Fara í efni

Fræðslunefnd

29. fundur 08. júlí 2024 kl. 16:15 - 18:40 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Kristófer Már Maronsson formaður
  • Hrund Pétursdóttir varaform.
  • Agnar Halldór Gunnarsson aðalm.
  • Steinunn Rósa Guðmundsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Ragnar Helgason sérfræðingur á fjölskyldusviði
  • Rakel Kemp Guðnadóttir sérfræðingur á fjölskyldusviði
  • Steinunn Ragnheiður Arnljótsdóttir skólastjóri leikskóla
  • Ragnheiður Halldórsdóttir áheyrnarftr. grunnsk.kennara
  • Dagný Huld Gunnarsdóttir áheyrnarftr. leiksk.kennara
  • Sólborg Una Pálsdóttir áheyrnarftr. foreldra grunnsk.barna
Fundargerð ritaði: Ragnar Helgason Sérfræðingur á fjölskyldusviði
Dagskrá
Í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar þann 19. júní sl. er fulltrúi Byggðalistans, Agnar H. Gunnarsson, nú aðalmaður og fulltrúi Vg og óháðra, Steinunn Rósa Guðmundsdóttir, nú áheyrnarfulltrúi í Fræðslunefnd.

1.Trúnaðarbók fræðslunefndar 2024

Málsnúmer 2401164Vakta málsnúmer

Fimm mál lögð fyrir og færð í trúnaðarbók.

2.Fundargerðir skólaráðs Árskóla 2023-24

Málsnúmer 2310247Vakta málsnúmer

Fundargerð skólaráðs Árskóla frá 10. maí lögð fram til kynningar.

3.Fundargerðir skólaráðs Varmahlíðarskóla 2023-24

Málsnúmer 2402152Vakta málsnúmer

Fundargerðir skólaráðs Varmahlíðarskóla frá 15. maí og 10. júní lagðar fram til kynningar.

4.Fundir fræðslunefndar á haustönn 2024

Málsnúmer 2405647Vakta málsnúmer

Lögð fram tillaga að fundartímum nefndarinnar fyrir haustönn 2024, sem eru eftirfarandi: 15. ágúst, 24. september, 15. október, 21. nóvember og 19. desember. Nefndin samþykkir tillöguna samhljóða með fyrirvara um breytingar.

5.Fjárhagsáætlun 2025 - málaflokkur 04

Málsnúmer 2406044Vakta málsnúmer

Fjárhagsrammi fyrir rekstrarárið 2025 ásamt forsendum lagður fram til kynningar.

6.Staða drengja í menntakerfinu

Málsnúmer 2406220Vakta málsnúmer

Rætt um nýlega skýrslu um stöðu drengja í menntakerfinu og hún lögð fram til kynningar. Ljóst er að nemendur í Skagafirði standa ágætlega í einhverjum þáttum ef miðað er við fyrirliggjandi samanburðarmælingar. Mikilvægt er að skólar í Skagafirði sæki í og taki þátt í samanburðarmælingum þegar kostur er á.

Fræðslunefnd leggur til að ráðist verði í úttekt á helstu áskorunum og ástæðum sem minnst er á í skýrslunni og staða Skagafjarðar kortlögð eins og kostur er. Þá verði metið hvort tækifæri séu til þess að innleiða tillögur skýrslunnar í skólastarf í Skagafirði. Sérstaklega verði skoðuð þau verkefni í tillögu 8 sem hafa gefið góða raun og/eða sýna mælanlegan árangur. Þá verði ráðist í það strax í haust að ræða við skólastjórnendur og íþróttakennara um möguleika á aukinni hreyfingu sem skipulagðari hluta af skóladeginum.

Þessi úttekt verður mikilvæg undirbúningsvinna fyrir endurskoðun menntastefnu Skagafjarðar. Menntastefnu þarf að vinna fyrir öll skólastig með aðkomu allra hagaðila, þ.m.t. atvinnulífs. Fræðslunefnd leggur áherslu á að í menntastefnu Skagafjarðar komi fram skýr, tímasett og mælanleg markmið til að byggja ofan á þann góða grunn sem nú þegar er til staðar.

