Fara í efni

Sumarleyfi í leikskólanum Ársölum 2025

Málsnúmer 2502177

Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd - 36. fundur - 27.02.2025

Leikskólinn er mikilvægur hluti af lífi barnafjölskyldna. Því var ákveðið árið 2023 að fara af stað með það verkefni að bjóða upp á opnun leikskólans Ársala allt árið. Síðustu tvö ár hafa Ársalir þannig verið opnir allt sumarið og hefur það mælst vel fyrir af foreldrum/forráðamönnum. Við svo veigamiklar breytingar á skipulagi leikskólans hafa orðið ýmsar áskoranir sem mikilvægt er að vinna lausn á í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk leikskólans. Markmiðið er enn hið sama, þ.e. að í framtíðinni verði viðhöfð heilsársopnun í Ársölum ef kostur er, þó svo að í sumar verði gerð undantekning á því.
Í vetur hefur gengið erfiðlega að manna allar stöður í Ársölum og af þeim sökum hefur ekki verið hægt að taka á móti þeim barnafjölda sem húsnæði leikskólans býður upp á. Ekki er fyrirséð að það náist að ráða í þær stöður sem vantar á næstunni sem og að manna sumarleyfi starfsmanna. Sú staða gerir það erfiðara fyrir vikið að bjóða upp á heilsársopnun árið 2025. Er því lagt til að leikskólinn Ársalir verði lokaður 14.-25. júlí 2025 vegna sumarleyfa. Stefnt er að því opið verði allt sumarið 2026. Börn skulu fá 4 vikna samfleytt sumarleyfi og eru leikskólagjöld felld niður á þeim tíma. Þá er einnig lagt til að boðið verði upp á að lengja sumarfrí barna gegn niðurfellingu leikskólagjalda en slíkt hefur verið í boði síðustu tvö ár og hefur reynst vel.
Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að sumarlokun Ársala verði 14.-25. júlí 2025 vegna sumarleyfa. Nefndin samþykkir einnig að tímabilið sem niðurfelling gjalda á við um árið 2025 verði frá 2. júní til 15. ágúst og felur starfsfólki að auglýsa skráningu í sumarfrí í Ársölum við fyrsta tækifæri í samráði við skólastjórnendur. Vill nefndin hvetja foreldra/forráðamenn að nýta sér þann sveigjanleika til að létta undir með skipulagningu sumarfría starfsfólks.
Þá felur nefndin sviðsstjóra fjölskyldusviðs að fylgja eftir áætlun um viðhald lóðar og húsnæði leikskólans í samráði við skólastjórnendur og framkvæmdasvið sveitarfélagsins. Samþykkt samhljóða.