Fara í efni

Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021

05.05.2017
Skagafjörður

Í tilefni af fréttaflutningi um raforkuflutning og breytingar á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar er eftirfarandi samþykkt byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 26. janúar sl. og staðfest í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar 15. febrúar sl., komið á framfæri.

„Aðalskipulag Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021 var staðfest af umhverfisráðherra í maí 2012. Samkvæmt ákvæðum þágildandi skipulagslaga var heimilt, að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og ráðherra, að fresta gerð skipulagsáætlana fyrir ákveðin svæði. Þau svæði eru auðkennd á uppdrætti og var frestun heimil í fjögur ár. Sá tími er nú liðinn og m.a. þess vegna þarf að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Byggðarráð beinir því til sveitarstjórnar að hefja þurfi vinnu við breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagsins Skagafjarðar 2009-2021. Þörf er á að gera ákveðnar breytingar á aðalskipulaginu, s.s. fella út urðunarsvæði og vinna breytingar vegna legu Sauðárkrókslínu frá Varmahlíð til Sauðárkróks. Einnig þarf að vinna að framlengingu á frestaðri landnotkun virkjunarkosta og taka inn í skipulagsvinnuna ákvörðun um legu byggðarlínunnar um Skagafjörð.“

Samþykkt í byggðarráði með tveimur atkvæðum. Bjarni Jónsson (Vg) situr hjá við afgreiðsluna. Samþykkt í sveitarstjórn með sjö atkvæðum. Bjarni Jónsson óskar bókað að hann sitji hjá.