Tillagan samþykkt samhljóða.

7.Gjaldfrjálsar skólamáltíðir

Málsnúmer 2407024Vakta málsnúmer

Nýlega tóku gildi lög um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem heimilar Jöfnunarsjóði sveitarfélaga að greiða öllum sveitarfélögum sem bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum framlag úr ríkissjóði. Í kynningu aðgerðarinnar með yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga stóð til að ríkið skyldi borga 75% kostnaðar og sveitarfélög 25%. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga var skipaður vinnuhópur til að útfæra aðgerðina fyrir lok maí 2024. Ekki var leitað til vinnuhópsins við gerð frumvarpsins samkvæmt umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem því er haldið fram að frumvarpið hafi verið samið af aðila sem sat engan fund og tók ekki tillit til vinnu hópsins.

Í þeirri útfærslu sem lögfest hefur verið kemur í ljós að útfærslan verður á þann veg að sveitarfélög munu fá framlag sem nemur jafnhárri fjárhæð á hvern nemenda, óháð kostnaði sveitarfélaga við skólamáltíðir eða stærðarhagkvæmni. Er þessi útfærsla með öllu óásættanleg fyrir dreifðari byggðir landsins og sérstaklega fjölkjarna sveitarfélög sem reka smærri einingar með tilheyrandi hærri kostnaði við skólamáltíðir. Með þessu er ríkið að mismuna börnum eftir búsetu og er útfærslan í andstöðu við hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem er m.a. að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga. Þá fá sveitarfélög ekki niðurgreiðslu ríkisins nema að bera þann kostnað sem eftir stendur sjálf. Í tilfelli Skagafjarðar mun niðurgreiðsla ríkisins nema um helmingi af kostnaði forráðamanna en ekki 75% eins og von var á þegar verkefnið var kynnt sveitarfélögum. Kostnaður forráðamanna er nú þegar niðurgreiddur í Skagafirði og raunkostnaður líklega talsvert hærri. Áætlað er að á fyrsta ári muni Skagafjörður þurfa að leggja í verkefnið um 40 m.kr. til þess að það verði að veruleika. Fræðslunefnd telur það grundvallarforsendu fyrir því að gjaldfrjálsar skólamáltíðir verði í grunnskólum Skagafjarðar að kostnaður sveitarfélagsins við verkefnið verði fjármagnaður með hagræðingu. Þá telur nefndin rétt að verkefnið verði endurskoðað að loknu fyrsta skólaári og metið verði hvort tekist hafi að hagræða fyrir kostnaði. Þá telur nefndin mikilvægt að útfærsla verkefnisins verði á þann veg að foreldrar þurfi áfram að skrá börnin sín í mat en haka þurfi við niðurgreiðslu ríkisins annars vegar og sveitarfélagsins hins vegar. Þá telur nefndin rétt að gjaldskrá fyrir skólamáltíðir verði hækkuð í raunkostnað til þess að skýrt komi fram við skráningu í mat hversu stóran hluta íbúar sveitarfélagsins fjármagna með skattgreiðslum sínum og hversu stór hluti komi frá ríkinu. Að lokum telur nefndin að skrá þurfi nýtingu og matarsóun í grunnskólum ef skólamáltíðir verða gjaldfrjálsar.

Nefndin samþykkir samhljóða að fela starfsfólki að hefja undirbúning verkefnisins með útfærslu á skráningu í skólamáltíðir, útreikningi á raunkostnaði við skólamáltíðir og samtali við stjórnendur skóla um hagræðingaraðgerðir.

8.Skólapúlsinn 2023-2024

Málsnúmer 2406058Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar niðurstöður úr nemendakönnun 6.-10. bekkjar grunnskóla í Skagafirði sem framkvæmd er af Skólapúlsinum. Skólapúlsinn gerir árlegar kannanir meðal nemenda, starfsfólks og foreldra grunnskólabarna.

