Fara í efni

Byggðarráð Skagafjarðar

135. fundur 26. febrúar 2025 kl. 12:00 - 14:13 að Sæmundargötu 7a
Nefndarmenn
  • Gísli Sigurðsson formaður
  • Einar Eðvald Einarsson varaform.
  • Jóhanna Ey Harðardóttir aðalm.
  • Álfhildur Leifsdóttir áheyrnarftr.
Starfsmenn
  • Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri
  • Baldur Hrafn Björnsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Fundargerð ritaði: Baldur Hrafn Björnsson Sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Háholt

Málsnúmer 2502052Vakta málsnúmer

Mál síðast á dagskrá 134. fundar byggðarráðs þann 19. febrúar sl.

Meðferðarheimilið Háholt tók til starfa í janúar árið 1999. Húsið er 386 fm að stærð, sérbyggt sem meðferðarheimili og var rekið sem slíkt í tæp 20 ár. Árið 2014 voru gerðar miklar endurbætur á húsinu til að íslensk stjórnvöld gætu uppfyllt ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um neyðarvistun barna. Þremur árum síðar tóku stjórnvöld þá ákvörðun að loka Háholti en byggja þess í stað nýja meðferðarstofnun nær höfuðborgarsvæðinu og samkvæmt fréttum frá þeim tíma var búið að tryggja fjárheimild til uppbyggingar slíkrar stofnunar og rekstrarfé. Undanfarin sumur hefur Reykjadalur rekið sumarbúðir fyrir börn og ungmenni í Háholti en húsið ekki verið nýtt á veturna. Þrátt fyrir margar ábendingar frá sveitarfélaginu Skagafirði til mennta- og barnamálaráðuneytis og Barna- og fjölskyldustofu um tilvist Háholts og aðstöðuna þar virðist sá kostur ekki hafa verið tekinn til skoðunar af hálfu stjórnvalda sem meðferðarúrræði, jafnvel þó sú óásættanlega staða sé uppi að börn eru í dag neyðarvistuð í fangaklefum í Hafnarfirði. Áður en sveitarfélagið tók þá ákvörðun að setja Háholt á sölu var enn og aftur send tilkynning til framangreindra aðila um að til stæði að setja húsið á sölu en engin viðbrögð hafa borist frá ráðuneytinu eða Barna- og fjölskyldustofu þrátt fyrir það.

Tvö tilboð hafa nú borist í fasteignina Háholt.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að hafna tilboðunum og felur Sunnu Björk Atladóttur hjá Fasteignasölu Sauðárkróks að svara þeim.

2.Ósk um upplýsingar

Málsnúmer 2502233Vakta málsnúmer

Álfhildur Leifsdóttir fyrir hönd VG og óháð sendi inn svohljóðandi erindi:

"Með tölvupósti þann 24. maí 2024, fyrir 9 mánuðum síðan, óskaði undirrituð eftir upplýsingum um hvaða verktakar hafa fengið verk án útboðs á vegum sveitarfélagsins síðastliðin 5 ár og hve mikið var greitt fyrir hvert verk. Upplýsingarnar áttu við þau verk sem ekki voru útboðsskyld en voru yfir eina milljón í kostnaði.
Enn hafa hafa þessar upplýsingar ekki verið afhentar þrátt fyrir nokkrar ítrekanir á málinu síðastliðna mánuði.

Samkvæmt lögum um opinber innkaup og innkaupareglum sveitarfélaga, sem sveitarfélögum er skylt að setja sér, ætti að vera skýrt hvernig innkaupum er háttað, þar með talið hvenær rétt er að viðhafa útboð og hvenær þess þarf ekki. Þessar reglur ættu einnig að taka á því hvernig upplýsingar um innkaup eru aðgengileg, þar á meðal hvaða verktakar frá greiðslur fyrir verk sem ekki fara í útboð. Sveitarstjórnarmenn eiga rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem liggja fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins og varða málefni sem geta komið til umfjöllunar í sveitarstjórn sbr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga. Sveitarstjórnarmenn bera ábyrgð á að tryggja lögmæta og hagkvæma starfsemi sveitarfélags og er upplýsingarétturinn rýkur þáttur í að þeir geti uppfyllt þá skyldu.

