Ásta Ólöf færir þjónustu fatlaðra hjól með hjólastólarampi
Í dag var heldur betur líf og fjör í Iðju-hæfingu á Sauðárkróki þegar nýtt og glæsilegt hjól með hjólastólarampi var vígt. Eins og margir kannast við þá var það Ásta Ólöf Jónsdóttir sem stóð fyrir söfnun á hjólinu snemma árs og er nú hjólið komið í Skagafjörðinn og tilbúið til notkunar.
Hjólið er með rafmagnsmótor og er hannað svo að auðveldara sé að ferðast með fólk í hjólastól, hjólastólnum er einfaldlega bakkað upp á rampinn framan á hjólinu, hann festur niður og svo er hjólað af stað. Ekki þarf að færa farþegann milli hjólastólsins og hjólsins.
Efnt var til grillveislu í Iðju-hæfingu, þar sem Ásta Ólöf afhenti Grétu Sjöfn Guðmundsdóttur, félagsmálastjóra og framkvæmdastjóra málefna fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra, hjólið í dag. Ásta tók fyrsta rúntinn á hjólinu með Tinnu Rut Sigurbjörnsdóttur og gleðin leyndi sér ekki.
Kærar þakkir fyrir fallegt framtak, Ásta Ólöf! Eins og Gréta Sjöfn sagði þegar hún tók á móti hjólinu: „það ættu öll samfélög að eiga eina Ástu.“
Ásta Ólöf vildi koma á framfæri þökkum til allra sem lögðu sitt af mörkum til þess að gera þetta að veruleika.