum að spýta enn meir í lófana og bjóða bæði lóðir og góða þjónustu í öllum þéttbýliskjörnum svo fólk hafi búsetufrelsi. En það er ekki nóg, við þurfum líka að huga að lífsgæðum fjölskyldufólks með því að stilla álögum í hóf eins og hægt er, sérstaklega núna í mikilli verðbólgu og erfiðu vaxtaumhverfi. Þess vegna er skynsamlegt að hækkanir sveitarfélagsins séu ekki jafn miklar og víða í nágrannasveitarfélögum en þó er hægt að gera enn betur og vera ekki með flatar hækkanir á allar gjaldskrár. Hægt er að forgangsraða hækkunum, reikna betur hvað þarf að hækka og hvar sveitarfélagið getur tekið á sig sjálft hækkanir. Það er erfitt fyrir fjölskyldufólk að horfast í augu við hækkanir á t.d. leikskólagjöldum og mat í grunnskólum en VG og óháð hafa ávallt lagt á það áherslu að Skagafjörður bjóði upp á góða og ódýra þjónustu fyrir börn og barnafólk. Við studdum því ekki ekki gjaldskrárhækkanir í leikskólum eða fæðisgjöld grunn- og leikskóla fyrir árið 2024.
Hins vegar lögðum við til einni prósentu meiri hækkun á hafnargjöld, þar sem sú hækkun kæmi ekki við íbúa sveitarfélagins heldur þau fyrirtæki sem höfnina sækja. Meirihluti sá ekki ástæðu til að að afla aukins fjár á þann hátt og felldi tillöguna. Íbúar eiga greinilega að bera uppi aukinn kostnað og er það miður.

Við höfum undanfarið verið í mikilli vinnu í endurskoðun á rekstri sveitarfélagsins með Haraldi Líndal en það er bæði hollt og gagnlegt að horfa á reksturinn í samanburði við önnur sambærileg sveitarfélög. Í samanburðinum sáum við að sveitarfélagið gerir margt vel en ýmislegt má þó gera betur. Eftir þá vinnu voru mörg atriði tekin til endurskoðunar og almenn sátt milli sveitarstjórnar um þau. Það er þó margt hægt að læra af ferlinu, það þyrfti t.d. að ganga mun hraðar en er ekki við neinn hér að sakast hvað það varðar.

Önnur atriði sem við getum lært af á undanförnum árum og höfum rætt að bæta er annars vegar fjárhagsáætlanagerð, en hana þarf að byrja mun fyrr og vinna markvissara. Við í minnihluta ræddum þetta talsvert á þessum tíma í fyrra og sennilega árið þar áður líka en það er fagnaðarefni að áður nefndur Haraldur lagði einmitt til að fara fyrr í þessa vinnu og þá þótti hugmyndin góð. Við treystum á að þarna verði breytingar strax í vor.
Annað sem við getum gert betur eru útboðin. Það þarf að fara fyrr af stað í útboðsvinnu og standa betur að málum. Ekki síst á næsta ári þar sem fjöldi verkefna er mikill, bæði nýframkvæmdir og viðhaldsáætlun. Er það metnaðarfullur listi sem samt þurfti að skera af og forgangsraða. Séu raunsæis gleraugun sett upp er hæpið að svo umfangsmiklar framkvæmdir verði að raunveruleika, ekki þá endilega vegna fjármagns heldur skorts á höndum til að vinna verkin. Væri til framtíðar litið skynsamlegt að forgangsraða enn frekar, fækka verkefnum og raunverulega framkvæma það sem á listanum er og gera það vel. En þarna kemur auðvitað inn kostnaður vegna viðhaldsskulda sveitarfélagins á mörgum eignum líka, verkefni sem illa geta beðið.

Okkur í VG og óháðum hefur líka verið tíðrætt um sveitarfélagið leggi áherslu á lögboðin verkefni eins og mat til eldri borgara óháð búsetu. Það er vonandi að það verkefni komist loks til framkvæmda í einhverri mynd á komandi ári. Önnur verkefni sem ekki eru lögboðin hanga enn á fjárhagsáætlun eins og kostnaður við Aðalgötu 21 þar sem kostnaður sveitarfélagsins hleypur á tugum milljóna og engin leið er að losna undan þeim samningi því miður, því þar er peningum sannarlega kastað á glæ. Önnur verkefni sem ekki eru lögboðin og eru á gráu svæði þarf að hreinsa af borðinu á komandi árum og verður það vonandi svo.