Í ljósi þessa löngu tafa á afhendingu áður umbeðna upplýsinga, legg ég nú formlega fram það erindi fyrir byggðarráð að fá þær afhentar, nú innan þess tímaramma sem sveitarstjórnarlög kveða á um."

Samkvæmt 28. grein sveitarstjórnarlaga eiga sveitarstjórnarmenn rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem liggja fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þær upplýsingar sem óskað er eftir liggja ekki tilbúin fyrir í stjórnsýslu sveitarfélagsins heldur hefur þurft mikla vinnu við að safna þeim saman og yfirfara með hvaða hætti farið var í tiltekin verk, hvort farið var í útboð, viðhöfð verðfyrirspurn, unnið eftir rammasamningum o.s.frv. Hafa ber í huga að sveitarfélagið hefur framkvæmt eða sinnt viðhaldi fyrir um eða yfir milljarð króna á ári hverju undanfarin ár.

Það er ákvörðun sveitarstjóra eða sveitarstjórnar að taka hvort farið sé í slíka vinnslu. Ef ákvörðun er tekin um slíka vinnslu er ekki tiltekinn tímafrestur á skilum heldur ber að upplýsa fyrirspyrjanda um ef vinnslan tekur langan tíma.

Fyrir liggur að sveitarstjóri hefur upplýst fyrirspyrjanda um að unnið sé að vinnslu gagna til svara fyrirspurninni. Jafnframt hefur fyrirspyrjandi verið upplýstur um hve viðamikil hún er. Þá liggur fyrir að þeir starfsmenn sem höfðu mesta aðkomu að verklegum framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins á þessum árum, þ.e. fyrrverandi sviðsstjóri veitu- og framkvæmdasviðs, forstöðumaður framkvæmda og umsjónarmaður eignasjóðs, eru ýmist komnir til annarra starfa eða fallnir frá og aðgangur að hluta gagna því vandkvæðum bundinn.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að taka saman upplýsingar og svara fyrirspurninni.

3.Áform um sölu félagsheimila í Skagafirði

Málsnúmer 2305106Vakta málsnúmer

Í maí 2023 varð byggðarráð Skagafjarðar sammála um að skoða hvort ekki væri skynsamlegt að selja hlut sveitarfélagsins í mörgum af þeim 10 félagsheimilum sem sveitarfélagið á ýmist að öllu leyti eða að verulegu leyti eignarhlut í. Á fundum byggðaráðs í janúar 2024 var síðan fjallað áfram um hugsanlega sölu og fundað um hana með fulltrúum Ljósheima, Skagasels og Félagsheimilisins Rípurhrepps, ásamt því að samþykkt var samhljóða að upplýsa um áformin með skriflegum hætti til fulltrúa félagasamtaka sem hafa tengst uppbyggingu húsanna. Einnig hefur verið leitað eftir heimild menningar- og viðskiptaráðuneytis til að hefja söluferli þessara félagsheimila í samræmi við lög um félagsheimili nr. 107/1970. Svar barst við því erindi frá ráðuneytinu 11. maí 2024, þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða sölu.
Í framhaldi af þessu var boðið til opinna funda í hverju og einu þessara þriggja framangreindu félagsheimila þar sem íbúum var gefinn kostur á að segja sína skoðun. Fundirnir voru góðir og málefnalegir en megin niðurstaða þeirra var að það væri ekki talið skynsamlegt að sveitarfélagið ætti öll þessi félagsheimili en notkunarmynstur þeirra hefði breyst mikið á liðnum árum vegna meðal annars breyttra samgangna og fleira. Á fundunum komu einnig fram skiptar skoðanir um hvernig sveitarfélagið ætti að standa að sölunni.
Með bréfi dagsettu 5. júlí 2024 óskaði hópur íbúa í Hegranesi eftir sveitarfélagið gengi ekki til þess að auglýsa Félagsheimili Rípurhrepps til sölu, heldur yrði gengið til viðræðna við þann hóp um eignarhald og rekstrarumsjón hússins. Í framhaldinu var fundað með forsvarsmönnum hópsins. Í kjölfar þess hafa tvær mismunandi útfærslur á söluleiðum verið kannaðar. Annars vegar að auglýsa viðkomandi félagsheimili til sölu og selja hæstbjóðenda eða hins vegar að setja upp matskerfi þar sem hverjum og einum matshluta væri gefið vægi við mat á þeim tilboðum sem myndu berast. Sú leið að ganga til samninga við einstaklinga eða hópa án auglýsingar er ekki ásættanleg með hliðsjón af jafnræði íbúa og stjórnsýslureglum.
Eftir ítarlega skoðun og með hagsmuni allra íbúa Skagafjarðar að leiðarljósi er niðurstaðan sú að það sé ekki góð stjórnsýsla að ganga til viðræðna við einstaklinga eða hópa um að eignast húsið án auglýsingar. Sú leið að setja upp matskerfi til að velja milli mismunandi hópa eða einstaklinga er flókin í framkvæmd, ásamt því að vægi verðsins í tilboði viðkomandi myndi alltaf vega þungt. Það er því niðurstaða byggðarráðs að heiðarlegast og gagnsæjast sé að auglýsa viðkomandi félagsheimili til sölu til hæstbjóðanda á opnum markaði og þá geta bæði einstaklingar eða hópar boðið í eignina.

