Fara í efni

Skráningardagar í leikskólum

Málsnúmer 2407057

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd - 29. fundur - 08.07.2024

Í skýrslu spretthóps er fjallað um skráningardaga og telur spretthópurinn þá aðgerð geta bætt starfsumhverfi og vellíðan starfsfólk og barna í leikskólum Skagafjarðar. Skráningardagar eru dagar þar sem ekki er gert ráð fyrir að börn mæti í leikskólann nema foreldrar skrái þau sérstaklega. Markmiðið með skráningardögum er að gefa foreldrum tækifæri til að spara leikskólagjöld ef þeir geta haft börnin heima og til að starfsmenn geti í meira mæli nýtt styttingu vinnuvikunnar eða sumarorlof þessa daga. Í kringum jól, áramót og páska undanfarin ár hefur foreldrum gefist kostur á niðurfellingu gjalda skrái þeir börn sín ekki í leikskóla vissa daga.

Fræðslunefnd leggur til að settar verði reglur um skráningardaga í Skagafirði. Skráningardagar skulu vera 20 á hverju ári og skulu skráningardagar fylgja haust- og vetrarfríi grunnskóla, jóla- og páskaleyfi grunnskóla þegar ekki er um skipulagsdag eða lokun vegna starfsmannafunda að ræða á sömu dögum í leikskólum. Skal einnig bjóða upp á skráningardaga á klemmudögum, þegar einn virkur dagur er á milli frídaga, sé ekki nú þegar skipulagsdagur eða lokun af öðrum ástæðum á þeim dögum. Sá fjöldi skráningardaga sem ekki kemst á slíka daga skal settur á aðra dag sem leikskólastjórar telja að geti hentað starfseminni eða að megi gera ráð fyrir að börn verði færri en venjulega. Upptaka skráningardaga skal ekki hafa áhrif á tilmæli til leikskóla að samræma skipulagsdaga og aðra lokunardaga við skóladagatal grunnskóla.

Foreldrar skulu skrá börn sín sérstaklega í leikskólann þessa daga með rafrænum hætti a.m.k. 4 vikum áður en daginn ber upp. Greitt verður sérstaklega fyrir skráningardaga og skal fjárhæð ákveðin í gjaldskrá leikskólagjalda.

Leikskólastjórar skulu merkja skráningardaga skýrmerkilega inn á skóladagatal og fræðslunefnd þarf að samþykkja skráningardaga ár hvert, sem og beiðnir um tilfærslur á skráningardögum.

Fræðslunefnd óskar eftir því að fá árlega kynningu á nýtingu skráningardaga, hlutfalli fjarvista barna sem skráð voru á skráningardegi og nýtingu starfsfólks á vinnutímastyttingu eða orlofi á skráningardögum.

Fræðslunefnd felur starfsfólki að útbúa drög að reglum um skráningardaga til samþykktar fyrir fræðslunefnd á næsta fundi.

Fræðslunefnd - 30. fundur - 15.08.2024

Drög að verklagsreglum um skráningardaga í leikskólum í Skagafirði lagðar fram í framhaldi af bókun á 29. fundi fræðslunefndar. Fræðslunefnd samþykkir verklagsreglurnar samhljóða.