9.Frístund fyrir 3. og 4. bekk

Málsnúmer 2309228Vakta málsnúmer

Á fundi fræðslunefndar þann 8. maí sl. var samþykkt að senda út könnun til foreldra barna í 3. og 4. bekk Árskóla um nýtingu frístundar í Húsi frítímans og hug þeirra til mögulegra breytinga á fyrirkomulaginu. Minnisblað frá sviðsstjóra var lagt fram til kynningar. Þar komu fram niðurstöður úr könnun sem send var til foreldra við lok skólaárs. Niðurstöður sýna að meirihluta foreldra líkar vel þjónustan í Húsi frítímans.

10.Framkvæmdir við skólamannvirki í Skagafirði

Málsnúmer 2304014Vakta málsnúmer

Sviðsstjóri fór yfir stöðuna á helstu framkvæmdum við skólamannvirki í Skagafirði. Uppsláttur við leikskólann í Varmahlíð er að hefjast og gengur verkið samkvæmt áætlun.

Búið er að hreinsa út úr nýju anddyri í grunnskólanum á Hofsósi. Þar verður settur gólfhiti og í kjölfarið nýtt gólfefni. Búið er að teikna raflagnir. Gluggar og hurðir verða líklega ekki komnar fyrr en um miðjan ágúst en öðrum framkvæmdum í anddyri er hægt að ljúka þrátt fyrir það. Vinna við ísetningu hurða tekur ekki langan tíma. Alls þarf að breikka sjö dyraop innandyra og verður farið í það fyrir haustið. Lyftan verður einnig tilbúin fyrir haustið. Framkvæmdir á lóð fóru í verðfyrirspurn og er nú búið að skrifa undir verksamning við Vinnuvélar Símonar sem hafa nú þegar hafið framkvæmdir. Verkið felur í sér jarðvegsskipti, að setja snjóbræðslu frá skóla, yfir lóð og að Lindargötu. Tryggt verður gott aðgengi frá sleppisvæði skólabíla að inngangi. Leiksvæði við vesturvegg skólans er hluti af verkinu og verður þar settur sandkassi og leiktæki og gúmmíhellur þar í kring. Áhersla er lögð á að verkinu verði að mestu leyti lokið fyrir skólabyrjun.

Búið er að ganga frá skólahúsnæði á Hólum og skilar grunnskólinn formlega af sér húsnæðinu þann 31. júlí nk.

11.Upplýsingatækni í grunnskólum

Málsnúmer 2407025Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd óskar eftir því að unnin verði skýrsla um upplýsingatækni í grunnskólum Skagafjarðar. Í skýrslunni komi m.a. fram hvaða tölvukerfi notuð eru í grunnskólum Skagafjarðar, hvernig nemendur læra með hjálp upplýsingatækni og á hvaða forrit sé kennt. Þá verði því einnig gert skil í skýrslunni hvaða áhrif spjaldtölvuvæðing hefur haft á námsárangur, hvernig spjaldtölvur hafa nýst nemendum í áframhaldandi námi og/eða starfi og hvort mælanlegur árangur sé af verkefninu samanborið við skóla sem eru ekki í því.

12.Skýrslubeiðni um starfsdaga í leik-, grunn- og tónlistarskóla

Málsnúmer 2407026Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd óskar eftir því að fá árlega til kynningar skýrslu þar sem farið er yfir starfs- og skipulagsdaga í leik-, grunn- og tónlistarskólum Skagafjarðar síðastliðið skólaár. Æskilegt er að fram komi hvenær tilteknir dagar eru, hvar, hvernig framkvæmd þeirra er háttað, hvert þátttökuhlutfall starfsmanna er og hvað sé gert á hverjum degi auk annarra upplýsinga sem starfsfólk telur upplýsandi.
Fræðslunefnd felur starfsfólki að kalla eftir gögnum og leggja fyrir nefnd.
Agnar Gunnarsson vék af fundi að dagskrárlið 12 loknum.

