Byggðarráð Skagafjarðar - 99
Málsnúmer 2405023F
Vakta málsnúmerSveitarstjórn Skagafjarðar - 28. fundur - 19.06.2024
Fundargerð 99. fundar byggðarráðs frá 29. maí 2024 lögð fram til afgreiðslu á 28. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Sólborg Borgarsdóttir forseti kynnti fundargerð. Hrund Pétursdóttir tók til máls.
-
Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Undir þessum dagskrárlið kom Hjalti Páll Þórarinsson verkefnastjóri frá Flugklasanum Air 66N til fundarins til að ræða stöðu og framtíð flugklasans. Bókun fundar Afgreiðsla 99. fundar byggðarráðs staðfest á 28. fundi sveitarstjórnar 19. júní 2024 með níu atkvæðum.
-
Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Þann 3. maí sl. voru opnuð tilboð í útboðsverkið "Skólamáltíðir fyrir sveitarfélagið Skagafjörð". Búið er að yfirfara tilboðin. Samningstími er frá tilkynningu um töku tilboðs til 31. júlí 2026. Heimilt er að framlengja samninginn tvisvar sinnum um eitt ár í senn.
Tvö tilboð komu í samningshluta 1, Árskóla, og var lægstbjóðandi Stá ehf. með 106% af kostnaðaráætlun. Eitt tilboð kom í samningshluta 2, Ársali, og var það tilboð frá Stá ehf. með 106% af kostnaðaráætlun.
Álfhildur Leifsdóttir, VG og óháðum, óskar bókað:
VG og óháð hafa lengi lagt áherslu á að matur sé eldaður frá grunni fyrir alla skóla Skagafjarðar eftir gildum heilsueflandi grunnskóla. VG og óháð hafa ítrekað óskað eftir kostnaðarmati við breytingar á eldhúsi Ársala til að hægt sé að elda mat þar fyrir leik- og grunnskóla á Sauðárkróki, þar sem horft verði til hagkvæmustu leiða til framleiðslu matar og hráefni úr héraði nýtt sem mest. Um leið höfum við harmað þá skammsýni í hönnun Ársala að ekki sé þar raunverulega fullbúið eldhús og leggjum áherslu á að farið verði í slíkar breytingar sem fyrst svo ekki verði áfram endurtekin krísa í útboðum hádegisverða fyrir Ársali og Árskóla.
Jóhanna Ey Harðardóttir, Byggðalista, óskar bókað:
Skólamáltíðir er stór þáttur í lýðheilsu barna og ungmenna, þar sem börn og ungmenni verja oft á tíðum meiri tíma dags í skólum en heima og skiptir mataræði og venjur sköpum er kemur að lýðheilsu barna og ungmenna. Ákjósanlegast væri að eldað væri frá grunni í leik- og grunnskólum Skagafjarðar.
Fulltrúar Byggðalista hafa ítrekað talað fyrir því að horfa fram í tímann og vinna tímanlega að ákvörðunum varðandi framkvæmdir og útboð. Okkur þykir miður að það sé ekki raunin, þar sem samþykkt var á sveitarstjórnarfundi 10. apríl síðast liðinn að bjóða út hádegisverði í Ársölum og Árskóla eða um 3 mánuðum áður en núgildandi samningur rennur út í lok júlí. Við teljum það væri til framdráttar ef þessu verklagi yrði breytt og ákvarðanir vegna útboða og framkvæmda verði teknar með meiri fyrirvara, svo hægt sé að rýna og meta þarfir að hverju sinni til hlítar og taka ákvarðanir byggðar á þeim þörfum en ekki vegna tímaskorts. Því mun ég sitja hjá við afgreiðslu á hádegisverði í Ársölum og Árskóla.
