Auglýsing um skipulagsmál - Sorpmóttaka og gámalóð Hofsósi
Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti á 27. fundi sínum þann 15. maí sl. að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir Sorpmóttöku og gámalóð, Hofsósi, Skagafirði, í samræmi við 41. gr skipulagslaga nr. 123/2010 og breytingu á aðalskipulagi Sveitarfélagins Skagafjarðar 2020- 2035 fyrir Sorpmóttöku og gámalóð, Hofsósi, Skagafirði, þar sem hluti athafnarsvæðis (AT-601) verður iðnaðarsvæði (I-601) í samræmi við 36. gr skipulagslaga nr. 123/2010.
Deiliskipulagstillagan er sett fram á uppdrætti með greinargerð nr. DS01, útgáfa 1.0 sem unnin var á Stoð ehf. verkfræðistofu. Skipulagssvæðið er 11.414 m² að stærð, á mótum Norðurbrautar að sunnan og Bæjarbrautar að austan. Að vestan afmarkast svæðið af vesturlóðamörkum áhaldahúss sveitarfélagsins. Skipulagsuppdrátturinn sýnir lóðir, aðkomu að lóðum og byggingarreiti á skipulagssvæðinu, ásamt helstu byggingarskilmálum. Í tillögunni eru sýndar þrjár lóðir á svæðinu, lóð gámageymslusvæðisins, lóð áhaldahússins og lóð sorpmóttökunnar. Starfsemi og umferðarsvæði sem fyrir eru á iðnaðarsvæðinu fá með deiliskipulagstillögunni skilgreindar lóðir, götur og innkeyrslur á lóðir. Í vinnslu er aðalskipulagsbreyting fyrir svæðið, sem auglýst er samhliða þessari deiliskipulagstillögu.
Deiliskipulagstillagan er auglýst frá 25. september til og með 8. nóvember 2024. Hægt er að skoða tillöguna í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar undir málsnúmeri 206/2023 á www.skipulagsgatt.is. Tillagan mun jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá kl. 10-12 og kl. 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin hér á heimasíðu Skagafjarðar.
Aðalskipulagsbreytingin felur í sér að skilgreint verður iðnaðarsvæði þar sem í dag er skilgreint athafnasvæði í gildandi aðalskipulagi. Innan athafnasvæðisins hafa verið gámar fyrir sorpmóttöku undanfarna áratugi og nú stendur til að byggja undir þá viðunandi og nútímanlegri aðstöðu en þeir standa á malarbornu plani í dag. Er það gert til að mæta þörfum og kröfum um aðgengi, snyrtilegra umhverfi og öryggisþáttum. Stærð athafnasvæðis AT601 breytist þar af leiðandi um því sem nemur stærð fyrirhugaðs iðnaðarsvæðis. Í vinnslu er tillaga að deiliskipulagi fyrir sorpmóttökustöð á Hofsósi, sem áformað er að auglýsa samhliða þessari aðalskipulagsbreytingu. Breyting þessi er í samræmi við deiliskipulagstillögu sem auglýst er samhliða.
Aðalskipulagsbreytingin er auglýst frá 25. september til og með 8. nóvember 2024. Hægt er að skoða tillöguna í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar undir málsnúmeri 309/2023 á www.skipulagsgatt.is. Tillagan mun jafnframt liggja frammi til kynningar í Ráðhúsinu, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá kl. 10-12 og kl. 12:30-15. Einnig er hægt að nálgast gögnin hér á heimasíðu Skagafjarðar.
Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi deiliskipulagstillöguna og aðalskipulagsbreytinguna. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina í síðasta lagi 8. nóvember 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa í afgreiðslu Ráðhússins, Skagfirðingabraut 17-21, 550 Sauðárkróki eða á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is.
Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni.
Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.
Skipulagsfulltrúi Skagafjarðar