Fara í efni

Samráð; Aðgerðaáætlun matvælastefnu

Málsnúmer 2402274

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 87. fundur - 06.03.2024

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 64/2024, „Aðgerðaáætlun matvælastefnu“. Umsagnarfrestur er til og með 21.03.2024.

Byggðarráð Skagafjarðar - 88. fundur - 13.03.2024

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 64/2024, "Aðgerðaáætlun matvælastefnu". Umsagnarfrestur er til og með 21.03. 2024.
Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða eftirfarandi umsögn:

Söfnunarkerfi fyrir dýraleifar
Varðandi hugmyndir um skipulagt söfnunarkerfi á dýraleifum fyrir landið allt leggur byggðarráð áherslu á að sú vinna sem í gang á að fara verði vönduð og unnin í samráði allra hagsmunaaðila eins og bænda, sláturleyfishafa og annarra sem lífrænn úrgangur fellur til hjá. Flutnings- og söfnunarkostnaður á t.d. sjálfdauðum dýrum frá bændum er hár, vegna mikilla vegalengda, ásamt því að bygging sérhæfðra eyðingarstöðva/líforkuvera er mjög hár. Þessar tvær staðreyndir gera það að verkum að eyðingarkostnaður á sjálfdauðu búfé getur orðið óeðlilega hár og ekki í neinu samhengi við t.d. afurðaverð eða umfang búanna eða afurðastöðva.
Áður en farið er í framkvæmdir er mikilvægt að skoða til þrautar hvaða leiðir eru í boði og hvað þurfi raunverulega að ganga langt í að eyða þessum hluta dýraleyfa (sjálfdauð dýr), með sérhæfðum stöðvum í stað þess að leyfa urðun á þeim á viðurkenndum svæðum innan landshluta eða innan sveitarfélaga. Rétt er líka að minna á að umfang búvöruframleiðslu hér á landi er mjög lítið í samanburði við okkar nágrannaþjóðir og eftirlit með framleiðendum almennt gott. Það gæti sparað mjög mikinn kostnað og væri þá kannski nægjanlegt að hafa eina viðurkennda eyðingarstöð á landinu sem gæti tekið við bústofni úr niðurskurði vegna sjúkdóma, annan lífrænan úrgang sem hætta er talin stafa af, ásamt sláturúrgangi frá afurðastöðvum.

Stöðumat markmiða um verndun líffræðilegrar fjölbreytni
Um verndum líffræðilegrar fjölbreytni telur byggðarráð að ekki liggi fyrir nægar forsendur um stöðu núverandi vistkerfa í landinu til að hægt sé að setja markmið um endurheimt slíkra svæða. Eins eru markmið um að hverju eigi að stefna og hvers vegna óskilgreind. Skilgreina þarf miklu betur stöðuna eins og hún er í dag og móta þá um leið stefnu um hvaða land eða lönd eigi að vera landbúnaðarsvæði sem nýtt væru til ræktunar, beitar eða akuryrkju. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ásamt fjölda einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga gagnrýnt verulega fyrirliggjandi drög um sjálfbæra landnýtingu. Þeirri gagnrýni allri þarf að svara og móta um leið miklu heildstæðari stefnu um landnýtingu og gildi einstakra landgerða fyrir t.d. landbúnað og aðra nýtingu lands áður en farið er að setja markmið um endurheimt. Að þessu verkefni þurfa að koma sveitarfélög og fulltrúar bænda ásamt öðrum þeim sem nýta landið.

Fæðuöryggi
Byggðarráð fagnar því að leggja eigi áherslu á fæðuöryggi í landinu þannig að þjóðin verði minna háð innfluttum hráefnum og aðföngum og styrkja þá um leið fjölbreytta innlenda matvælaframleiðslu. Jafnframt er fagnaðarefni að efla eigi enn frekar kornrækt í landinu en til að svo megi verða þarf meiri stuðning við þá framleiðslu og skýrari markmið um hvert eigi að stefna. Við heildarendurskoðun á stuðningskerfi landbúnaðarins er nauðsynlegt að hafa víðtækt og gott samráð við bændur um þær breytingar sem ætlunin verður að fara í af hálfu beggja aðila.

Matvælaöryggi
Byggðarráð leggur mikla áherslu á að sömu kröfur verði gerðar til innfluttra matvæla og gerðar eru til innlendra matvælaframleiðenda. Á þetta við um allar kröfur, þar með talið notkun lyfja, aðbúnað dýra í framleiðslu og um kröfur sem snúa að vinnslu afurða. Þetta er meðal annars mikilvægt vegna stöðugs vaxandi vandamála sem tengjast notkun sýklalyfja og sýklalyfjaónæmis við stöðuga og mikla notkun eins og viðurkennd er í mörgum öðrum löndum heimsins.
Matvælaeftirlit verði samræmt og sett undir eina stofnun. Þessu ber að fagna en kerfið eins og það er í dag hefur hátt flækjustig og flókið regluverk. Við sameiningu þessara stofnana er samt mikilvægt að hafa í huga að hin nýja stofnunin hafi starfsstöðvar víðsvegar um landið en þannig verður kostnaður við eftirlitið lægri og nálægð við fyrirtækin meiri sem er kostur. Reynslan sýnir að mjög dýrt er fyrir framleiðendur þegar eftirlitsaðilar fara um langan veg til að taka út fyrirtæki eða starfsstöðvar. Mikilvægt er að við sameiningu þessara stofnanna komi fulltrúar allra stofnana að vinnunni og þar með talin sveitarfélögin en þau bera í dag ábyrgð á rekstri heilbrigðiseftirlitanna.

Þarfir neytenda.
Það er mikilvægt að neytendur séu upplýstir með augljósum hætti á umbúðum matvara hver uppruni þeirra matvæla sé sem þeir eru að kaupa eða vinna með og við hvaða skilyrði þau eru framleidd. Þessar merkingar þurfa að vera skýrar þeim sem verslar eða neytir matvælanna hér á landi.
Til að merkingar sem þessar verði skýrar þarf að setja fram reglur um hvernig merkingarnar eiga að vera og sú stofnun sem fer með eftirlit á því þarf að hafa nægt fjármagn til að geta sinnt þeirri vinnu og eftirliti með að því sé framfylgt. Einnig þurfa að vera skýr sektarákvæði ef reglur eru brotnar.

Rannsóknir, nýsköpun og menntun
Mjög nauðsynlegt er að blása til sóknar í rannsóknum á hinum ýmsu þáttum sem tengjast búfjárrækt og ræktun lands, þar með talin kolefnislosun við framleiðsluna. Til að umrædd stefnumið náist verður að fylgja þessum málaflokki verulega aukið fjármagn til rannsókna. Eðlilegast er að þessi vinna sé skipulögð og framkvæmd af Landbúnaðarháskóla Íslands og öðrum hagsmunaaðilum í íslenskri landbúnaðarframleiðslu. Þá má ekki gleyma stuðningi við hefðbundnar greinar íslensks landbúnaðar.

Almennt sagt um áætlunina í heild minnir byggðarráð á mikilvægi þess að tryggt sé að umrædd markmið og verkefni séu fjármögnuð en það er forsenda þess að þau gangi eftir og skili öllu því jákvæða sem þeim er ætlað.