Atvinnulífssýningin Lífsins gæði og gleði 2014
Sveitarfélagið Skagafjörður mun í samvinnu við Skagafjarðarhraðlestina, SSNV og ýmsa aðila standa fyrir atvinnulífssýningu á Sauðárkróki við upphaf Sæluviku, dagana 26. – 27. apríl nk. Var sú ákvörðun tekin í kjölfarið á óformlegri könnun um tíðni atvinnulífssýninga þar sem mikill vilji kom fram um að halda sýningarnar á 2ja ára fresti en fyrri sýningar voru haldnar árin 2010 og 2012.
Sýningin verður sem fyrr öllum opin og aðgangur að henni ókeypis en sýningunni er einkum ætlað að draga fram þann fjölbreytileika sem er í atvinnulífi, félagastarfsemi og menningarlífi í Skagafirði, vekja jákvæða athygli á Skagafirði í fjölmiðlum, kynna sprota í nýsköpun og atvinnulífi og tengja enn betur saman íbúa og atvinnulíf. Stefnt er að því að samhliða sýningunni fari fram málþing um atvinnumál, menningarmál og þjónustu við íbúa í Skagafirði. Þá verður Sæluvika Skagfirðinga 2014 sett á sýningunni á sunnudeginum.
Sýningin verður opin frá kl. 10-17 á laugardegi og 10-16 á sunnudegi. Heimilt er að selja vörur á sýningunni. Svið verður á sýningarsvæðinu og skemmtiatriði velkomin! Nýprent býður upp á ráðgjöf og lausnir varðandi kynningarefni.
Skipulag sýningarinnar verður í stórum dráttum með sama sniði og var á fyrri sýningum sem haldnar voru undir sömu yfirskrift.
Við hvetjum fyrirtæki, félög, stofnanir og aðra sem hafa vöru, þjónustu, hugmynd eða eitthvað annað sem viðkomandi vill koma á framfæri til að taka þátt í sýningunni. Verði bása verður sem fyrr stillt í hóf.
Frekari upplýsingar um sýninguna, pöntunareyðublað vegna bása og kynningartilboð frá Nýprenti má finna hér.