Fulltrúar meirihluta, Einar E Einarsson og Gísli Sigurðsson, vilja minna á að það var sameiginleg ákvörðun allra flokka að óska eftir tilboðum í skólamat fyrir bæði skólastigin á Sauðárkróki fyrir tvö næstu skólaár. Var þetta samþykkt samhljóða í fræðslunefnd, byggðarráði og sveitarstjórn án athugasemda. Vissulega eru það vonbrigði að ekki hafi borist fleiri tilboð í matseldina og að þau sem bárust hafi bæði verið yfir kostnaðaráætlun. Þrátt fyrir það er ekki annar valkostur í stöðunni en að taka lægra tilboðinu eins og lög kveða á um. Ef horft er til niðurstöðu síðustu útboða má ljóst vera að markaðurinn fyrir þau hér í Skagafirði er lítill og því verður núna að skoða af fullri alvöru hvaða aðrar leiðir eru færar og er sú vinna þegar hafin.
Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum að taka tilboði frá Stá ehf. og felur sveitarstjóra að ganga frá samningum þar að lútandi. Bókun fundar Fulltrúar VG og óháðra ítreka bókun fulltrúa VG og óháðra í byggðarráði, svohljóðandi:
"VG og óháð hafa lengi lagt áherslu á að matur sé eldaður frá grunni fyrir alla skóla Skagafjarðar eftir gildum heilsueflandi grunnskóla. VG og óháð hafa ítrekað óskað eftir kostnaðarmati við breytingar á eldhúsi Ársala til að hægt sé að elda mat þar fyrir leik- og grunnskóla á Sauðárkróki, þar sem horft verði til hagkvæmustu leiða til framleiðslu matar og hráefni úr héraði nýtt sem mest. Um leið höfum við harmað þá skammsýni í hönnun Ársala að ekki sé þar raunverulega fullbúið eldhús og leggjum áherslu á að farið verði í slíkar breytingar sem fyrst svo ekki verði áfram endurtekin krísa í útboðum hádegisverða fyrir Ársali og Árskóla."
Fulltrúar Byggðalistans ítreka bókun fulltrúa Byggðalistans í byggðarráði, svohljóðandi:
" Skólamáltíðir er stór þáttur í lýðheilsu barna og ungmenna, þar sem börn og ungmenni verja oft á tíðum meiri tíma dags í skólum en heima og skiptir mataræði og venjur sköpum er kemur að lýðheilsu barna og ungmenna. Ákjósanlegast væri að eldað væri frá grunni í leik- og grunnskólum Skagafjarðar. Fulltrúar Byggðalista hafa ítrekað talað fyrir því að horfa fram í tímann og vinna tímanlega að ákvörðunum varðandi framkvæmdir og útboð. Okkur þykir miður að það sé ekki raunin, þar sem samþykkt var á sveitarstjórnarfundi 10. apríl síðast liðinn að bjóða út hádegisverði í Ársölum og Árskóla eða um 3 mánuðum áður en núgildandi samningur rennur út í lok júlí. Við teljum það væri til framdráttar ef þessu verklagi yrði breytt og ákvarðanir vegna útboða og framkvæmda verði teknar með meiri fyrirvara, svo hægt sé að rýna og meta þarfir að hverju sinni til hlítar og taka ákvarðanir byggðar á þeim þörfum en ekki vegna tímaskorts. Því mun ég sitja hjá við afgreiðslu á hádegisverði í Ársölum og Árskóla."
