Fara í efni

Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2024

Málsnúmer 2404096

Vakta málsnúmer

Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd - 22. fundur - 24.04.2024

Á setningu Sæluviku Skagfirðinga 2024 verða Samfélagsverðlaun Skagafjarðar veitt í níunda sinn. Verðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingi, fyrirtæki, stofnun eða félagasamtökum í sveitarfélaginu Skagafirði sem þykja standa sig afburða vel í að efla skagfirskt samfélag.
Atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd bárust fjölmargar og afar góðar tilnefningar til Samfélagsverðlauna Skagafjarðar. Atvinnu,- menningar- og kynningarnefnd samþykkir einum rómi að hjónin Árni Björn Björnsson og Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir hljóti Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2024. Í rökstuðningi með tilnefningunni segir meðal annars: Þau hjónin eru einstakar fyrirmyndir í samfélaginu okkar. Þau styðja dyggilega við íþróttastarfið í Skagafirði og eru ávallt fyrst til að bjóða fram hjálp þegar einhver þarf á að halda og hafa þau marg oft staðið fyrir söfnunum fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í neyð. Með dugnaði, frumkvæði, hjálpsemi, samhyggð og góðu hjartalagi stuðla þau einnig að samheldni í samfélaginu okkar. Þau eru ein af ástæðum þess að það er gott að búa í Skagafirði og við getum verið stolt af því að tilheyra svo frábæru samfélagi því þau hvetja okkur hin til þess að verða betri einstaklingar.

Það er því vel við hæfi að hjónin Árni Björn og Ragnheiður Ásta hljóti Samfélagsverðlaun Skagafjarðar og er þeim þakkað opinberlega fyrir þeirra óeigingjarna framlag til samfélagsins í Skagafirði.