13.Spretthópur um nýja nálgun í leikskólamálum

Málsnúmer 2402111Vakta málsnúmer

Skýrsla spretthóps kynnt fyrir fræðslunefnd. Hlutverk spretthópsins var að skoða aðgerðir sem önnur sveitarfélög hafa ráðist í til að bæta skipulag og starfsumhverfi leikskóla með dvalartíma, vellíðan og velferð barna og starfsfólks í huga. Hópurinn átti að meta kosti og galla aðgerða og kostnaðarmeta ef möguleiki var á.
Stefnt er að því að kynna skýrsluna formlega fyrir starfsfólki og foreldrum í haust.

14.Aðgerðir til að bæta starfsumhverfi leikskóla

Málsnúmer 2210285Vakta málsnúmer

Árið 2022 var ráðist í aðgerðir til að bæta starfsumhverfi í leikskólum og voru sumar þeirra tímabundnar. Í samræmi við skýrslu spretthóps um nýja nálgun í leikskólamálum leggur fræðslunefnd til að eftirfarandi aðgerðir verði gerðar varanlegar:

1. Niðurfelling gjalda ef sumarfrí er lengt. Leikskólastjórar bera ábyrgð á útfærslu aðgerðarinnar ár hvert og hafa heimild til að nýta aðgerðina frá 1. júní - 15. ágúst ár hvert.

2. Undirbúningstími fyrir leikskólaliða og ófaglærða sem starfað hafa lengur en 3 ár. Aðgerðin hefur gengið vel og fræðslunefnd leggur til að leikskólastjórar hafi frelsi til þess að veita starfsfólki undirbúningstíma ef fagleg rök eru fyrir því og mönnun er næg, þrátt fyrir að skilyrði um starfsaldur séu ekki uppfyllt. Á þetta t.d. við um starfsfólk sem sinnir stuðningi eða ef fáir starfsmenn deilda eiga rétt á undirbúningstíma. Þó skal heildartími sem fer í undirbúning ekki vera meiri en hann væri ef 2/3 starfsfólks væru leikskólakennarar.

3. Leikskólastjórar hafi heimild til að ráða fólk í sveigjanlegar afleysingar til að bregðast við þegar vöntun er á starfsfólki í stað þess að loka deildum, t.d. í námslotum eða vegna veikinda. Leikskólastjórar skulu halda sérstaklega utan um þau tilfelli sem þörf er á tímavinnustarfsfólki, hverjar ástæður eru fyrir því hverju sinni, hvort tekist hafi að leysa af starfsfólk með tímavinnustarfsfólki og hvaða afleiðingar það hafði ef ekki tókst að leysa af.

Þá leggur fræðslunefnd til í samræmi við skýrslu spretthópsins að eftirfarandi aðgerðir úr aðgerðapökkum, sem voru tímabundnar út ágúst 2024, verði ekki framlengdar:

1. 50% afsláttur af dvalargjöldum fyrir starfsfólk sem er með börn á leikskóla.
2. Tveir auka frídagar fyrir starfsfólk sem á ekki börn á leikskóla.

Kostnaður þessara tveggja aðgerða var metinn rúmlega 10 milljónir króna á ári og þóttu aðgerðirnar ekki skila tilætluðum árangri.

Fræðslunefnd samþykkir tillögurnar samhljóða og vísar þeim til byggðarráðs.

15.Skráningardagar í leikskólum

Málsnúmer 2407057Vakta málsnúmer

Í skýrslu spretthóps er fjallað um skráningardaga og telur spretthópurinn þá aðgerð geta bætt starfsumhverfi og vellíðan starfsfólk og barna í leikskólum Skagafjarðar. Skráningardagar eru dagar þar sem ekki er gert ráð fyrir að börn mæti í leikskólann nema foreldrar skrái þau sérstaklega. Markmiðið með skráningardögum er að gefa foreldrum tækifæri til að spara leikskólagjöld ef þeir geta haft börnin heima og til að starfsmenn geti í meira mæli nýtt styttingu vinnuvikunnar eða sumarorlof þessa daga. Í kringum jól, áramót og páska undanfarin ár hefur foreldrum gefist kostur á niðurfellingu gjalda skrái þeir börn sín ekki í leikskóla vissa daga.

