Fara í efni

Samgöngumál í Skagafirði

Málsnúmer 2406008

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 100. fundur - 05.06.2024

Bjarni Jónsson formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og Stefán Vagn Stefánsson formaður fjárlaganefndar Alþingis sátu fundinn í gegnum fjarfundarbúnað, til að ræða samgöngumál í Skagafirði.
Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að fylgja málinu eftir.

Byggðarráð Skagafjarðar - 112. fundur - 11.09.2024

Mál áður á dagskrá byggðarráðs þann 5. júní sl. Þá átti byggðarráð samtal við Bjarna Jónsson, formann umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og Stefán Vagn Stefánsson formann fjárlaganefndar Alþingis þar sem samgöngumál í Skagafirði voru rædd.

Undir þessum lið kom Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, til fundarins og ítrekaði mikilvægi þess að strax verði farið í endurbætur á Hólavegi nr. 767, en núverandi ástand hans er með öllu óásættanlegt.

Byggðarráð Skagafjarðar samþykkir samhljóða eftirfarandi ályktun sem sveitarstjóra er falið að senda á nefndarmenn í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis og þingmenn Norðvesturkjördæmis:
Byggðarráð Skagafjarðar ítrekar áður sent bréf til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis dagsett 10. júní 2024 og leggur ríka áherslu á að endurbætur á Hólavegi nr. 767 fari fram eigi síðar en sumarið 2025. Vegurinn er afar mjór og bylgjóttur, raunar svo mjög að hann er varhugaverður stærri bílum og bílum með tengivagna og hestakerrur. Á veginum hafa orðið mjög alvarleg slys. Vegurinn liggur að þéttbýlisstaðnum Hólum í Hjaltadal þar sem er starfsemi m.a. á vegum Háskólans á Hólum. Tilheyrandi þeirri starfsemi er m.a. hestafræðideild sem kallar á mikla umferð nemenda með hestaflutninga. Þar er einnig öflug ferðaþjónusta og aðsetur vígslubiskups en á vegum embættisins eru fjölmargir viðburðir haldnir ár hvert. Á Hólum er einnig rekið Sögusetur íslenska hestsins, Bjórsetur Íslands og leikskóli á vegum sveitarfélagsins Skagafjarðar. Landsmót hestamanna verður næst haldið á Hólum í Hjaltadal sumarið 2026 en þann viðburð munu líklega á annan tug þúsunda sækja.
Sem gefur að skilja batnar ástand vegarins ekki með árunum og knýjandi nauðsyn að ráðast í lagfæringar á honum og/eða mikla uppbyggingu og klæðningu á Ásavegi nr. 769 til að tryggja öryggi akandi vegfarenda heim að Hólum. Sú ráðstöfun að ráðast í lagfæringar á einbreiðri brú yfir Hjaltadalsá, við beygju og blindhæð, fyrir skemmstu í stað þess að endurnýja hana með tvöföldun í takt við öryggiskröfur nútímans benda til þess að einhverjar hugleiðingar um uppbyggingu Ásavegar hljóti að hafa verið í vinnslu hjá Vegagerðinni en Vegagerðin fullyrðir að svo sé ekki.
Þess má geta að forsvarsmenn sveitarfélagsins hafa tekið málið upp á a.m.k. 3 formlegum fundum með Vegagerðinni á síðasta eina og hálfa árinu.
Með erindi þessu er skorað á umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að tryggja lagfæringu Hólavegar nr. 767 í Skagafirði. Ef ekki næst að ráðast í gagngera endurnýjun hans í samræmi við staðla sem gerðir eru fyrir slíka vegi, þá a.m.k. að tryggja 250 m.kr. til fræsinga, lagfæringa á verstu öldum og ósléttum í veginum og lagningu bundins slitlags að nýju. Það er sú fjárhæð sem Vegagerðin segist þurfa til að tryggja slíkar lágmarksbætur á veginum.
Vegagerðin telur framkvæmdina brýna og er reiðubúin að fara í verkið sumarið 2025 ef fjármagn er tryggt. Það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir huganleg óhöpp í tengslum við mikla umferð landsmóts hestamanna sumarið 2026. Ef ekkert verður að gert er ljóst að slysatíðni á veginum mun aukast enn frekar.