Aðgerðarpakki 2 í leikskólamálum í Skagafirði
Síðasta vor blasti við erfið staða þegar kom að innritun barna í leikskóla Skagafjarðar. Talsverð vöntun var á starfsfólki eins og annars staðar í atvinnulífinu og ófyrirséð hvort hægt væri að nýta öll pláss leikskólanna sökum þess. Til að mæta þessum aðstæðum var brugðist hratt við og ráðist í aðgerðir til að bæta starfsumhverfi leikskólanna og laða að starfsfólk til að bæta þar úr, sbr. aðgerðarpakki 1 í leikskólamálum í Skagafirði.
Ein af aðgerðunum fólst í því að veita þeim starfsmönnum sem börn eiga í leikskóla 50% afslátt af dvalargjaldi. Samhliða þessu var rætt um að koma til móts við aðra starfsmenn sem ekki njóta slíks afsláttar. Bókun fræðslunefndar Skagafjarðar var eftirfarandi: ,,Samhliða þessu verður unnið að frekari útfærslum annarra aðgerða sem til skoðunar hafa verið til að bæta starfsumhverfi leikskólanna og styðja við starfsfólks þeirra.“
Til að mæta þeim starfsmönnum sem ekki eiga börn á leikskóla og geta því ekki notið afsláttar af dvalargjöldum barna hefur fræðslunefndin tekið ákvörðun um að þeim verði veittir tveir frídagar á þessu skólaári. Leitast verður við að þeir frídagar verði teknir í kringum jól og áramót eða í kringum páska 2023. Óskað verður eftir skráningu barna þessa daga og foreldrar, sem geta haft börn sín heima, fá dvalargjöld niðurfelld. Tekjuskerðing sveitarfélagsins m.v. 60% nýtingu dvalar þessa daga er áætluð tæpar tvær milljónir króna.
Sem hluta af næstu aðgerðum leggur fræðslunefndin einnig til að veita leikskólum Skagafjarðar styrk að fjárhæð 30.000 kr. fyrir hvern starfsmann sem fer í námsferð vegna fyrirhugaðrar námsferðar leikskólans Ársala annars vegar, og þegar kemur að námsferð Tröllaborgar og Birkilundar hins vegar.
Aðgerðunum er ætlað að koma til móts við starfsmenn leikskólanna sem hafa verið undir auknu álagi síðustu mánuði vegna manneklu og breytinga á starfsumhverfi. Á þetta sérstaklega við leikskólann Ársali sem farið hefur í gegnum miklar breytingar í starfsmannahaldi, ný deild tekin í notkun auk annarra áskorana sem fylgja. Þá var leikskólanum einnig gert að skipuleggja fyrirhugaða námsferð starfsmanna í febrúar fremur en maí til samræmis við vetrarfrí Árskóla, bæði til hagræðis fyrir fjölskyldufólk og atvinnulíf. Fylgdi þeirri breytingu ákveðið óhagræði við skipulagningu ferðarinnar og aukinn kostnaður sem mætt er hér með. Um er að ræða sértæka aðgerð sem afmörkuð er við starfsmenn leikskóla Skagafjarðar vegna þeirra erfiðleika er leikskólarnir hafa staðið frammi fyrir vegna manneklu og áhrif þess á starfsfólkið sem hefur staðið vaktina síðustu mánuði svo unnt sé að tryggja viðeigandi þjónustustig í sveitarfélaginu gagnvart fjölskyldufólki og atvinnulífi.
- Starfsmenn sem ekki eiga börn á leikskóla fá tvo frídaga á þessu skólaári sem leitast verður við að veita í kringum jól og áramót eða í kringum páska 2023.
- Niðurfelling dvalargjalda til foreldra sem geta haft börnin sín heima þegar óskað verður eftir skráningu barna í kringum jól, áramót eða páska.
- Styrkur til leikskóla Skagafjarðar vegna námsferðar leikskólanna að fjárhæð 30.000 kr. fyrir hvern starfsmann sem fer í ferðina. Leikskólarnir fá greiddan styrkinn.
F.h. fræðslunefndar Skagafjarðar
Regína Valdimarsdóttir, Hrund Pétursdóttir, Steinunn Rósa Guðmundsdóttir og Agnar Gunnarsson