Fræðslunefnd leggur til að settar verði reglur um skráningardaga í Skagafirði. Skráningardagar skulu vera 20 á hverju ári og skulu skráningardagar fylgja haust- og vetrarfríi grunnskóla, jóla- og páskaleyfi grunnskóla þegar ekki er um skipulagsdag eða lokun vegna starfsmannafunda að ræða á sömu dögum í leikskólum. Skal einnig bjóða upp á skráningardaga á klemmudögum, þegar einn virkur dagur er á milli frídaga, sé ekki nú þegar skipulagsdagur eða lokun af öðrum ástæðum á þeim dögum. Sá fjöldi skráningardaga sem ekki kemst á slíka daga skal settur á aðra dag sem leikskólastjórar telja að geti hentað starfseminni eða að megi gera ráð fyrir að börn verði færri en venjulega. Upptaka skráningardaga skal ekki hafa áhrif á tilmæli til leikskóla að samræma skipulagsdaga og aðra lokunardaga við skóladagatal grunnskóla.

Foreldrar skulu skrá börn sín sérstaklega í leikskólann þessa daga með rafrænum hætti a.m.k. 4 vikum áður en daginn ber upp. Greitt verður sérstaklega fyrir skráningardaga og skal fjárhæð ákveðin í gjaldskrá leikskólagjalda.

Leikskólastjórar skulu merkja skráningardaga skýrmerkilega inn á skóladagatal og fræðslunefnd þarf að samþykkja skráningardaga ár hvert, sem og beiðnir um tilfærslur á skráningardögum.

Fræðslunefnd óskar eftir því að fá árlega kynningu á nýtingu skráningardaga, hlutfalli fjarvista barna sem skráð voru á skráningardegi og nýtingu starfsfólks á vinnutímastyttingu eða orlofi á skráningardögum.

Fræðslunefnd felur starfsfólki að útbúa drög að reglum um skráningardaga til samþykktar fyrir fræðslunefnd á næsta fundi.

16.Gjaldskrárbreytingar í leikskólum

Málsnúmer 2407058Vakta málsnúmer

Í samræmi við skýrslu spretthóps leggur fræðslunefnd til að gerð verði breyting á gjaldskrá í leikskólum. Í dag eru 60% barna 8,5 tíma á dag í leikskólum Skagafjarðar og 81% eru 8 tíma eða lengur. Munurinn í dag fyrir foreldra á því að kaupa 8 eða 8,5 tíma er 1.854 kr. á mánuði fyrir eitt barn en 2.781 kr. fyrir tvö börn eða fleiri. Lagt er til að gjaldskrá skapi fjárhagslegan hvata til þess að foreldrar sem hafa á því kost geti minnkað vistunartíma barna sinna.

Fræðslunefnd vísar eftirfarandi breytingum á gjaldskrá til byggðarráðs:

Gjaldskrá fyrir dvalargjald verði tvískipt eftir tíma dags, frá 8-16 og utan 8-16. Mánaðarlegt dvalargjald verði eftirfarandi frá 8-16:

6 tímar eða minna kosta 455 kr.
6.5 tímar kosti 2.955 kr.
7 tímar kosti 5.455 kr.
7.25 tímar kosti 7.955 kr.
7.5 tímar kosti 10.455 kr.
7.75 tímar kosti 12.955 kr.
8 tímar kosti 15.455 kr.

Þá verði að skrá barn í vistun í síðasta lagi frá kl. 9 samkvæmt gjaldskrá en séu börn skráð síðar í vistun borga þau ávallt að lágmarki frá kl. 9.

Mánaðarlegt dvalargjald verði eftirfarandi utan 8-16:

Frá 7.45-8.00 kosti 10.000 kr.
Frá 16-16.15 kosti 5.000 kr.

Þá verði gjald fyrir skráningardaga 2.500 kr. óháð dvalartíma og skrá þarf barn með a.m.k. 4 vikna fyrirvara í vistun á skráningardögum.