Álfhildur Leifsdóttir VG og óháðum óskar bókað:
"VG og óháð telja að sala félagsheimila í dreifðum byggðum Skagafjarðar þurfi að fara fram með afar varfærnum hætti og í nánu samráði við íbúa hvers svæðis fyrir sig. Félagsheimili gegna mikilvægu hlutverki sem samkomustaðir fyrir íbúa, bæði í menningarlegu og félagslegu tilliti, og því verður ekki horft eingöngu til fjárhagslegra sjónarmiða við ákvarðanir um framtíð þeirra.
Við leggjum áherslu á að engin félagsheimili í jaðarbyggðum eða svæðum þar sem þau gegna lykilhlutverki í félagslífi og samheldni samfélagsins verði seld án breiðrar sáttar við nærsamfélagið. Jafnframt teljum við að áður en ákvörðun er tekin um sölu einstakra félagsheimila verði að liggja fyrir ítarlegt mat á samfélagslegum áhrifum slíkrar sölu og hvaða úrræði standa til boða til að viðhalda því mikilvæga hlutverki sem félagsheimilin gegna í sínum nærumhverfum.
Sú leið að nota matskerfi til að velja félagsheimilunum framtíðareigendur er vel fær og hefur verið farin áður hjá sveitarfélaginu þegar “Hlaðan? eða Sauðá fékk nýtt hlutverk.
VG og óháð munu ekki samþykkja sölu félagsheimila sveitarfélagsins nema sýnt sé fram á að slík sala sé í góðri sátt við íbúa viðkomandi svæðis og að önnur úrræði hafi verið skoðuð til að tryggja áframhaldandi aðgengi samfélagsins að nauðsynlegum félags- og menningarlegum mannvirkjum.
Undirrituð minnir á að áheyrnarfulltrúi í byggðarráði hefur ekki atkvæðarétt. "

Byggðarráð samþykkir því samhljóða að hafna hugmyndum áðurnefnds undirbúningshóps sem óskaði eftir að ganga til viðræðna um yfirtöku eignarinnar án þess að hún væri auglýst á opnum markaði.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að auglýsa félagsheimilið Skagasel og Félagsheimili Rípurhrepps til sölu á almennum markaði og felur sveitarstjóra að semja við Fasteignasölu Sauðárkróks um að sjá um framkvæmdina.

