Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar
1.Fréttatilkynning 22. október 2010
Málsnúmer 1010159Vakta málsnúmer
2.Heilbrigðiþjónusta í Skagafirði - staða mála
Málsnúmer 1010158Vakta málsnúmer
Stefán Vagn Stefánsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu.
"Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkir að óska eftir úttekt á lögmæti boðaðra skipulagsbreytinga á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og þeirri þjónustuskerðingu sem af þeim og boðuðum niðurskurði mun leiða."
Bjarni Jónsson tók til máls með leyfi varaforseta, Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, þá Viggó Jónsson sem lagði fram eftirfarandi bókun.
"Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar átelur harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við áætlaðan niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks og annarra stofnana í Skagafirði.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar telur eðlilegt að heilbrigðisstofnunin hagræði um 5% eins og tillögur Kristjáns Þórs Júlíussonar eins af nefndarmönnum í Fjárlaganefnd Alþingis leggur til.
Ég minni á að Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki er gert að skera niður um 11% á þessu ári og glímir við þann vanda í dag. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra lofaði því að það yrði tekið tillit til þess við gerð þessara fjárlaga."
Bjarni Jónsson tók til máls með leyfi varaforseta þá Sigurjón Þórðarson.Sigríður Svavarsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokks vék af fundi vegna annarra starfa.Viggó Jónsson tók til máls og lagði fram breytingu á fyrri bókun.
"Átelja ber harðlega þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við áætlaðan niðurskurð á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks og annarra stofnana í Skagafirði.
Eðlilegt er að heilbrigðisstofnunin hagræði um 5% eins og tillögur Kristjáns Þórs Júlíussonar eins af nefndarmönnum í Fjárlaganefnd Alþingis leggur til. Ég minni á að Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki er gert að skera niður um 11% á þessu ári og glímir við þann vanda í dag. Fyrrverandi heilbrigðisráðherra lofaði því að það yrði tekið tillit til þess við gerð þessara fjárlaga."
Bjarni Jónsson bar tillögu Stefáns Vagns upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.
3.Ályktun um Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki
Málsnúmer 1010157Vakta málsnúmer
Ásta Björg Pálmadóttir sveitarstjóri, tók til máls og lagði fram eftirfarandi tillögu.
Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar krefst þess að áformaður 30% viðbótarniðurskurður á Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki verði dregin til baka nú þegar.
Ennfremur ítrekar sveitarstjórn ályktun frá aukafundi 6. október 2010.
"Sveitarstjórn Skagafjarðar mótmælir harðlega þeirri aðför að heilbrigðisþjónustu í héraðinu sem boðuð er í frumvarpi til fjárlaga næsta árs og krefst þess að þau áform verði dregin til baka. Allar hefðir í samskiptum ríkis og sveitarfélaga eru þverbrotnar með því að lagðar eru fram einhliða og án samráðs, tillögur sem fela í sér grundvallarbreytingar á skipulagi þeirrar heilbrigðisþjónustu sem byggð hefur verið upp í landinu á undanförnum áratugum hvað varðar aðgengi á jafnréttisgrunni að heilbrigðis- og sjúkraþjónustu.
Landsbyggðin er afar hart leikin í fjárlagatillögum stjórnvalda og felst í þeim nánast aðför að heilbrigðisþjónustu í heilu landshlutunum. Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki er ætlað að taka á sig um 30% niðurskurð til viðbótar við þau 11% sem hún þarf að þola á yfirstandandi ári. Ef tillögurnar ganga eftir mun stofnunin ekki halda velli í núverandi mynd, ásamt því að stór hluti af þeirri þjónustu sem hún hefur veitt yrði aflagður. Gera má ráð fyrir að segja þurfi upp allt að 40 manns, en það samsvaraði því að um 1100 heilbrigðisstarfsmönnum væri sagt upp í Reykjavík. Það er mikill ábyrgðarhluti af hálfu stjórnvalda að leggja fram svo óraunsæjar tillögur sem aukin heldur valda ótta og skelfingu í þeim byggðarlögum þar sem harðast er borið niður.
Sveitarstjórn Skagafjarðar mun leita allra leiða til að standa vörð um störf við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki og þá góðu þjónustu sem hún hefur veitt. Íbúar í Skagafirði sem annarsstaðar á landsbyggðinni munu ekki una því að samfélagsgerð og velferðarþjónusta sem hefur verið byggð upp í heimabyggð í krafti fleiri kynslóða verði brotin niður á nokkrum mánuðum.
Um leið og Sveitarstjórn Skagafjarðar krefst þess að heilbrigðisráðherra dragi til baka áform um stórfelldan niðurskurð við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki, hvetur hún ráðherra til samráðs á jafnræðisgrunni við hagsmunaðila í héraði um allar stærri ákvarðanir er varða heilbrigðisstofnunina og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu í Skagafirði."
Forseti sveitarstjórnar bar tillöguna undir atkvæði og var hún samþykkt samhljóða.
Fundi slitið - kl. 19:15.
Forseti sveitarstjórnar las upp eftirfarandi fréttatilkynningu sem send var þingmönnum og fjölmiðlum s.l. föstudag af sveitarstjóra.
"Fréttatilkynning 22.10. 2010
Vegna ummæla heilbrigðisráðherra á Alþingi um að hópur á vegum ráðuneytisins sé nú á ferð um landið og haldi fundi með framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana og heimamönnum til að safna upplýsingum um stöðu mála þar sem til stendur að fara í stórfelldar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu ásamt miklum niðurskurði á fjárveitingum, vill sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar láta eftirfarandi koma fram: Sveitarstjórn er kunnugt um að ráðuneytismenn hafi rætt við framkvæmdastjóra og starfsfólk en ekki hefur verið haft neitt samband við sveitarstjórn eða aðra heimamenn um málið. Sveitarstjórn harmar það virðingarleysi sem fram kemur í vinnubrögðum ráðherra og starfsmanna ráðuneytis gagnvart heimamönnum þegar áform um svo gríðarlegar skipulagsbreytingar er að ræða sem tillögur í fjárlögum bera með sér.