Hrund Pétursdóttir tók til máls og óskar bókað:
"Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja minna á að það var sameiginleg ákvörðun allra flokka að óska eftir tilboðum í skólamat fyrir bæði skólastigin á Sauðárkróki fyrir tvö næstu skólaár. Áður en farið var í útboð voru aðrir möguleikar rýndir m.a. að kaupa húsnæði til framreiðslu matar á vegum sveitarfélagsins, sem skýrir tímasetninguna að einhverju leyti. Þeir möguleikar sem voru kannaðir gengu ekki upp og var því ákveðið að fara í útboð til skamms tíma. Í bókun fræðslunefndar kemur einnig fram að jafnframt leggi nefndin til að horft verði til lengri tíma og hafist handa strax við að kostnaðarmeta fjárfestingar og rekstrarkostnað þess að elda skólamat fyrir grunnskóla og leikskóla á Sauðárkróki í Varmahlíðarskóla eða með viðbyggingu við eldra stig leikskólans Ársali, hvort sem rekstur slíkra eininga yrði á hendi starfsmanna sveitarfélagsins eða reksturinn boðinn út. Var þetta samþykkt samhljóða í fræðslunefnd, byggðarráði og sveitarstjórn án athugasemda.
Vissulega eru það vonbrigði að ekki hafi borist fleiri tilboð í matseldina og að þau sem bárust hafi bæði verið yfir kostnaðaráætlun. Þrátt fyrir það er ekki annar valkostur í stöðunni en að taka lægra tilboðinu eins og lög kveða á um. Ef horft er til niðurstöðu síðustu útboða má ljóst vera að markaðurinn fyrir þau er lítill og því verður núna skoðað af fullri alvöru hvaða aðrar leiðir eru færar og er sú vinna þegar hafin."
Afgreiðsla 99. fundar byggðarráðs staðfest á 28. fundi sveitarstjórnar 19. júní 2024 með fimm atkvæðum. Fulltrúar VG og óháðra og fulltrúar Byggðalistans óska bókað að þau sitja hjá við afgreiðslu málsins.
-
Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Lagður fram viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2024-2027. Viðaukinn inniheldur aukin framlög til rekstrar svo sem hér segir: Lækkun gjaldskrár vegna rekstrar á söfnunarstöðvum, lækkun gjaldskráa grunn-, leik-, tónlistarskóla og frístundar í tengslum við væntanlega kjarasamninga, hækkun á viðhaldskostnaði gervigrasvallar á Sauðárkróki vegna vatnstjóns og hækkun skatttekna. Samtals tekjuauki upp á 15.239 þ.kr. Breytingar á efnahag eru eftirfarandi: Aukin fjárveiting vegna borholu við Sauðárkrók og aukin fjárveiting vegna nýrrar dælustöðvar hitaveitu í Hegranesi. Samtals útgjaldaaukning upp á 53 m.kr. Lagt er til að viðaukanum verði mætt með lækkun handbærs fjár hjá sveitarfélaginu upp á 37.761 þ.kr. Ekki er gert ráð fyrir lántöku hjá sveitarfélaginu Skagafirði í viðaukanum.
Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagðan viðauka nr. 3 við fjárhagsáætlun 2024-2027 og vísar honum til afgreiðslu sveitarstjórnar. Bókun fundar Forseti gerir tillögu um að vísa afgreiðslu málsins til liðarins, Viðauki 3 við fjárhagsáætlun 2024, síðar á dagskrá fundarins. Samþykkt samhljóða. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Lögð fram fyrirspurn frá formanni Kvenfélags Hólahrepps, dags. 22. maí 2024, um aðgang félagsins að húsnæði núverandi starfsstöðvar Grunnskólans austan Vatna á Hólum í Hjaltadal.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að veita Kvenfélagi Hólahrepps áframhaldandi aðgang að húsnæði því sem starfsstöð Grunnskólans austan Vatna á Hólum hefur verið starfrækt í, þar sem ekki liggur fyrir ákvörðun um aðra starfsemi í húsinu að svo stöddu. Bókun fundar Afgreiðsla 99. fundar byggðarráðs staðfest á 28. fundi sveitarstjórnar 19. júní 2024 með níu atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Málið áður tekið fyrir á 67. fundi byggðarráðs Skagafjarðar, beiðni frá Rúnari Páli Hreinssyni um kaup á Ártúnahólfi nr. 23 á hólfakorti yfir ræktunar- og beitarlönd á Hofsósi.
