Ársskýrsla Fornverkaskólans komin út
Samkvæmt ársskýrslu Fornverkaskólans fyrir árið 2014 var starfsemin heldur minni en árin á undan því færri og smærri styrkir fengust til verkefna skólans. Alls voru styrkirnir 1.453.302 kr sá stærsti frá Menntaáætlun Evrópusambandsins fyrir verkefnið CHIST 2014 upp á 903.302 kr. Menningarráð Norðurlands vestra, sem stutt hefur dyggilega við Fornverkaskólann frá upphafi, veitti tvo styrki.
Tvenn námskeið voru haldin á vegum skólans og sóttu þau 12 nemendur. Fyrra námskeiði var í vefnaði á kljásteinavefstað sem haldið var í Auðunarstofu á Hólum 2.-4. maí og það síðara var í torfhleðslu og var haldið á Tyrfingsstöðum fyrir þátttakendur í CHIST 2014, evrópsku samstarfsverkefni sem Fornverkaskólinn er þáttakandi að. Endurbætur á Tyrfingsstöðum héldu áfram og nú var hlaðan við fjárhúsin endurbætt.
Nánar má lesa um starfsemina í ársskýrslunni sem er á vef skólans.