Fara í efni

Staða drengja í menntakerfinu

Málsnúmer 2406220

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd - 29. fundur - 08.07.2024

Rætt um nýlega skýrslu um stöðu drengja í menntakerfinu og hún lögð fram til kynningar. Ljóst er að nemendur í Skagafirði standa ágætlega í einhverjum þáttum ef miðað er við fyrirliggjandi samanburðarmælingar. Mikilvægt er að skólar í Skagafirði sæki í og taki þátt í samanburðarmælingum þegar kostur er á.

Fræðslunefnd leggur til að ráðist verði í úttekt á helstu áskorunum og ástæðum sem minnst er á í skýrslunni og staða Skagafjarðar kortlögð eins og kostur er. Þá verði metið hvort tækifæri séu til þess að innleiða tillögur skýrslunnar í skólastarf í Skagafirði. Sérstaklega verði skoðuð þau verkefni í tillögu 8 sem hafa gefið góða raun og/eða sýna mælanlegan árangur. Þá verði ráðist í það strax í haust að ræða við skólastjórnendur og íþróttakennara um möguleika á aukinni hreyfingu sem skipulagðari hluta af skóladeginum.

Þessi úttekt verður mikilvæg undirbúningsvinna fyrir endurskoðun menntastefnu Skagafjarðar. Menntastefnu þarf að vinna fyrir öll skólastig með aðkomu allra hagaðila, þ.m.t. atvinnulífs. Fræðslunefnd leggur áherslu á að í menntastefnu Skagafjarðar komi fram skýr, tímasett og mælanleg markmið til að byggja ofan á þann góða grunn sem nú þegar er til staðar.

Tillagan samþykkt samhljóða.