Fara í efni

Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum

Málsnúmer 2502236

Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar - 135. fundur - 26.02.2025

Byggðarráð Skagafjarðar harmar að búið sé að leggja fram frumvarp á Alþingi (þingskjal 107), þar sem verið er að draga til baka breytingar sem gerðar voru á búvörulögum nr. 99/1993 með lögum nr. 30/2024, en þar var opnað fyrir heimild sláturhúsa og kjötafurðastöðva til samstarfs og/eða sameiningar, með það að markmiði að þau gætu hagrætt í rekstrinum og þannig stuðlað að hærra afurðaverði til bænda og lægra vöruverði til neytenda.
Byggðarráð Skagafjarðar skorar á atvinnuvegaráðherra að draga umrætt þingmál tafarlaust til baka og hætta við áformin. Jafnframt bendir byggðarráð á að það er í hæsta máta óeðlilegt að fara fram með þessa tillögu að breytingu á lögum á meðan beðið er niðurstöðu Hæstaréttar sem væntanleg er um 20. apríl nk. Sú niðurstaða mun skera úr um niðurstöðu Héraðsdóms frá 18. nóvember sl. en hún var sú að umrædd lög hafi ekki verið sett á með réttum stjórnskipulegum hætti.
Byggðarráð Skagafjarðar minnir jafnframt á mikilvægi þess að íslenska ríkið standi vörð um innlenda búvöruframleiðslu og að henni sé gert kleift að hagræða í rekstri afurðastöðva. Samkeppnin við innfluttar afurðir er mikil en í öllum okkar nágrannalöndum eru afurðastöðvar bæði fáar og mjög stórar og hagræðing því þegar búin að eiga sér stað þar.