Fara í efni

Áskorun til matvælaráðherra

24.08.2023

Á 59. fundi byggðarráðs Skagafjarðar, miðvikudaginn 23. maí 2023, samþykkti byggðarráð eftirfarandi áskorun til matvælaráðherra:

Á liðnu vori kynnti matvælaráðuneytið drög að nýrri gjaldskrá Matvælastofnunar sem fól í sér verulega hækkun á gjaldtöku vegna þjónustu sem stofnunin veitir, meðal annars matvælaframleiðendum, afurðastöðvum og smáframleiðendum. Í framleiðsluhéraði eins og Skagafirði þar sem matvælaframleiðsla er ein af stóru stoðum atvinnulífsins koma hækkanir sem þessar sér mjög illa fyrir alla framleiðendur, afurðastöðvar og neytendur. Hlutfallslega eru þó áhrifin mest á alla þá litlu framleiðendur sem hafa verið að byggja upp eigin vöruframboð undir merkjum smáframleiðenda eða beint frá býli. Við þá starfsemi hefur sveitarfélagið, landshlutasamtök og ríkið einnig stutt með margvíslegri aðkomu. Af viðbrögðum þessara aðila má ljóst vera að þessar hækkanir koma þeim mjög illa og sjá sumir hverjir ekki annað í stöðunni en að hætta framleiðslu og markaðssetningu undir merkjum beint frá býli.

Byggðarráð Skagafjarðar vill taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram frá Bændasamtökum Íslands, Samtökum fyrirtækja í landbúnaði, Samtökum smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli ásamt gagnrýni fjölmargra bænda og framleiðenda á þessa gjaldskrárhækkun. Jafnframt skorar byggðarráð á matvælaráðherra að endurskoða og endurmeta þörfina á svona gríðarlega kostnaðarsömu eftirliti sem raun ber vitni. Einnig má vísa til þess að heilbrigðiseftirlitið hefur einnig skyldum að gegna gagnvart þessum aðilum með tilheyrandi kostnaði ásamt þeirri staðreynd að umsetning þeirra er mjög lítil þegar á heildina er litið.