Fyrir liggja uppmælingar á hólfi 23 við Hofsós. Um er að ræða 15,8 ha svæði upp með Deildardalsafleggjara.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að auglýsa hólf nr. 23 til sölu. Byggðarráð samþykkir jafnframt samhljóða að fela landbúnaðar- og innviðanefnd að greina hvort til álita komi að selja önnur hólf og lönd í sveitarfélaginu og skila niðurstöðum til stjórnar eignasjóðs.
Bókun fundar Afgreiðsla 99. fundar byggðarráðs staðfest á 28. fundi sveitarstjórnar 19. júní 2024 með níu atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Lagður fram tölvupóstur dagsettur 22. maí 2024 frá Bílaklúbbi Skagafjarðar þar sem sótt er um leyfi til að halda rallaksturskeppni í Skagafirði 27. júlí 2024. Keppnin er þriðja keppnin í Íslandsmeistaramóti Akstursíþróttasambands Íslands (AKÍS) og fer fram í samræmi við reglur AKÍS og reglugerð nr. 507/2007 um akstursíþróttir og aksturskeppnir, með áorðnum breytingum. Ráðgert er að keppnin fari fram með hefðbundnu sniði og eknar verði sérleiðir um þá vegi sem verið hefur undanfarin ár. Þannig verði farnar sérleiðir um Mælifellsdal og Vesturdal.
Byggðarráð samþykkir erindið samhljóða fyrir sitt leyti svo fremi að öll önnur tilskilin leyfi fáist frá hlutaðeigandi aðilum og öllum reglum verði framfylgt. Bókun fundar Afgreiðsla 99. fundar byggðarráðs staðfest á 28. fundi sveitarstjórnar 19. júní 2024 með níu atkvæðum. - .7 2405575 Umsagnarbeiðni; Frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir)Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis sendir til umsagnar frumvarp til laga um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir), 1114. mál. Umsagnarfrestur er til og með 31. maí 2024.
Byggðarráð samþykkir með 2 atkvæðum eftirfarandi umsögn:
Þann 17. maí sl. barst sveitarfélaginu Skagafirði beiðni um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir), 1114. mál. Byggðarráð Skagafjarðar hefur tekið framangreint frumvarp til skoðunar og vill koma á framfæri eftirfarandi sjónarmiðum og breytingartillögum:
Greiða ætti sama hlutfall kostnaðar við aðgerðina í öllum sveitarfélögum, til samræmis við hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Flest sveitarfélög niðurgreiða nú þegar með óformlegum hætti skólamáltíðir fyrir þær fjölskyldur sem standa höllustum fæti í samfélaginu.
Mikilvægt er að foreldrar hafi val um að þiggja niðurgreiðslur ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar.
Greinargerð:
Ríkið á ekki að mismuna börnum eftir búsetu
Í frumvarpinu er lagt til að ríkið veiti fjármagn í Jöfnunarsjóð á árunum 2024-2027 til þess að úthluta til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum. Framlagið skal skiptast hlutfallslega milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan. Þýðir það einfaldlega að ríkið mun borga sama gjald fyrir hvern nemenda óháð kostnaði við að veita honum gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Gera verður verulegar athugasemdir við þessa útfærslu. Einingarkostnaður við skólamáltíðir er ekki sá sami í hverjum skóla og getur verið misjafn, jafnvel á milli skólahverfa. Stærðarhagkvæmnin sem næst í stærstu sveitarfélögum landsins er ekki til staðar í minni sveitarfélögum og því er einingarkostnaður þar hærri en annars staðar. Þannig er ljóst að ríkið mun líklega ekki greiða 75% af kostnaði forráðamanna í flestum sveitarfélögum landsins, en jafnvel meira en 75% í þeim stærstu. Eðlilegast væri að ríkið tæki á sig sama hlutfall kostnaðar í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Þá er það ekki hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að dreifa fjármunum miðað við höfðatölu. Í 1. mgr. 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 er hlutverk Jöfnunarsjóðs skilgreint:
“Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi sjóðsins.?
