Fara í efni

Alþjóðlegi Downs dagurinn 21.03

21.03.2019
Í tilefni Downs dagsins, sokkar af sitt hvoru tagi

Í janúar síðastliðnum sótti talmeinafræðingur sveitarfélagsins, Ingibjörg Huld Þórðardóttir, námskeið í Noregi um talþjálfun barna með Downs heilkenni og aðrar þroskaraskanir.

Á námskeiðinu voru kynntar margvíslegar samskiptaleiðir og hvernig hægt er að eiga þroskandi og gefandi samskipti við einstaklinga með Downs heilkenni og miklar þroskaraskanir. Miklar rannsóknir eru í gangi á heimsvísu sem miða að því að þroska og örva málfærni einstaklinga með Downs heilkenni.

Það er mikill styrkur fyrir skólasamfélagið í Skagafirði að eiga að öflugan talmeinafræðing með fjölþætta þekkingu á máltjáningu og fjölbreyttum samskiptaleiðum.

Dagsetning alþjóðlega Downs dagsins er engin tilviljun því hún er táknræn og vísar til þess að Downs heilkenni er orsakað af auka litningi í litningi 21, þ.e. 3 eintök af litningi 21 - 21.03. Eitt af markmiðum dagsins er að auka vitund og minnka aðgreiningu.

Ingibjörg Huld Þórðardóttir á námskeiðinu í Noregi lengst til hægri