Fara í efni

Fræðslunefnd

36. fundur 27. febrúar 2025 kl. 16:15 - 18:10 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Hrund Pétursdóttir formaður
  • Jóhanna Ey Harðardóttir varam.
    Aðalmaður: Agnar Halldór Gunnarsson
  • Tinna Kristín Stefánsdóttir varam. áheyrnarftr.
    Aðalmaður: Steinunn Rósa Guðmundsdóttir
  • Sigrún Eva Helgadóttir aðalm.
Starfsmenn
  • Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
  • Rakel Kemp Guðnadóttir leiðtogi farsældar, fræðslu og ráðgjafar
  • Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir skólastjóri leikskóla
  • Þ. Elenóra Jónsdóttir áheyrnarftr. grunnsk.kennara
  • Linda Björnsdóttir áheyrnarftr. leikskóla
  • Agnes Skúladóttir áheyrnarftr. foreldra leiksk.barna
Fundargerð ritaði: Bryndís Lilja Hallsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs
Dagskrá

1.Menntastefna Skagafjarðar

Málsnúmer 2502207Vakta málsnúmer

Kristrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Ásgarðs, skólaráðgjafar, kom inn á fundinn í gegnum fjarfundarbúnað og kynnti þjónustu við gerð og innleiðingu menntastefnu fyrir Skagafjörð. Skólastjórnendur grunnskóla Skagafjarðar hafa fengið kynningu frá Ásgarði og er í samráði við þá lagt til að gengið verði til samninga við Ásgarð skólaráðgjöf um vinnu við gerð og innleiðingu menntastefnu. Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra fjölskyldusviðs að ganga til samninga við Ásgarð með þeim fyrirvara að Byggðarráð samþykki að verkefnið fái fjármögnun með viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2025. Vísað til byggðarráðs.

2.Sjálfsmatsskýrslur leikskólanna 2023-2024

Málsnúmer 2411143Vakta málsnúmer

Sjálfsmatsskýrslur Birkilundar og Tröllaborgar skólaárið 2023-2024 lagðar fram til kynningar. Fræðslunefnd óskar eftir því að fá sjálfsmatsskýrslu Ársala til kynningar á næsta fundi nefndarinnar. Samþykkt samhljóða.

3.Framkvæmd sundkennslu á unglingastigi - dreifibréf

Málsnúmer 2501313Vakta málsnúmer

Dreifibréf frá mennta- og barnamálaráðuneyti til allra skólastjóra grunnskóla og sveitarfélaga vegna sundkennslu á unglingastigi í grunnskólum landsins lagt fram til kynningar.

4.Fundargerðir skólaráðs Árskóla 2024-25

Málsnúmer 2502065Vakta málsnúmer

Fundargerð skólaráðs Árskóla frá 9. janúar 2025 lögð fram til kynningar.

5.Mannauðsmælingar í skólum Skagafjarðar

Málsnúmer 2502175Vakta málsnúmer

Í lok síðasta árs samdi Skagafjörður við HR Monitor um reglulegar mannauðsmælingar. Mannauðsstjóri stillir upp mælingum í samstarfi við HR Monitor. Hægt er að mæla allt að 12 sinnum á ári. Upphaflega var stefnt að því að senda út könnun mánaðarlega en nú er horft til þess að gera mælingar annan hvern mánuð. Spurt er um níu þætti í hvert sinn sem snúa að gæðum og tengslum, starfsánægju, sjálfstæði til ákvarðanatöku, stuðning frá stjórnendum, kröfur um árangur, skýra framtíðarsýn, um áhuga, virðingu og hollustu, þjálfun og þróun og ein opin spurning er lögð fyrir í hverjum mánuði. Helstu niðurstöður úr mælingum eru sendar beint til þeirra sem tóku þátt í mælingu, en jafnframt er áhersla lögð á að stjórnendur taki samtal með sínum starfsmannahóp um niðurstöður mælinga hverju sinni.
Niðurstöður fyrstu mælinga í skólum Skagafjarðar lagðar fram til kynningar fyrir fræðslunefnd.