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar leggur til að gerðar verði nauðsynlegar breytingar til þess að framlagið fari í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í samræmi við hlutverk sjóðsins að jafna mismunandi útgjaldaþörf.
Kostnaðarvitund, val foreldra og sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar tekur undir tillögur samráðshóps sveitarfélaga um að til þess að stuðla að kostnaðarvitund vegna niðurgreiðslunnar gætu sveitarfélög farið þá leið að óska eftir því að forráðamenn virkjuðu annars vegar niðurgreiðslu sveitarfélags og hins vegar ríkis um leið og barn væri skráð fyrir skólamáltíð. Rík ástæða er til þess að heimila sveitarfélögum sérstaklega í lögum að viðhalda gjaldskrá en skylda þau til að bjóða öllum foreldrum að virkja niðurgreiðslur ríkisins annars vegar og sveitarfélagsins hins vegar. Aðgerðin er tímabundin og verði hún ekki framlengd er mikilvægt að foreldrar hafi ekki tapað kostnaðarvitund, en einnig munu foreldrar sem aldrei hafa þurft að greiða fyrir skólamáltíðir bætast við þann hóp sem hefur börn í grunnskóla á tímabilinu. Þá er ekki öruggt að öll sveitarfélög hafi fjárhagslega burði til að viðhalda aðgerðinni að tímabilinu loknu ef ríkið hættir sínum niðurgreiðslum. Þá munu sveitarfélögin ein sitja eftir með kostnaðinn en ljóst er að mjög erfitt verður að fara þá til baka í gjaldtöku.
Einnig er mikilvægt að foreldrar sjái hversu stóran hluta ríkið greiðir annars vegar og sveitarfélagið hins vegar, sér í lagi ef því verður haldið til streitu að niðurgreiða sömu fjárhæð fyrir hvert grunnskólabarn óháð einingarkostnaði.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar leggur til að frumvarpinu verði breytt á þann hátt að sveitarfélögum sé skylt að bjóða upp á niðurgreiðslur frá ríki annars vegar og sveitarfélagi hins vegar en foreldrum sé ekki skylt að þiggja niðurgreiðslurnar. Jafnframt að sveitarfélög skuli skila gögnum til Jöfnunarsjóðs um hversu margir nýttu sér niðurgreiðslu ríkisins og endurgreiða Jöfnunarsjóði þá fjárhæð sem úthlutað var vegna þess fjölda nemenda sem foreldrar afþökkuðu niðurgreiðslu ríkisins. Yrði sú útfærsla jafnframt betur í samræmi við sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, en verði frumvarpið óbreytt að lögum eru sveitarfélög sett upp við vegg þar sem aukin útgjöld þeirra eru forsenda þess að niðurgreiðslur komi frá ríkinu.
Meirihluti byggðarráðs Skagafjarðar telur að frumvarpið ætti ekki að ná fram að ganga í óbreyttri mynd og hvetur velferðarnefnd til þess að taka alvarlega til skoðunar þær athugasemdir og breytingartillögur sem lagðar hafa verið til í umsögn þessari. Meirihluti byggðarráðs er jafnframt tilbúinn að fylgja umsögn þessari eftir á fundi með nefndinni.
Bókun fundar Afgreiðsla 99. fundar byggðarráðs staðfest á 28. fundi sveitarstjórnar 19. júní 2024 með níu atkvæðum. -
Byggðarráð Skagafjarðar - 99 Lagðar fram til kynningar fjárhagsupplýsingar vegna reksturs sveitarfélagsins tímabilið janúar-mars 2024. Bókun fundar Afgreiðsla 99. fundar byggðarráðs staðfest á 28. fundi sveitarstjórnar 19. júní 2024 með níu atkvæðum.