Morgunhressing, hádegisverður og síðdegishressing hækki um 3,5%. Þá mun morgunhressing kosta 4.025 kr., hádegisverður 8.757 kr. og síðdegishressing 4.025 kr.

Sekt fyrir að sækja barn of seint eða mæta með barn of snemma oftar en tvisvar sinnum á önn (janúar - júní og júlí - desember) verði 10.000 kr. í hvert skipti umfram tvö á hvorri önn.

Fyrir kl. 8 á morgnana er launakostnaður hærri en eftir kl 8 og því lagt til að gjaldskrá sé hæst á þeim tíma. Með þessu telur fræðslunefnd að skapaður sé jákvæður fjárhagslegur hvati fyrir foreldra að minnka vistunartíma barna sinna. Mánaðarlegt dvalargjald fyrir 8,5 tíma verður 30.455 kr. án skráningardaga en 35.000 kr. að meðaltali á mánuði séu allir skráningardagar nýttir og er það 3.482 kr. hærra en í núverandi gjaldskrá. Fyrir vistun frá 8-16 verður mánaðarlegt dvalargjald 15.455 kr. án skráningardaga en 20.000 kr. séu allir skráningardagar nýttir og er það 9.664 kr. lækkun frá núverandi gjaldskrá. Breyti foreldrar vistun úr 7.45-16.15 í 8-16 mun það spara heimilnu 15.000 kr. á mánuði fyrir 1 barn en 22.500 kr. á mánuði fyrir 2 börn jafnvel þó allir skráningardagar séu nýttir. Það gera 165.000 - 247.500 kr. sparnað á ári í leikskólagjöld.

Fræðslunefnd vonast til þess að breyting á gjaldskrá muni skila sér í styttri vistunartíma barna og þar með minna álagi á starfsfólk og börn, minni yfirvinnugreiðslum og hlutfallslega betri mönnun. Nefndin vonar að hærri sektir verði hvatning til foreldra um að virða opnunartíma leikskóla og vinnutímai starfsfólks.

Fræðslunefnd óskar eftir því að breytingar á dvalartíma verði skráðar og nefndinni kynntar breytingarnar sem ný gjaldskrá mun hafa á dvalartíma barna á fyrsta fundi ársins 2025.

Fræðslunefnd samþykkir samhljóða ofangreindar breytingar og vísar til byggðarráðs til afgreiðslu.

17.Greining á rými á deildum í leikskólum

Málsnúmer 2407066Vakta málsnúmer

Í samræmi við skýrslu spretthóps leggur fræðslunefnd til að gerð verði greining á rýmum deilda í leikskólum Skagafjarðar m.t.t. hvort fjöldi barna og starfsfólks á hverri deild uppfylli gildandi reglur og/eða reglugerðir.
Fræðslunefnd felur starfsfólki að annast greininguna.

18.Starfsánægjukannanir í leikskólum

Málsnúmer 2407067Vakta málsnúmer

Í samræmi við skýrslu spretthóps leggur fræðslunefnd til að innleiddar verði reglulegar starfsánægjukannanir í leikskólum. Fræðslunefnd felur starfsfólki í samráði við skólastjórnendur að útfæra verkefnið með fyrirvara um fjármögnun þess. Fræðslunefnd óskar eftir því að fá starfsánægjukannanir til kynningar ársfjórðungslega og að verkefnið verði endurmetið haustið 2025 og þá tekin ákvörðun um hvort hagur sé af því að halda því áfram.
Fræðslunefnd vísar erindinu til byggðarráðs.

19.Úrlausnir í leikskólamálum í Varmahlíð

Málsnúmer 2404130Vakta málsnúmer

Í kjölfar afgreiðslu fræðslunefndar á fundi sínum þann 10. júní sl. var auglýst eftir starfsfólki til starfa á skólahópsdeild í Varmahlíðarskóla. Gengið hefur verið frá ráðningu tveggja starfsmanna, deildarstjóra með leyfisbréf kennara og starfsmanns með menntun á sviði uppeldis- og menntunarfræði. Fræðslunefnd fagnar ráðningu starfsfólks skólahópsdeildar í Varmahlíðarskóla.

