Fara í efni

Þjónusta Póstsins á landsbyggðinni

Málsnúmer 2311075

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 69. fundur - 08.11.2023

Byggðarráð Skagafjarðar harmar þá ákvörðun að Pósturinn skuli alfarið hætta að dreifa fjölpósti frá og með 1. janúar nk. Þessi ákvörðun mun hafa mikil áhrif á starfsemi staðbundinna útgáfufyrirtækja á landsbyggðinni sem sjá fram á verulegar hækkanir á dreifingu útgáfuefnis. Er þessi skerðing enn ein viðbótin við minnkandi þjónustu Póstsins, fækkun pósthúsa, skerðingu opnunartíma þeirra o.fl. sem birtist m.a. í því að Alþjóðapóstsambandið telur í nýlegri skýrslu um póstþróunarstig í heiminum fyrir árið 2022 að póstþjónusta á Íslandi sé sú versta á meðal allra Evrópuþjóða.
Byggðarráð Skagafjarðar skorar á stjórn og stjórnendur Póstsins að vinna að markvissum aðgerðum til að hækka þjónustustig Póstsins, m.a. með mikilli fjölgun póstboxa og að slíkum boxum verði komið fyrir á öllum þéttbýlisstöðum á landinu. Póstbox eru eingöngu að finna á Sauðárkróki í dag, en ekki öðrum þéttbýlisstöðum Skagafjarðar. Vinna þarf að áreiðanlegri þjónustu póstsins og hraðari og markvissari þjónustu sem kemur til móts við þarfir atvinnulífs og íbúa um land allt. Byggðarráð skorar jafnframt á stjórnvöld að vinna að skjótum lausnum til að styðja við starfsemi útgáfufyrirtækja og staðbundinna fréttamiðla á landsbyggðinni sem sjá fram á gríðarlegar verðhækkanir á dreifingu eftir rétt rúma 50 daga.