Fara í efni

Atvinnulífssýning Skagafjarðar heppnaðist vel

22.05.2023
Starfsmenn Skagafjarðar á atvinnulífssýningu

Atvinnulífssýning Skagafjarðar var haldin um helgina í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Yfir 60 sýnendur voru á sýningunni og gafst þeim sem heimsóttu sýninguna tækifæri á að kynnast því fjölbreytta framboði sem fyrirtæki og félagasamtök í Skagafirði bjóða uppá. Þema sýningarinnar í ár var „Fögnum fjölbreytileikanum“ en Skagafjörður hefur gert samning við Samtökin ´78 um hinsegin fræðslu í skólum sveitarfélagsins.

Fjölbreytt dagskrá var á sýningunni. Skagfirskir tónlistarflytjendur stigu á stokk, íslenski fjárhundurinn var til sýnis og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti sýninguna og skrifaði undir samkomulag um byggingu menningarhúss í Skagafirði ásamt Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra Skagafjarðar. Íslandsmeistarar Tindastóls í körfuknattleik voru hylltir á sviðinu og færði sveitarfélagið Skagafjörður þeim peningagjöf af upphæð 2.000.000 kr. Jafnframt endurnýjuðu þeir Adomas Drungilas og Sigtryggur Arnar Björnsson samninga sína við félagið til næstu tveggja ára.

Sveitarfélagið Skagafjörður vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sýnenda sem tóku þátt í sýningunni og jafnframt þakka þeim gestum sem lögðu leið sína á sýninguna.