Fara í efni

Menningar- og kynningarnefnd

62. fundur 03. febrúar 2012 kl. 13:30 - 16:45 í Áshúsi, Glaumbæ
Nefndarmenn
  • Björg Baldursdóttir formaður
  • Sigríður Magnúsdóttir varaform.
  • Hrefna Gerður Björnsdóttir ritari
  • Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs
  • Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Áskell Heiðar Ásgeirsson sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs
Dagskrá

1.Starfsemi Byggðasafns Skagfirðinga

Málsnúmer 1201235Vakta málsnúmer

Til fundarins kom starfsfólk Byggðasafnsins og sveitarstjóri. Til fundarins var boðið fulltrúum í Byggðarráði og Atvinnu og ferðamálanefnd. Jón Magnússon fulltrúi í Byggðarráði sat fundinn.

Sigríður Sigurðardóttir kynnti starfsstefnu safnsins 2012 til 2015 og ný safnalög, sem afgreidd voru frá Alþingi 2011 og koma til framkvæmda 1. janúar 2012. Gerð var grein fyrir innri uppbyggingu safnsins sem tók nokkrum breytingum á sl. ári. Einnig kynnti hún skýrslu farskólahópa þar sem safnmenn landsins hafa sett fram sýn um hvernig söfn geta hagað samstarfi milli safna og við aðrar stofnanir/einstaklinga.
Starfsmenn safnsins kynntu sig og greindu frá þeim verkefnum sem eru væntanleg og í vinnslu. Starfsmenn safnsins eru 4,5. Fram kom að á frá 2003 hafa orðið til þrjú störf á safninu og eru tvö þeirra kostuð af sértekjum. Ljóst er að verkefni starfsmanna safnsins eru mörg og margvísleg, fyrir utan það að undirbúa móttöku þrjátíuþúsund gesta og sinna þeim.

Megin verkefni nú eru úrvinnsla fornleifarannsókna, fornleifaskráninga og skráning á munasafni Hjalta Pálssonar/Kristjáns Runólfssonar. Starfsmenn á fornleifadeild safnsins Guðný Zoëga og Guðmundur St. Sigurðarson greindu frá þeim rannsóknum sem deildin stendur fyrir og tekur þátt í með öðrum. Einnig var grein gerð fyrir þeim verkefnum sem fornleifadeildin tekur að sér víða um land til öflunar sértekna til reksturs deildarinnar.
Sigríður greindi frá umsóknum til ýmissa verkefna, m.a. útgáfu rita. Kom fram að rannsóknarskýrslur safnsins eru orðnar 130 og fjöldi greina eftir starfsmenn hafa birst í blöðum og öðrum ritum á undanförnum árum. Nýkomin er úr prentun veglega myndskreytt bók um handverkkvenna af Svaðastaðaætt, sem er afrakstur munarannsóknar sem fram fór í samstarfi við sjálfstætt starfandi þjóðfræðing.
Bryndís Zoëga, verkefnis- og skráningastjóri Fornverkaskólans sagði frá stöðu þess verkefnis og endurnýjuðum samningi við Tyrfingsstaðabændur um viðgerðir á bæjarhúsum þar og greindi frá aðkomu annarra samstarfsaðila.

Sigríður kynnti samstarf við Sögusetur íslenska hestsins, félagið Á Sturlungaslóð, Vesturfarasetrið og Áskaffi. Fram kom að vinnuaðstaða kaffistofunnar (Áskaffis) í Áshúsinu er óviðunandi á meðan ekki er hægt að ljúka aðgerðum í kjallara hússins. Nefndin telur brýnt að endurbætur verði gerðar sem allra fyrst í kjallaranum með tilliti til þess mikla fjölda gesta sem heimsækja Áskaffi á ári hverju. Nefndin samþykkir að vísa því til eignasjóðs að gerðar verði nauðsynlegar endurbætur á aðstöðu í kjallara Áshússins í samvinnu við Byggðasafnið.

Guðný sagði frá samstarfi um fornleifaransóknir með með teymi bandarískra fornleifafræðinga sem stunda hér jarðsjárrannsóknir og hvernig samstarfi við Hólarannsóknina lauk.

Sigríður sagði frá mögulegum viðgerðaáformum á Árbakka (Suðurgötu 5) og áætluðum viðgerðum á þessu ári á gamla bænum í Glaumbæ.

Sigríður sagði frá frumvarpi til nýrra minjalaga og nýrri Minjastofnun Íslands, sem yrði til ef Alþingi samþykkir frumvarpið.

Sigríður óskaði eftir því við nefndina að hafin yrðir vinna við nýtt heildarskipulag fyrir Glaumbæjarsvæðið og þar á meðal stað sem hún kallar Guðríðargarð, sem er viðbót austan við safnsvæðið þar sem 11. aldar byggingarleifar hafa fundist.
Nefndin samþykkir að hefja hið fyrsta vinnu við framtíðarskipulag safnsvæðisins í Glaumbæ. Ákveðið að leita samstarfs við Skipulags- og byggingarnefnd um málið.

Nefndin þakkar Sigríði og starfsfólki hennar frábærar móttökur og sérlega fróðlega kynningu á starfi safnsins, færir þeim jafnframt bestu þakkir fyrir einstaklega fagleg og vel unnin störf í þágu þess og óskar þeim áframhaldandi farsældar í störfum sínum.

Fundi slitið - kl. 16:45.