Staða sveitarfélagsins er betri en undanfarin ár og er það vel. Vonandi hætta viðvörunarbréf vegna skuldastöðu að berast sveitarfélaginu með aukinni hagræðingu og ráðdeildar í rekstri. Áfram þarf þó að halda rétt á málum og forgangsraða með hagsmuni íbúa að leiðarljósi, lágmarka álögur sem lenda á herðum íbúanna og gera um leið sveitarfélagið að góðum búsetukosti til framtíðar.
Viljum við þakka starfsfólki sveitarfélagsins fyrir mikla og góða vinnu og þökkum við sérstaklega gott samstarf við Sigfús Inga Sigfússon sveitarstjóra.
Álfhildur Leifsdóttir og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir VG og óháð.

Sveinn Þ. Finster Úlfarsson, Guðlaugur Skúlason, Einar E Einarsson og tóku til máls.

Jóhanna Ey Harðardóttir kvaddi sér hljóðs og lagði fram bókun:
Vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár fór seint af stað og var áætluninn unnin í samstarfi allra framboða að mestu leyti. En betur má en duga skal og vonum við að fyrirheit um betri vinnubrögð komi til að standa á næsta ári. Að byrja fyrr og þar af leiðandi gefa nefndar- og starfsfólki færi á því að rýna tölur og velta steinum muni ekki bara skila okkur betri áætlunum heldur einnig skilvirkari og gagnsærri stjórnsýslu í sveitarfélaginu.
Gjaldskrárhækkanir sem samþykktar hafa verið í sveitarstjórn eru að okkar mati hóflegar í því verðbólgu umhverfi sem við búum við í dag. Mikilvægt er að sveitarfélög sýni ábyrgð í fjármálum og fylgi verðlagsþróun en á sama tíma leggi sitt af mörkum við að sporna við frekari verðbólgu.
Framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins er metnaðarfull og teljum við flestar af þessum framkvæmdum þarfar og marga nauðsynlegar. Meðal framkvæmda sem við teljum nauðsynlegt að komist til framkvæmda er ný leikskólabygging í Varmahlíð, hönnun og aðaluppdrættir við grunnskólann og íþróttahús austan vatna sem og viðhaldsframkvæmdir við A- álmu í Árskóla. Leik- og grunnskólar eru grunnstoðir í nútíma samfélagi og því nauðsynlegt að þessar byggingar standist þarfir síbreytilegs og stækkandi samfélags.
Sveitarstjórn fékk á haustmánuðum niðurstöður úttektar Haraldar Líndal á stjórnsýslu, rekstri og fjármálum sveitarfélagsins Skagafjarðar og tillögur sem miða að því að bæta framangreinda þætti, þjónustu og starfsumhverfi starfsmanna sveitarfélagsins. Fram hefur farið umfangsmikil vinna og hefur sveitarstjórn starfað þétt saman við yfirferð skýrslunar, en við eigum ennþá langt í land. Í tillögum Haraldar Líndal er til dæmis ráðlagt að sveitarstjórn setji sér markmið í rekstri og að veltufé frá rekstri þurfi að vera 10 til 15% þegar litið er á rekstur A hluta sveitarfélagsins. Núna er það rétt rúm 6% og hefur ekki verið mikið hærra undanfarin ár. Við þurfum að hafa veltuféð hátt svo við höfum fjármuni til að borga niður skuldir og einnig eigið fé til framkvæmda. Það er erfitt til framtíðar að þurfa að taka lán fyrir afborgunum ár eftir ár. Fyrir þessu höfum við fulltrúar Byggðalistans talað fyrir og gerum enn. Það verklag að taka ný langtímalán til að eiga fyrir afborgunum lána er ekki góð fjármálastjórnun að okkar mati. Því munum við fulltrúar Byggðalistans sitja hjá við afgreiðslu á fjárhagsáætlun fyrir árið 2024.
Að lokum viljum við þakka samstarfsfólki í nefndum og sveitarstjórn, sveitarstjóra, starfsfólki sveitarfélagsins sem og íbúum fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða, og óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Fulltrúar Byggðalista Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Þ. Finster Úlfarsson.

Álfhildur Leifsdóttir, Hrefna Jóhannesdóttir og Sveinn Þ. Finster Úlfarsson tóku til máls.

Fjárhagsáætlun Skagafjarðar 2024 ásamt þrjggja ára áætlun fyrir árin 2025-2027 borin upp til afgreiðslu sveitarstjórnar og samþykkt með 5 atkvæðum.
Álfhildur Leifsdóttir og Steinunn Rósa Guðmundsdóttir fulltrúar Vg og óháðra og Jóhanna Ey Harðardóttir og Sveinn Þ Finster Úlfarsson fulltrúar Byggðalista óska bókað að þau sitja hjá.