Ráðherra hefur ekki enn sinnt beiðni sveitarstjórnar frá 4. október s.l. um fund með sveitarstjórn vegna málsins."
Fyrir hönd sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar,
Ásta Pálmadóttir, sveitarstjóri
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, Sigurjón Þórðarson, Jón Magnússon kvöddu sér hljóðs.
Þá tók Stefán Vagn Stefánsson til máls og lagði fram eftirfarandi bókun vegna fréttatilkynningar sveitarstjóra.
"Undirritaðir sveitarstjórnarfulltrúar lýsa yfir ánægju með og taka heilshugar undir þá fréttatilkynningu sem sveitarstjóri sendi á fjölmiðla 22. október síðastliðinn. Sveitarstjóra var falið á fundi sem oddvitar allra framboða í sveitarstjórn sátu, að koma efnislega á framfæri þeim athugasemdum og atriðum sem fram koma í fréttatilkynningunni. Efni hennar er einnig í fullu samræmi við ályktun, samþykkta af öllum sveitarstjórnarfulltrúum á fundi sveitarstjórnar þann 6. október síðastliðinn þar sem aðför að heilbrigðisþjónustu í Skagafirði var mótmælt. Mikilvægt er að sveitarstjórn beiti sér áfram af krafti gegn stórfeldum niðurskurði á fjárveitingum til heilbrigðisstofnunarinnar og mótmæli þeim vinnubrögðum og samráðsleysi sem stjórnvöld og heilbrigðisráðherra hafa viðhaft í tengslum við áformaðar grundvallarbreytingar á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni."
Bjarni Jónsson, Stefán Vagn Stefánsson, Bjarki Tryggvason, Sigríður Magnúsdóttir, Viggó Jónsson, Jón Magnússon, Sigríður Svavarsdóttir og Sigurjón Þórðarson.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir tók til máls og lagði fram eftirfarandi bókun.
Undirrituð átti ekki þátt í þessari bókun, hún var unnin án samráðs eða minnar vitundar. Ég vil því árétta fréttatilkynningu mína frá sl. föstudegi svohljóðandi.
Undirrituð sveitarstjórnarfulltrúi í Sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar vil árétta að fréttatilkynning sú sem birtist í fréttum 22. október og er sögð frá Sveitarstjórn Sveitarfélagins Skagafjarðar er röng. Það liggur ekki fyrir samþykkt tillaga frá Sveitarstjórn um málið. Þessi fréttatilkynning er unnin af meirihluta Framsóknarflokks og Vinstri grænna í Skagafirði. Ég harma að ákvörðun um að senda út þessa fréttatilkynningu hafi verið tekin án samráðs allra sveitarstjórnarfulltrúa og samþykktar í sveitarstjórn. Það er ekki nóg að kallað sé eftir samráði hjá ríkisvaldinu heldur þarf að huga að samráði innan sveitarstjórna og í þessu tilfelli innan Sveitarstjórnar Sveitarfélagins Skagafjarðar.
Þá tók Bjarni Jónsson til máls með leyfi varaforseta, Sigurjón Þórðarson, þá Viggó Jónsson sem lagði fram eftirfarandi tillögu.
"Vegna ummæla heilbrigðisráðherra á Alþingi um að hópur á vegum ráðuneytisins sé nú á ferð um landið og haldi fundi með framkvæmdastjórum heilbrigðisstofnana og heimamönnum til að safna upplýsingum um stöðu mála þar sem til stendur að fara í stórfelldar skipulagsbreytingar á heilbrigðisþjónustu ásamt miklum niðurskurði á fjárveitingum, vill sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar láta eftirfarandi koma fram: Sveitarstjórn er kunnugt um að ráðuneytismenn hafi rætt við framkvæmdastjóra og starfsfólk en ekki hefur verið haft neitt samband við sveitarstjórn eða aðra heimamenn um málið. Sveitarstjórn harmar það virðingarleysi sem fram kemur í vinnubrögðum ráðherra og starfsmanna ráðuneytis gagnvart heimamönnum þegar áform um svo gríðarlegar skipulagsbreytingar er að ræða sem tillögur í fjárlögum bera með sér. Ráðherra hefur ekki enn sinnt beiðni sveitarstjórnar frá 4.október s.l. um fund með sveitarstjórn vegna málsins.?
Greinargerð:
Þó að texti tillögunnar hafi þegar verið settur fram í fréttatilkynningu er mikilvægt að undirstrika alvöru boðaðra skipulagsbreytinga og niðurskurðar á heilbrigðisþjónustu fyrir skagfirskt samfélag, með því að sveitarstjórn árétti efni fréttatilkynningarinnar. Hjá því verður ekki komist að stjórnvöld og heilbrigðisráðherra sæti alvarlegri gagnrýni fyrir vinnubrögð sín.
Forseti bar tillögu Viggós Jónssonar upp til samþykktar.
Tillagan var samþykkt samhljóða en fulltrúi samfylkingar Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu og lagði fram eftirfarandi bókun.
Ég fagna því að sveitarstjórn fundi vegna boðaðs niðurskurðar á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Það var frumhlaup að senda út fréttatilkynningu sl. föstudag í nafni Sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar án þess að samþykkt lægi fyrir. Þetta er rétta leiðin enda fer sveitarstjórn með æðsta vald sveitarfélagsins. Ég tek heilshugar undir þessa tillögu.
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir.