Fara í efni

Bókun frá skólaráði Varmahlíðarskóla

Málsnúmer 2402165

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 85. fundur - 21.02.2024

Lögð fram til kynningar fundargerð skólaráðs Varmahlíðarskóla frá 12. febrúar 2024.
Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháðum, leggur fram eftirfarandi bókun:
VG og óháð hafa við fjárhagsáætlanagerð bent á viðvarandi viðhaldsskuld eigna sveitarfélagsins og á það ekki síst við um skólahúsnæði fjarðarins. Bókun skólaráðs Varmahlíðarskóla endurspeglar einmitt þessa umræddu viðhaldsskuld. Þarna er um að ræða fjölmennan vinnustað þar sem starfsfólk og nemendur eyða löngum tíma innanhúss þar sem vatn og vindar leika um fólk vegna skorts á viðhaldi.
Við sameiningu Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar voru uppi stórhuga og tímabærar áætlanir um endurbætur á skólahúsnæðinu í Varmahlíð og var því lofað að sá sjóður sem sameiningin skapaði myndi renna til þessa verkefnis. Einnig er til sjóður gamla Varmahlíðarfélagsins sem innihélt 214 milljónir árið 2020 og fylgdi sú góða kvöð því fjármagni að nýta ætti það til uppbyggingar skólamannvirkja í Varmahlíð þegar félagið var lagt niður. Ekkert bólar á þessum áætlunum og skólahúsnæðið lætur enn meira á sjá á meðan beðið er.
VG og óháð leggja til að það fjármagn sem lofað var í framkvæmdir og er tilkomið vegna sameiningar sem og eyrnamerkt fjármagn frá Varmahlíðarfélaginu verði nýtt til að fara í nauðsynlegar endurbætur á skólahúsnæðinu sem fyrst.
Jóhanna Ey Harðardóttir fulltrúi Byggðalistans óskar bókað.
Áherslur Byggðalistans eru skýrar, að styrkja grunnstoðir samfélagsins og þar spila leik- og grunnskólar stóran þátt. Við teljum mikilvægt að viðhald og framkvæmdir við þessar stofnanir sveitarfélagsins hljóti forgang og höfum talað fyrir því í vinnu við fjárhags- og framkvæmdaáætlanir ár hvert. Okkur þykir miður að svona stór og veigamikill vinnustaður sveitarfélagsins sé kominn í þá viðhaldsskuld eins og fram kemur í bókun skólaráðs Varmahlíðarskóla.
Einar E. Einarsson og Sólborg Borgarsdóttir, fulltrúar meirihluta, óska bókað:
Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, Einar E. Einarsson og Sólborg S. Borgarsdóttir vilja árétta að þau eru vel upplýst um þörf á viðhaldi og endurbótum á húsnæði Varmahlíðarskóla. Markviss vinna um endurnýjun fór af stað árið 2021, en frá þeim tíma hefur verið varið um 130 milljónum í viðhald og endurbætur á skólahúsnæðinu. Má þar nefna t.d. endurnýjun á þaki skólans, loftræstikerfi og fleira. Jafnframt hefur verið í gangi vinna við endurhönnun á skólanum í samráði við bæði foreldra og starfsmenn, en sú endurgerð inniber verulega endurnýjun og endurbætur á húsnæðinu. Þeirri vinnu er ekki lokið en ljóst er að áður en farið verður í enn frekari endurbætur á núverandi skólahúsnæði verður byggður nýr leikskóli við skólann, þar sem þá allt skólastarf í Varmahlíð verður komið undir sama þak. Vinna við hönnun þeirrar byggingar og frágangur teikninga hefur tekið lengri tíma en búist var við en að óbreyttu verður það verk boðið út innan hálfs mánaðar og gangi þær tímaáætlanir eftir sem nú er unnið með er áætlað að leikskólinn verði fullbyggður um mitt ár 2025. Í framhaldi af þeirri byggingu verður farið í frekari endurbætur og viðhald á skólahúsnæðinu sjálfu samkvæmt þeim tillögum og teikningum sem enn þá eru í vinnslu en óraunhæft er að bæði verkefnin séu í gangi í einu.