Fara í efni

Ályktun almannavarnarnefndar Skagafjarðar í kjölfar almannavarnarástands 10. - 16. des. 2019

17.12.2019

Almannavarnarnefnd Skagafjarðar fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að koma á fót starfshópi til að varpa ljósi á hinn gífurlega innviðabrest sem kom fram hér á landi í gjörningaveðrinu í síðustu viku.  Munu einstakir viðbragðsaðilar innan almannavarnarnefndarinnar senda starfshópnum ítarleg erindi.

Í ljósi þeirra gríðarlega alvarlegu og fordæmalausu aðstæðna er sköpuðust hér í umræddu veðri er almannavarnarnefnd sammála um að neðangreind atriði þarfnist tafarlausrar úrvinnslu af hálfu þar til bærra aðila. Er þar horft til þeirrar staðreyndar að flutningskerfi raforku hingað á Sauðárkrók er ekki hringtengt og samkvæmt upplýsingum almannavarnarnefndar er það laskað eftir miklar viðgerðir og í mun verra horfi en fyrir hið umrædda stórviðri.  Þá skal haft í huga að vetur er rétt byrjaður og alls óvíst um veðurfarið framundan. Það að Sauðárkrókslínan frá Varmahlíð að Sauðárkróki fari í jörð næsta sumar er mjög jákvætt skref en breytir því ekki að nú í vetur getur hæglega skapast aftur viðlíka hættuástand og var í síðustu viku, gerist veður válynd.

1)      Tenging Gönguskarðarsárvirkjunar við rafmagnskerfi Sauðárkróks. Fyrir liggur samþykki eiganda virkjunar.  

2)      Tetra sendir á láglendi í Skagafirði.  Að mati almannavarnarnefndar er réttast að koma slíkum sendi upp í Hegranesi og á þaki starfsstöðvar Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki.  Sú stofnun er eina ríkisstofnunin hér sem hefur aðgang að tryggu varaafli raforku.  Það var eingöngu tilviljun ein og í raun mikil mildi að ekki varð manntjón í óveðrinu þegar senda þurfti björgunarsveitarmenn upp á Tindastól til að slá Tetrasendinum þar inn á meðan veðrið hér stóð sem hæst. 

3)      Varaaflstöðvar aftur á Sauðárkrók.  Meðan ekki er hringtenging hér og fyrir liggur að byggðalínan er löskuð óskar almannavarnarnefnd eftir skriflegri staðfestingu þess efnis frá Rarik að þær tvær varaaflsstöðvar sem fluttar voru héðan verði aftur settar upp á Sauðárkróki þegar örugg dreifing raforku er tryggð þar sem þær eru nú.

4)      Þá óskar almannavarnarnefnd eftir samtali við flutningaðila eldsneytis um hvernig hægt sé að tryggja viðundandi birgðir af eldsneyti hér á Norðurlandi vestra og hvernig hægt sé að gera ráðstafanir varðandi að nálgast eldsneyti í rafmagnsleysi.

Almannavarnarnefnd óskar eftir skriflegum svörum um framkvæmd ofangreindra atriða frá til þess bærum aðilum fyrir kl. 16:00 næsta föstudag.  Að því er varðar lið 1, er rétt að það komi fram að hefji Rarik ekki framkvæmdir við umrædda tengingu fyrir þennan tíma mun almannavarnarnefnd fara fram á leigunám á tengibúnaði þeim sem þarf til tengingarinnar á grundvelli laga um almannavarnir og koma slíkri tengingu á sjálf á kostnað Rarik, eða eigin kostnað ef allt um þrýtur.

Almannavarnarnefnd Skagafjarðar lýsir því yfir að umræddar bráðaaðgerðir eru algerlega nauðsynlegar varðandi almannaöryggi hér í Skagafirði og, að því er varðar lið 4, á öllu NV-landi. 

Sé ekki gripið til tafarlausra aðgerða í samræmi við þessa ályktun, er ábyrgð á ástandi því sem síðar kann upp að koma í vetur vegna stórfelldra brotalama á innviðum hér í Skagafirði, ekki á ábyrgð nefndarinnar.