Fara í efni

17. júní hátíðarhöld í Skagafirði

16.06.2023

Hátíðar- og skemmtidagskrá verður á Sauðárkróki í tilefni af þjóðhátíðardegi Íslands. Í ár verður dagskráin með breyttu sniði þar sem karnivalstemning mun ríkja á Árskólalóðinni, nánar tiltekið sunnan við íþróttahúsið á lóð Árskóla. Spáð er sannkölluðu sumar veðri svo íbúar Skagafjarðar eru hvattir til að gera sér glaðan dag og mæta á Árskólalóðina kl. 14.

Dagskrá 17. júní verður sem hér segir:

8:00    Fánar dregnir að húni
Íbúar eru hvattir til að draga fána að húni á flaggstöngum sínum.

11:00    17. júní hjólatúr
Íbúar eru hvattir til að fá sér hjólatúr í tilefni dagsins. Tilvalið að skreyta hjólin með Íslenska fánanum.

14:00    Karnival hátíðardagskrá sunnan við íþróttahús (á lóð Árskóla)

- Atli Gunnar Arnórsson flytur hátíðarræðu
- Fjallkonan les ljóð. Fjallkonan 2023 er Laufey Harpa Halldórsdóttir
- Leikfélag Sauðárkróks skemmtir gestum
- Tónlistarmaðurinn Atli Dagur flytur tónlist
- Hvolpasveitin mætir á svæðið
- Grillaðar pylsur í boði sveitarfélagsins
- Skátarnir selja candyfloss, loftblöðrur og rellur
- Hoppukastalar
- Teymt undir börnum á hestbaki
- Fótbolti með breyttu sniði á sparkvellinum
- Skemmtilegir leikir fyrir alla fjölskylduna
- Götukörfuboltamót

Hundaeigendur athugið! Samkvæmt samþykkt um hunda- og kattahald í sveitarfélaginu Skagafirði er bannað að fara með hunda á almennar útisamkomur.

 

15:00    Götukörfuboltamót á körfuboltavellinum við Árskóla
Spilað verður þrír á þrjá. Skráning á gotukorfubolti550@gmail.com eða í spurningakönnun inn á viðburðinum á Facebook. Keppt verður í tveimur flokkum: 15 ára og yngri og 16 ára og eldri.

 

Annað sem auglýst hefur verið í Skagafirði á þjóðhátíðardaginn

10:00    Hópakstur fornbíla um Skagafjörð

Agnar á Miklabæ og Jón í Miðhúsum efna til árlegrar ökuferðar fornbíla á þjóðhátíðardaginn. Ferðin hefst við Varmahlíðarskóla kl. 10. Ekið frá Varmahlíð að Flugumýri, hlýtt þar á messu kl. 11. Þaðan er farið í Héðinsminni og fengið sér hressingu. Síðan er ekið á Sauðárkrók. Ferðinni lýkur á planinu við Kaupfélag Skagfirðinga.

12:00-16:00    17 sortir þann 17. júní í Glaumbæ

Í tilefni 17. júní verður kaffihlaðborð í Áshúsi kl. 12-16 þar sem verða í boði 17 sortir af bakkelsi til að gæða sér á. Frír aðgangur er á safnsvæðið fyrir þau sem mæta í íslenskum þjóðbúning.

14:30-16:30    Kaffihlaðborð á Kaffi Krók