Í samtali við foreldra kom fram skýr vilji til þess að leiksvæði Varmahlíðarskóla yrði girt af enn frekar ef af verkefninu verður. Leggur fræðslunefnd til við byggðarráð að kostnaður við slíka framkvæmd verði kannaður og að ráðist verði í verkefnið ef tilefni er til.

20.Tillaga um menntastefnu

Málsnúmer 2406193Vakta málsnúmer

Fulltrúi VG og óháðra leggur fram eftirfarandi bókun:
Menntastefnu Skagafjarðar á að endurskoða á þriggja ára fresti. Núverandi menntastefna var gefin út árið 2020 og því ætti að vera komið að endurskoðun.

Samkvæmt markmiðsgrein laga um grunnskóla nr. 91/2008 er hlutverk grunnskóla, í samvinnu við heimilin, er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Starfshættir grunnskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, kristinni arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi. Þá skal grunnskóli leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við stöðu og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð, [farsæld] 1) og menntun hvers og eins.
Grunnskóli skal stuðla að víðsýni hjá nemendum og efla færni þeirra í íslensku máli, skilning þeirra á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn. Nemendum skal veitt tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og að afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.
Grunnskóli skal stuðla að góðu samstarfi heimilis og skóla með það að markmiði að tryggja farsælt skólastarf, almenna velferð og öryggi.

Núverandi menntastefna er afar ítarleg og yfirgripsmikil.

VG og óháð leggja til að endurskoðun hennar feli í sér að útbúið verði einfalt og skýrt vinnuplagg, til lengri tíma en þriggja ára, með ákveðinni kynningu og innleiðingu í kjölfarið. Að þeirri vinnu komi ekki einungis sérfræðingar fjölskyldusviðs, skólastjórnendur og kennarar, heldur einnig nemendur og foreldrar til að tryggja aðkomu allra þeirra sem eiga að hafa slíka stefnu að leiðarljósi. Aðilum annarra menntastiga og atvinnulífsins verði einnig boðnir velkomnir í þessari vinnu.

Starfsmönnum nefndarinnar verði falið að annast skipulag og umsjá með þessari vinnu.

Fræðslunefnd tekur undir tillögu VG og óháðra um að endurskoðun menntastefnu feli í sér að útbúið verði einfalt og skýrt vinnuplagg. Leggur nefndin einnig áherslu á að skýr, tímasett og mælanleg markmið verði hluti af stefnunni líkt og bókað var undir 6. dagskrárlið. Mikilvægt er að vanda til verka, byggja á gögnum og bjóða alla hagaðila að borðinu við vinnu að menntastefnu fyrir öll skólastig.

Stefnt hefur verið að því að endurskoðun menntastefnu hefjist á haustmánuðum að loknum öðrum stórum verkefnum sem fræðslunefnd og starfsfólk hafa unnið í undanfarna mánuði, þ.m.t. vinnu spretthóps um nýja nálgun í leikskólamálum og úrlausnir í leikskólamálum í Varmahlíð.

Lögð er til eftirfarandi breytingartillaga:

Fræðslunefnd leggur til að menntastefna Skagafjarðar verði tekin til endurskoðunar og útbúin einföld stefna með skýrum, tímasettum og mælanlegum markmiðum. Stefnan skal byggjast á gögnum og nauðsynlegri undirbúningsvinnu þar sem staða skóla í Skagafirði er kortlögð m.t.t. samanburðarmælinga og helstu áskorana í menntun barna á landsvísu. Nefndin leggur áherslu á að menntastefnan verði fyrir öll skólastig og að allir helstu hagaðilar hafi tækifæri til að koma að vinnunni. Þá skiptir máli að stefnunni verði fylgt eftir með markvissri innleiðingu. Fræðslunefnd felur starfsfólki að skipuleggja vinnufund með stjórnendum allra skólastiga í haust til þess að ræða sameiginlega nálgun á það hvernig vinna við nýja stefnu verður unnin og hvernig afurðin verður.

Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 18:40.