6.Fræðsla fyrir starfsmenn skólamötuneyta

Málsnúmer 2502195Vakta málsnúmer

Í kjölfar þess að E.coli smit kom upp á leikskóla í Reykjavík leggur fræðslunefnd áherslu á mikilvægi þess að starfsfólk skólamötuneyta sæki námskeið um matvælaöryggi. Fræðslunefnd felur sviðsstjóra fjölskyldusviðs að ganga úr skugga um að allt starfsfólk skólamötuneyta hafi fengið fræðslu um matvælaöryggi. Ef úrbóta er þörf er mikilvægt að bregðast við því tafarlaust. Samþykkt samhljóða.

7.Staða í leikskólamálum

Málsnúmer 2401049Vakta málsnúmer

Lagðar fram til kynningar upplýsingar frá leikskólastjórum um stöðu á biðlistum, mönnun og aðlögun nýrra nemenda.
Í Ársölum er staða í starfsmannamálum ekki góð og hefur það hamlað því að geta aðlagað nýja nemendur eftir áramót. Því miður hafa afar fáar umsóknir borist um störf. Mönnun er tæp miðað við þann nemendafjölda sem er í leikskólanum núna. Ekki hefur verið hægt að gefa foreldrum upp dagsetningu á upphafi aðlögunar vegna þessarar stöðu. Þegar náðst hefur að aðlaga nemendur verða 18 börn eftir á biðlista sem munu hafa náð eins árs aldri haustið 2025.
Í Birkilundi eru 10 börn á biðlista, þar af þrjú sem verða eins árs í haust. Tvö börn á biðlista eru með pláss í Tröllaborg á meðan þau bíða eftir plássi í Varmahlíð. Ekki er gert ráð fyrir að hægt verði að taka inn börn af biðlistanum fyrr en eftir að nýr leikskóli verður tekinn í notkun í haust.
Í Tröllaborg hafa öll börn sem náð hafa eins árs aldri verið tekin inn. Ef þörf skapast fyrir fleiri nemendur þá þarf að fjölga stöðugildum. Aðeins eitt barn er á biðlista fyrir næsta haust. Eitt barn sem bíður eftir því að komast að í Ársölum mun vera nemandi í Tröllaborg á Hólum þar til það kemst að á Sauðárkróki.

8.Sumarleyfi í leikskólanum Ársölum 2025

Málsnúmer 2502177Vakta málsnúmer

Leikskólinn er mikilvægur hluti af lífi barnafjölskyldna. Því var ákveðið árið 2023 að fara af stað með það verkefni að bjóða upp á opnun leikskólans Ársala allt árið. Síðustu tvö ár hafa Ársalir þannig verið opnir allt sumarið og hefur það mælst vel fyrir af foreldrum/forráðamönnum. Við svo veigamiklar breytingar á skipulagi leikskólans hafa orðið ýmsar áskoranir sem mikilvægt er að vinna lausn á í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk leikskólans. Markmiðið er enn hið sama, þ.e. að í framtíðinni verði viðhöfð heilsársopnun í Ársölum ef kostur er, þó svo að í sumar verði gerð undantekning á því.
Í vetur hefur gengið erfiðlega að manna allar stöður í Ársölum og af þeim sökum hefur ekki verið hægt að taka á móti þeim barnafjölda sem húsnæði leikskólans býður upp á. Ekki er fyrirséð að það náist að ráða í þær stöður sem vantar á næstunni sem og að manna sumarleyfi starfsmanna. Sú staða gerir það erfiðara fyrir vikið að bjóða upp á heilsársopnun árið 2025. Er því lagt til að leikskólinn Ársalir verði lokaður 14.-25. júlí 2025 vegna sumarleyfa. Stefnt er að því opið verði allt sumarið 2026. Börn skulu fá 4 vikna samfleytt sumarleyfi og eru leikskólagjöld felld niður á þeim tíma. Þá er einnig lagt til að boðið verði upp á að lengja sumarfrí barna gegn niðurfellingu leikskólagjalda en slíkt hefur verið í boði síðustu tvö ár og hefur reynst vel.
Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að sumarlokun Ársala verði 14.-25. júlí 2025 vegna sumarleyfa. Nefndin samþykkir einnig að tímabilið sem niðurfelling gjalda á við um árið 2025 verði frá 2. júní til 15. ágúst og felur starfsfólki að auglýsa skráningu í sumarfrí í Ársölum við fyrsta tækifæri í samráði við skólastjórnendur. Vill nefndin hvetja foreldra/forráðamenn að nýta sér þann sveigjanleika til að létta undir með skipulagningu sumarfría starfsfólks.
Þá felur nefndin sviðsstjóra fjölskyldusviðs að fylgja eftir áætlun um viðhald lóðar og húsnæði leikskólans í samráði við skólastjórnendur og framkvæmdasvið sveitarfélagsins. Samþykkt samhljóða.

