Ársreikningur 2013 samþykktur í sveitarstjórn
Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2013 var samþykktur samhljóða við síðari umræðu í sveitarstjórn í dag. Niðurstaðan er afar ánægjuleg, rekstrarafgangur samtals að upphæð 314 milljónir króna.
Ásta Pálmadóttir sveitarstjóri segir að ársreikningur ársins 2013 fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð gefi glögga mynd af afkomu sveitarfélagsins á árinu. Beri að þakka þann árangur sem þegar hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins, en jafnframt brýna menn áfram til góðra verka í þeirri vinnu sem er í gangi og framundan er. Mikilvægt er að áframhald verði á góðri samvinnu allra aðila svo halda megi þannig á málum að við getum áfram rekið hér gott samfélag sem er í stakk búið til að veita íbúum sínum góða þjónustu og þannig stuðla að áframhaldandi jákvæðri þróun í vexti og viðgangi sveitarfélagsins. Að lokum vill Ásta þakka öllu starfsfólki Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir þann góða árangur sem náðst hefur í rekstri sveitarfélagsins og síðast en ekki síst öllum þeim sem lögðu á sig ómælda vinnu við gerð þessa ársreiknings.
Ársreikningurinn samanstendur af upplýsingum um A hluta sveitarsjóðs og samantekinn A og B hluta. Í A hluta er aðalsjóður auk eignasjóða. Í B hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir og Tímatákn ehf.
Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 3.902 mkr. af samstæðunni í heild, A og B hluta. Þar af voru rekstrartekjur A hluta 3.289 mkr. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 3.199 mkr., þ.a. A hluta 3.012 mkr.. Rekstrarniðurstaða A og B hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er jákvæð um 703 mkr., þar af er rekstrarniðurstaða A hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um rúmar 277 millj króna. Afskriftir eru samtals tæpar 142 mkr., þar af 79 mkr. hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals tæplega 228 mkr., þ.a. eru 171 mkr. fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A og B hluta á árinu 2013 er 313,7 mkr. og rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 11 mkr.
Þegar horft er til rekstrarútgjalda, þá er vert að geta þess að laun og launatengdur kostnaður eru þar langstærstu kostnaðarliðirnir. Hjá samstæðunni allri, A og B hluta, hljóðuðu þessir kostnaðarliðir upp á um 1.978 mkr. á árinu eða sem nemur um 50,7% af samanlögðum tekjum samstæðunnar. Sambærilegar tölur fyrir A hluta eingöngu eru þær að laun og launatengdur kostnaður var um 1.877 mkr. eða 57,1% af heildartekjum A hlutans. Þetta er gríðarlegur árangur og er ljóst að markmið það sem sveitarstjórn setti sér varðandi launahlutfall hefur náðst. Í árslok 2013 störfuðu 365 starfsmenn hjá sveitarfélaginu í 312 stöðugildum.
Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A og B hluta voru í árslok samtals 6.995 mkr., þ.a. voru eignir A hluta 5.222 mkr.. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2013 samtals 5.487 mkr., þ.a. hjá A hluta 4.075 mkr.. Langtímaskuldir námu alls 3.199 mkr. hjá A og B hluta auk 321 mkr. næsta árs afborgana. Eigið fé nam 1.508 mkr. hjá samstæðunni í árslok og eiginfjárhlutfall 22%. Af þessari tölu nam eigið fé A hluta 1.148 mkr. og eiginfjárhlutfall 22%. Lífeyrisskuldbindingar nema 879 mkr. í árslok og hækkuðu á árinu um 48 mkr. á vegna aukinna lífeyrisréttinda.
Veltufé frá rekstri A og B hluta nam 529 mkr., þarf er veltufé frá rekstri A hluta 214 mkr.. Handbært fé frá rekstri A og B hluta er 940 mkr.. Fjárfestingahreyfingar námu á árinu 2013 721 mkr., þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 818 mkr. á árinu 2013. Afborganir langtímalána umfram nýjar lántökur námu á árinu 2013 200 mkr., handbært fé lækkaði um 298 þús.kr. á árinu og nam það 74 mkr. í árslok.
Í nýlegum sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi í upphafi árs 2012 segir í 64. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga að „samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B- hluta í reikningsskilum skv. 60 gr. séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum“. Má segja að þessar skyldur séu uppfylltar með ársreikningi ársins 2013. Einnig segir í 64.gr. nýrra sveitarstjórnarlaga að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60.gr. megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Frá heildarskuldum og skuldbindingum er heimilt að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall 133% á árinu 2013 hjá samstæðunni þegar búið er að draga frá hluta lífeyrisskuldbindinga af heildarskuldum og skuldbindingum eins og heimilað er samkvæmt reglugerð. Skuldahlutfall A hluta er 116% þegar búið er að draga frá lífeyrisskuldbindingu samkvæmt fyrrgreindri heimild. Séu lífeyrisskuldbindingar ekki dregnar frá er skuldahlutfallið 140% hjá samstæðunni.
Ársreikninginn er að finna hér.