Jafnframt samþykkir byggðarráð samhljóða eftirfarandi tillögu:
"Við uppbyggingu félagsheimilanna í Skagafirði komu félög eins og ungmennafélag, kvenfélag og búnaðarfélag að byggingu og rekstri félagsheimilanna með margvíslegum hætti, svo sem með stofnframlagi, sjálfboðavinnu félagsaðila eða við að skaffa efnivið. Þó svo félögin hafi ekki tekið virkan þátt í rekstri og kostnaði við viðhald húsanna þá getum við öll verið sammála um að framlag þessara félaga hafi skipt sköpum í uppbyggingu og rekstri húsanna. Virkni þessara félaga er mismunandi í dag og hafa ungmennafélögin sameinast allflest undir Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) og er Félag skagfirskra kvenna (SSK) samnefnari þeirra 11 kvenfélaga sem eru starfandi í Skagafirði í dag. Byggðarráð samþykkir að 10% af söluandvirði félagsheimilanna sem seld verða muni renna til UMSS og SSK, í framhaldinu væru þessi tvö félög ábyrg fyrir að nýta fjármunina með sanngjörnum hætti í þágu sinna félagsmanna. Þetta ákvæði gildir ekki í þeim tilfellum þar sem til eru sérsamningar milli viðkomandi félaga og sveitarfélagsins um skiptingu söluandvirðis, komi til sölu viðkomandi félagsheimils."

4.Erindi vegna Ketiláss

Málsnúmer 2502178Vakta málsnúmer

Stefanía Hjördís Leifsdóttir, rekstraraðili félagsheimilisins Ketiláss í Fljótum sendi formlegt bréf, dagsett 6. febrúar sl., til að lýsa yfir áhyggjum af gólfi í sal hússins. Starfsmenn eignasjóðs fóru á staðinn og hefur tóku út ástandið á gólfinu. Þeir meta ástand gott að öðru leiti en sjáanlegt slit er á álagsflötum á yfirborði gólfefna í sal sem hægt er að bregðast við með því að pússa upp parketið og lakka það að nýju.

Byggðarráð samþykkir samhljóða að setja yfirborðsmeðhöndlun á parketi í fjárhagsáætlun næsta árs fyrir Ketilás.

5.Frágangur á Birkimel í Varmahlíð

Málsnúmer 2502187Vakta málsnúmer

Stjórn Íbúasamtaka Varmahlíðar sendi formlegt erindi til byggðarráðs Skagafjarðar dagsett 17. febrúar 2025. Í bréfinu er greint frá því að á fundi íbúasamtakanna 12. febrúar sl. hafi verið fjallað um vöntun á frágangi á Birkimel í Varmahlíð. Er þá sérstaklega horft til þess að eftir sé að ganga frá gangstéttum, setja upp götulýsingu og gerð einhverra hraðatakmarkandi aðgerða til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Óskað er eftir skriflegu svari frá sveitarfélaginu um hvernig er áætlað að ganga frá götunni og hvenær áætlað sé að því verði lokið.

Byggðarráð upplýsir um að tilhögun götulýsingar við syðri hluta Birkimels verður unnin með sama hætti og við Nestún á Sauðárkróki, þ.e. að götulýsingu verður komið fyrir við þegar byggð hús og svo bætt við koll af kolli eftir því sem fleiri hús rísa. Byggðarráð felur jafnframt sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs að vinna kostnaðaráætlun fyrir lagningu gangstéttar, annars vegar við norðurhluta götunnar frá þeim enda sem gangstétt lýkur, og hins vegar við nýrri hluta götunnar. Byggðarráð tekur málið aftur fyrir þegar sú áætlun liggur fyrir.



6.Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum

Málsnúmer 2502236Vakta málsnúmer

Byggðarráð Skagafjarðar harmar að búið sé að leggja fram frumvarp á Alþingi (þingskjal 107), þar sem verið er að draga til baka breytingar sem gerðar voru á búvörulögum nr. 99/1993 með lögum nr. 30/2024, en þar var opnað fyrir heimild sláturhúsa og kjötafurðastöðva til samstarfs og/eða sameiningar, með það að markmiði að þau gætu hagrætt í rekstrinum og þannig stuðlað að hærra afurðaverði til bænda og lægra vöruverði til neytenda.
Byggðarráð Skagafjarðar skorar á atvinnuvegaráðherra að draga umrætt þingmál tafarlaust til baka og hætta við áformin. Jafnframt bendir byggðarráð á að það er í hæsta máta óeðlilegt að fara fram með þessa tillögu að breytingu á lögum á meðan beðið er niðurstöðu Hæstaréttar sem væntanleg er um 20. apríl nk. Sú niðurstaða mun skera úr um niðurstöðu Héraðsdóms frá 18. nóvember sl. en hún var sú að umrædd lög hafi ekki verið sett á með réttum stjórnskipulegum hætti.
Byggðarráð Skagafjarðar minnir jafnframt á mikilvægi þess að íslenska ríkið standi vörð um innlenda búvöruframleiðslu og að henni sé gert kleift að hagræða í rekstri afurðastöðva. Samkeppnin við innfluttar afurðir er mikil en í öllum okkar nágrannalöndum eru afurðastöðvar bæði fáar og mjög stórar og hagræðing því þegar búin að eiga sér stað þar.