9.Heimsóknir fræðslunefndar í leik- og grunnskóla Skagafjarðar vorið 2025

Málsnúmer 2502201Vakta málsnúmer

Fræðslunefnd fór í formlega ferð til að heimsækja allar skólastofnanir Skagafjarðar vorið 2023. Tímabært er að nefndin setji á dagskrá aðra slíka ferð nú í vor.
Fræðslunefnd samþykkir samhljóða að fela sviðsstjóra að finna hentugar dagsetningar í samráði við skólastjórnendur.

10.Tillaga um menntastefnu

Málsnúmer 2406193Vakta málsnúmer

Á fundi fræðslunefndar þann 8. júlí 2024 lagði fulltrúi VG og óháðra fram eftirfarandi tillögu:

“Núverandi menntastefna er afar ítarleg og yfirgripsmikil. VG og óháð leggja til að endurskoðun hennar feli í sér að útbúið verði einfalt og skýrt vinnuplagg, til lengri tíma en þriggja ára, með ákveðinni kynningu og innleiðingu í kjölfarið. Að þeirri vinnu komi ekki einungis sérfræðingar fjölskyldusviðs, skólastjórnendur og kennarar, heldur einnig nemendur og foreldrar til að tryggja aðkomu allra þeirra sem eiga að hafa slíka stefnu að leiðarljósi. Aðilum annarra menntastiga og atvinnulífsins verði einnig boðnir velkomnir í þessari vinnu.
Starfsmönnum nefndarinnar verði falið að annast skipulag og umsjá með þessari vinnu.?

Í fundargerð þessa fundar stendur m.a.:

“Stefnt hefur verið að því að endurskoðun menntastefnu hefjist á haustmánuðum að loknum öðrum stórum verkefnum sem fræðslunefnd og starfsfólk hafa unnið í undanfarna mánuði, þ.m.t. vinnu spretthóps um nýja nálgun í leikskólamálum og úrlausnir í leikskólamálum í Varmahlíð.?

Í fundagerð kemur einnig fram að “Fræðslunefnd felur starfsfólki að skipuleggja vinnufund með stjórnendum allra skólastiga í haust til þess að ræða sameiginlega nálgun á það hvernig vinna við nýja stefnu verður unnin og hvernig afurðin verður.? Hefur þessi vinnufundur átt sér stað og hver var þá niðurstaða þeirrar vinnu?

Menntastefnu Skagafjarðar á að endurskoða á þriggja ára fresti. Núverandi menntastefna var gefin út árið 2020 og er því löngu kominn tími á endurskoðun. VG og óháð ítreka aftur mikilvægi þess að farið verði markvisst í þessa vinnu sem fyrst.

Fræðslunefnd vill benda á að undir fyrsta lið á dagskrá þessa fundar er fjallað um stöðuna á gerð menntastefnu og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum hvernig tilhögun þeirrar vinnu verður. Var áætlað að vinnan myndi hefjast sl. haust en vegna ófyrirséðra atburða þurfti að fresta þeirri vinnu. Ásgarður skólaráðgjöf hefur reynslu af gerð menntastefnu í samráði við sveitarfélög og er lagt til að þau aðstoði einnig við innleiðinguna sem er mikilvægur hluti af heildarferlinu.

11.Trúnaðarbók fræðslunefndar 2025

Málsnúmer 2502241Vakta málsnúmer

Eitt mál tekið fyrir. Fært í trúnaðarbók.

Fundi slitið - kl. 18:10.