Fara í efni

Samráð; Frumvarp til laga um vindorku

Málsnúmer 2401067

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 80. fundur - 17.01.2024

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 1/2024, "Frumvarp til laga um vindorku". Framlengdur umsagnarfrestur er til og með 23.01. 2024.
Meirihluti byggðarráðs samþykkir eftirfarandi umsögn:
Markmið íslenskra stjórnvalda um orkuskipti, er að Ísland skuli ná kolefnishlutleysi og að fullum orkuskiptum skuli náð eigi síðar en árið 2040. Jafnframt er markmið stjórnvalda að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja heims. Ef þessi markmið eru skoðuð í ljósi upplýsinga um innflutta olíu er ljóst að hægt gengur að draga úr olíuinnflutningi ásamt því verulega aukin eftirspurn er eftir raforku til bæði minni notenda eins og heimila og meðalstórra fyrirtækja ásamt því að stórnotendur hafa einnig aukið eftirspurnina. Framboð raforku í dag nær því engan veginn að fullnægja eftirspurninni. Einnig er mikill munur á milli landshluta hvað varðar aðgengi að orku en þar ræður fjarlægð frá virkjunum og flutningskerfið mestu.
Í Skagafirði er hvoru tveggja andsnúið íbúum og atvinnulífi héraðsins, þ.e.a.s raforkuframleiðsla á svæðinu er vart mælanleg og flutningskerfið í gegnum fjörðinn er bæði gamalt og fulllestað. Framboð af raforku umfram það magn sem notað er í dag er því mjög takmarkað. Ástæða þess að raforkuframleiðsla á svæðinu er lítil er að fáir álitlegir vatnsaflsvirkjunarkosti sem framleiða meira en 1 MW er hér að finna. Stærri virkjunarkostir eins og Skatastaðavirkjun eða Villinganesvirkjun hafa verið í afar löngu matsferli í rammaáætlun sem ekki sér fyrir endann á.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar fagnar því framkomnu frumvarpi til laga um nýtingu vindorku en með því opnast möguleikar á að nýta vindorku til raforkuframleiðslu og staðsetja vindmyllur samkvæmt gildandi skipulagslögum, samþykki ráðherra að vísa umræddum orkunýtingarkostum til meðhöndlunar hjá viðkomandi sveitarstjórn. Þó eru þau skilyrði sem þarf að uppfylla, og t.d. aðkoma verkefnisstjórnar rammaáætlunar að þeim áður en ráðherra fær málið til umsagnar, ekki nægjanlega skýr að mati ráðsins. Það er mikilvægt að skýra betur allan ferilinn og þær kröfur sem þar eru gerðar, því þessi mál verða í mörgum tilfellum umdeild á meðan þau eru í vinnslu hjá sveitarstjórnum landsins. Með því að opna á þann möguleika að stytta og einfalda ferlið fyrir byggingu vindmylla upp að ákveðinni stærð gæti ferlið styst og möguleikar sveitarfélaga til að efla orkuframleiðslu á eigin svæði aukist. Það er jákvætt, ekki síst fyrir sveitarfélög eins og Skagafjörð, þar sem aðgengi að aukinni raforku er mjög takmarkað.
Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháðum óskar bókað:
Mikilvægt er að rannsaka nýtingu vindorku nánar á Íslandi og kynna fyrir almenningi áður en teknar eru óafturkræfar ákvarðanir. Gera skal ríka kröfu til þess að sýna fram á hvort þessi gerð virkjana samræmist og falli að íslenskum aðstæðum, náttúru, víðernum, samfélagi og efnahag. Setja þarf skýrar reglur um vindorkuvirkjanir t.d. um stærð þeirra, efni, lit, hver fjarlægir þær að notkun lokinni og annað sem er ráðandi um hvaða afleiðingum þær valda. Ef ráðist er í byggingu vindorkuvera þarf að meta þau innan rammaáætlunar og eins verða framkvæmdir þessar að lúta lögum og reglum um mat á umhverfisáhrifum og lögum um auðlindagjald. Aðlaga skal reglur um mat á umhverfisáhrifum að byggingu vindvirkjana. Einungis skal leyfa byggingu vindorkuvera sem eru í nýtingarflokki rammaáætlunar að undangengnu umhverfismati og í sátt við náttúru og samfélög. Setja þarf skýrar reglur um innheimtu auðlindagjalds af vindorkuverum og marka þarf stefnu hið fyrsta um nýtingu vindorku jafnt á landi og í hafi í íslenskri lögsögu. Vindorkuver eiga aðeins heima á þegar röskuðum svæðum á landi með tengingu við vatnsaflsvirkjanir og fyrirtæki í almannaeigu hafi forgang í þessum málum. Ríkja þarf sátt um nýtingu vindorku og kalla þarf eftir afstöðu almennings og félagasamtaka m.t.t. náttúru- og umhverfisverndarsjónarmiða og eignarhalds vindorkuvera hérlendis.