7.Samráð; Frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Málsnúmer 2502170Vakta málsnúmer

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 32/2025, "Frumvarp til laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga".

Umsagnarfrestur er til og með 28.02.2025.

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar því að loksins sé komið fram frumvarp til laga um breytingu á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það er löngu tímabært að endurskoða reglurnar og uppfæra þær til samræmis við þarfir og raunveruleika sveitarstjórnarstigsins í dag en sveitarfélögum landsins hefur fækkað umtalsvert á liðnum áratugum á sama tíma og verkefnum þeirra hefur fjölgað verulega. Byggðarráð fagnar því jafnframt að í frumvarpinu er lögð áhersla á að Jöfnunarsjóður styðji í auknum mæli við landstór, fjölkjarna sveitarfélög sem hafa stór þjónustusvæði, fjölbreytt byggðarmynstur og af þeim sökum miklar og flóknar útgjaldaþarfir. Breytingarnar eru til þess fallnar að styðja við þróun sveitarstjórnarstigsins og sjálfbærni þess og er mikilvægur þáttur í jöfnun búsetuskilyrða í dreifðum byggðum.

8.Samráð; Frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum - mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög

Málsnúmer 2502204Vakta málsnúmer

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 38/2025, "Frumvarp um breytingar á sveitarstjórnarlögum - mat á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög".

Umsagnarfrestur er til og með 04.03.2025.

Byggðarráð Skagafjarðar hefur ítrekað bent á skort á kostnaðarmati eða að það sé framkvæmt á ófullnægjandi hátt og fagnar því fyrirhuguðum áformum um að mikilvægi mats á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög sé lagt til grundvallar við gerð laga og reglugerða.

9.Samráð; Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52 2016 (fyrirkomulag almennra íbúða)

Málsnúmer 2502217Vakta málsnúmer

Innviðaráðuneytið kynnir til samráðs mál nr. 40/2025, "Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016 (fyrirkomulag almennra íbúða)".

Umsagnarfrestur er til og með 06.03.2025.

Byggðarráð Skagafjarðar fagnar áformum um breytingar á lögum um almennar íbúðir. Nauðsynlegt er að stuðla að lækkun fjármögnunarkostnaðar stofnframlagshafa en einnig að tryggja að stuðningur við húsnæðisuppbyggingu sé í samræmi við raunverulegan byggingarkostnað íbúða.

10.Mannauðsmælingar HR monitor

Málsnúmer 2502171Vakta málsnúmer

Hrefna Gerður Björnsdóttir, mannauðsstjóri Skagafjarðar, sat fundinn undir þessum lið.

Hrefna Gerður kynnti niðurstöður HR monitor mannauðsmælinga sem sendar eru með reglulegu millibili til allra starfsmanna sveitarfélagsins.

11.Lóðarleigusamningar á Nöfum

Málsnúmer 2308167Vakta málsnúmer

Málið var síðast á dagskrá 129. fundar byggðarráðs þann 15. janúar sl.

Leigusamningar fjölda samninga um lóðir á Nöfum á Sauðárkróki rann út síðastliðin áramót. Þeir leigutakar sem fyrir eru á lóðunum eiga samkvæmt skilmálum leigusamnings forleigurétt á þeim lóðum sem þeir hafa haft til leigu. Formlegt bréf var sent á leigutaka þess efnis að óskað var eftir viðbrögðum um hvort leigutakar hyggðust nýta sér forleiguréttinn. Búið er að taka saman yfirlit yfir þær lóðir sem skilað verður inn og þeim lóðum sem leigutakar hyggjast nýta forleigurétt sinn.

Fundi slitið - kl. 14:13.