Menningar- og kynningarnefnd
Menningar- og kynningarnefnd Skagafjarðar
Fundurinn var haldinn í Safnahúsinu á Sauðárkróki og Ráðhúsinu,
miðvikudaginn 13.09.2006 kl. 9:00-12:00.
DAGSKRÁ:
1) Mótun safnastefnu - málefni Héraðsbókasafns Skagfirðinga
Unnar Ingvarsson forstöðumaður Safnahúss Skagfirðinga og Dóra Þorsteinsdóttir héraðsbókavörður kynntu starfsemi safnsins, lagaramma, þróun og aðstöðu. Umfang starfseminnar er töluvert og fer vaxandi; virk bókasafnsskírteini eru um 800 og heimsóknir á safnið um 15.000 á ári. Bókakostur, sem skráður er í tölvukerfi, er um 50.000 eintök. Safnið hefur ekki sótt um aðgang að Gegni, bókasafnskerfi Landsbókasafns.
Rekstur almenningsbókasafns er meðal skylduverkefna sveitarfélaga sbr. Lög um almenningsbókasöfn 1997 nr. 36 16. maí. Héraðsbókasafn Skagfirðinga er rekið af Sveitarfélaginu Skagafirði, sem hluti af Safnahúsi Skagfirðinga. Menningar- og kynningarnefnd Sveitarfélagsins Skagafjarðar er bókasafnsstjórn. Auk þessa safns eru skólabókasöfn í grunnskólunum, lestrarfélög eru enn nokkur til, við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og við Hólaskóla eru einnig bókasöfn. Auk þess ber sjúkrahúsum og dvalarheimilum að hafa bókasöfn skv. lögum og Heilbrigðisstofnun á safn. Þá eru stofnanir eins og Byggðastofnun og þær rannsóknastofnanir sem starfa í héraði líklega með vísi að bókasöfnum. Lagt var til fyrir all mörgum árum að starfsemi skólabókasafnanna yrði sameinuð en einnig má hugsa sér sameiningu þeirra og almenningsbókasafnsins sem sæi um alla skráningu og frágang bóka þó söfn væru eftir sem áður aðgengileg í skólunum.
Engin lyfta er í Safnahúsinu og brunavarnakerfi ekki til staðar. Geymslur eru í kjallara og starfsfólk þarf að bera bækur og gögn milli hæða. Lesaðstaða er fyrir yngri börn og fullorðna notendur, en ekki er sérstök aðstaða fyrir unglinga. Safnið er ekki aðgengilegt fyrir hreyfihamlaða. Framtíðaráætlanir byggjast mjög á fyrirhuguðu menningarhúsi, en með nýrri aðstöðu væri hægt að koma betur til móts við markmið almenningsbókasafns eins og það er skilgreint í lögum. Þ.e. sem alhliða upplýsingamiðstöð fyrir almenning.
Farið var yfir fjármál safnsins, á þessu ári verða ófyrirséð launaútgjöld vegna veikinda. Framlög til bókakaupa eru ekki á áætlun fyrir söfn utan aðalsafnsins á Sauðárkróki. Breytingar eru fyrirsjáanlegar í starfsmannamálum þar sem héraðsbókavörður mun á næstunni óska eftir að minnka við sig í starfi og þá verður nauðsynlegt að ráða forstöðumann að bókasafninu.
Forstöðumaður Safnahúss kynnti erindi frá Skúla Skúlasyni rektor Hólaskóla þar sem hann fer fram á viðræður um samstarf að bókasafnsmálum sem lið í uppbyggingu þekkingarsamfélags og fræðastarfs í héraðinu. Nefndin tók þessu erindi vel og fól forstöðumanni að svara erindinu.
2) Önnur mál
a) Nefndin fór yfir drög að starfsáætlun og samþykkti.
Starfsáætlun menningar- og kynningarnefndar
Fundir
Nefndin fundar eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði, oftar ef þurfa þykir.
Vinnufundur um stefnu og starfsáætlanir með forstöðumönnum stofnana og sviðsstjóra er a.m.k. einu sinni á ári.
Einu sinni á ári er formönnum félaga í menningarstarfi boðið til fundar til kynningar og umræðu um stefnu og starfsáætlun nefndarinnar.
Menningarmál
- Stefnumótun í málefnum safnanna; Byggðasafns, Héraðsbókasafns, Héraðsskjalasafns og Listasafns. September-nóvember 2006.
Markmið: Að Skagafjörður sé þekktur fyrir öflugt safnastarf; rannsóknir, varðveislu og miðlun.
- Aðstaða
- Verkefni og áherslur
- Kynning og markaðssetning
- Fjármögnun
- Ársáætlun um menningardagskrá sveitarfélagsins. Október.
Markmið: Að íbúar og gestir Skagafjarðar eigi allan ársins hring kost á vandaðri og vel kynntri menningardagskrá.
- Hátíðir og viðburðir – dagsetningar
- Samningar við samstarfsaðila
- Rekstur og fjármagn
- Menningarsjóður. Október-desember, mars-apríl
Markmið: Að menningarsjóður efli menningarlíf héraðsins með markvissum úthlutunum til vandaðra verkefna.
- Starfsreglur
- Fjármagn
- Úthlutun
Kynningarmál
- Vefur sveitarfélagsins. Allt árið.
Markmið: Að vefurinn sé aðlaðandi, upplýsingar aðgengilegar og möguleikar á gagnvirkni nýttir sem kostur er.
- Kynning fyrir sveitarstjórn og nefndir á notkunarmöguleikum.
- Gagnvirkni; áætlun um kostnað og fyrstu skref
- Mat á virkni og viðmóti; rýnihópur
- Uppfærsla; útlitsbreytingar og áhugahvöt
- Rekstur
- Kynning á búsetukostum. Allt árið.
Markmið: Að gefa íbúum og væntanlegum íbúum upplýsingar um Skagafjörð sem búsetukost.
- Markhópar - skilgreining
- Miðlar - fjölmiðlar, vefur
- Samstarf við fjölmiðla - fræðsla til sveitarstjórnar og starfsmanna sveitarfélagsins
- Vefsíða sveitarfélagsins skoðuð m.t.t. þarfa markhópa
- Kostnaðaráætlun
b) Nefndin ræddi um kynningarefni fyrir nýja íbúa. Ákveðið var að skilgreina nýnema við Hólaskóla og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sem nýja íbúa og beina kynningu að þeim auk annarra, sem flytja lögheimili sitt í sveitarfélagið. Að sinni var ekki talin ástæða til að útbúa sérstakt kynningarefni, mikilvægara að þessi hópur fengi efni sem þegar hefur verið útbúið fyrir íbúa og gesti. Svo sem Skagafjarðarbæklinginn sem kynnir þjónustu og afþreyingu, símaskrá Kiwanis, ásamt kynningarbréfi sem býður lesandann velkominn og kynnir upplýsingar á vefsíðu sveitarfélagsins. Ákveðið að fela sviðsstjóra markaðs- og þróunarsviðs að útfæra þetta nánar á næstu vikum.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:00
Fundinn sátu Elísabet Gunnarsdóttir, Hrund Pétursdóttir, Guðrún Helgadóttir sem ritaði fundargerð, auk Unnars Ingvarssonar og Dóru Þorsteinsdóttur, sem voru gestgjafar fundarins í Safnahúsinu.